Sextíu ár frá mannskaðaflóðinu á Auðnum

Staðlað

Auðnir-200_webFöstudagurinn langi 1953 var óvenju langur og dimmur í svarfdælskri sögu. Hann bar upp á 3. apríl. Síðdegis féll gríðarmikið snjóflóð á bæinn Auðnir í Svarfaðardal,  molaði öll hús á jörðinni og stöðvaðist ekki fyrr en niður undir Svarfaðardalsá. Tveir heimamenn fórust en tveimur var bjargað lifandi. Nær allur bústofninn fórst. Björgunarstarfið var mikil þrekraun og jafnframt andlegt áfall þeirra sem að komu. Þeir sem rifja upp hamfaradaginn nú, sex áratugum síðar, segja að atburðurinn sitji í sér og þeir hafi aldrei náð sér almennilega eftir lífsreynsluna skelfilegu.Á Auðnum bjuggu hjónin Ágúst Jónsson frá Göngustöðum og Snjólaug Flóventsdóttir, fædd á Þverá í Svarfaðardal en alin upp á Tjörn í hópi barna og barnabarna prestshjónanna, séra Kristjáns Eldjárn og Petrínu Soffíu Hjörleifsdóttur. Í minningargrein Þórarins Kr. Eldjárn, hreppsstjóra á Tjörn, um Snjólaugu í blaðinu Degi í ársbyrjun 1967 segist hann alltaf hafa litið á Snjólaugu sem uppeldissystur sína.

Ágúst og Snjólaug eignuðust fimm börn og komust tvö til fullorðinsára. Jón, sonur þeirra, og unnusta hans, Rannveig Valdimarsdóttir frá Teigi í Vopnafirði, höfðu tekið við búinu á Auðnum 1952  Hún kom í Auðnir árið áður sem kaupakona.

Jón og Rannveig  voru í þann veginn að ganga í hjónaband og hún var ófrísk þegar örlögin gripu í taumana.

Petrína Ágústsdóttir, dóttir Auðnahjóna og systir Jóns, var í vinnu á Akureyri og frétti af snjóflóðinu á bæinn sinn í  gegnum Ríkisútvarpið. Foreldrar og aðrir aðstandendur Rannveigar heyrðu að sjálfsögðu líka af tíðindinum í Ríkisútvarpinu.

Jónína Hallgrímsdóttir á Klaufabrekkum rifjaði upp í samtali núna í dymbilvikunni að Snjólaug á Auðnum hefði komið í heimsókn til sín nokkrum dögum fyrir slysið og Jóna fylgdi henni síðan heim. Þær gengu beina leið milli bæja og stigu tvisvar í snjó á leiðinni. Þá var með öðrum orðum nánast snjólaust í framsveitinni.

Síðdegis á skírdag fór að snjóa þarna í logni og það snjóaði alla nóttina og allan föstudaginn langa. Þessari logndrífu er þannig lýst að menn hafi ekki kynnst öðru eins í dalnum, snjónum kyngdi niður og menn óðu lausamjöllina í mitti! Síðdegis fór að hvessa, það brast á ekta norðlensk stórhríð og skyggni var nánast ekki neitt.

Enn þann dag í dag minnir logndrífa eldri Svarfdælinga á föstudaginn langa 1953 og þegar mikið snjóar í logni setur að þeim beyg. Slíkt veðurlag vekur upp daprar minningar um „Auðnaveðrið“ og afleiðingar þess.

Veðurstofa Íslands lýsir veðrinu í aðdraganda Auðnaslyssins á eftirfarandi hátt í greinargerð frá 2006:

N-stórhríð í sveitinni en logndrífa á Auðnum í þeirri átt og kominn um 80 cm djúpur snjór á láglendi. Undanfarna daga hafði verið stórhríð með fannfergi á Norðurlandi en áður en það brast á var auð jörð á Auðnum en hjarnfannir í lægðum til fjalla.

Flóðið fellur

Koprt_web_notaAuðnabærinn var skammt sunnan við Hól; einungis voru nokkur hundruð metrar á milli bæjanna (sjá kort til vinstri. Kortið er frá Landmælingum Íslands en Svarfælasýsl merkti Auðnir inn á það) .

Friðbjörn Zophoníasson á Hóli kom í heimsókn að Auðnum eftir hádegi á föstudaginn langa til að ná sér í bækur að lesa um páskana. Heimafólk á Auðnum vildi fá hann til að grípa með sér í spil en Friðbjörn afþakkaði það og fór heim um fjögurleytið. Skömmu síðar brast á stórviðri og sást ekki milli bæjanna.

Um sexleytið að kvöldi föstudagsins langa rofaði ögn til, nógu mikið til að það grillti í Auðnir frá Hóli þegar Zophonías Jónsson gáði til veðurs. Honum þótti framhúsið á Auðnum ekki vera lengur á sínum stað og að múrpípan hallast einkennilega. Þeir feðgar fóru þegar á vettvang. Þá kom í ljós hvað gerst hafði. Ekkert lífsmark var í snjónum og brakinu.

Hólsfeðgar skiptu liði til að ná í hjálp á næstu bæjum. Friðbjörn fór  í Klaufabrekkur en Zophonías, pabbi hans, í Hæringsstaðir og síðar að Urðum. Hreinn á Klaufabrekkum fór strax út í Auðnir. Hann kom heim aftur örmagna um áttaleytið morguninn eftir og lagðist til svefns en gat ekki sofnað. Áfallið sótti á hann eins og fleiri sem að slysinu komu. Þetta var löngu fyrir daga áfallahjálpar. Menn urðu einfaldlega að vinna sjálfir úr áföllum sínum og sorgum.

Þáttur Einars á Urðum

Eianr-a-urdumÁ Urðum var starfrækt símstöð framsveitarinnar á vegum Landsíma Íslands og Einar Hallgrímsson var því bæði í hlutverki bónda og símstöðvarstjóra. Símalínur úr Skagafirði lágu um Heljardalsheiði niður í Svarfaðardal, ofan við bæinn á Urðum og áfram til Dalvíkur.

Þegar á reyndi örlagadaginn 3. apríl 1953 var símalínan til Dalvíkur slitin eða símstöðin á Dalvík lokuð, nema hvoru tveggja hafi verið Einar náði alla vega ekki sambandi við nokkurn mann þar. Hann greip þá til þess ráðs að klifra upp í símastaur ofan við bæinn og tengja símtæki beint við línurnar. Þannig tókst honum að ná sambandi við Krossa á Árskógsströnd þar sem einnig var símstöð. Krossamenn létu boð ganga áfram til Akureyrar og þaðan áfram til Slysavarnafélags Íslands í Reykjavík.

Það var svo Ríkisútvarpið sem að ósk Slysavarnafélagsins sendi út neyðarkall frá Auðnum til slysavarnadeildarinnar á Dalvík, til Svarfdælinga og annarra vegna þess sem gerst hafði. Tilkynningin var þannig orðuð að þarna hefði orðið stórslys.

Viðbrögð Einars á Urðum skiptu auðvitað miklu máli. Menn vildu helst ekki hugsa þá hugsun til enda ef honum hefði ekki tekist að ná sambandi við Krossa með tilfæringunum í staurnum og koma þannig boðum eftir krókaleiðum til Dalvíkur.

Á meðfylgjandi myndbandi sést hvernig umhorfs var á vettvangi þessara atburða á  Auðnum núna í dymbilvikunni 2013 og Einar á Urðum rifjar upp föstudaginn langa 1953. Hann talar þarna um að hafa náð beinu sambandi við Dalvík forðum en það er misminni. Hann náði aldrei sambandi beint við Dalvík.

Egill Júlíusson útgerðarmaður var formaður slysavarnadeildarinnar á Dalvík og hóaði þegar í stað saman liði til að senda að Auðnum. Ákveðið var að brjótast fram dalinn á jarðýtu með sleða aftan í og á sleðanum var björgunarlið, sjö manns með skóflur, teppi og annan tilheyrandi búnað. Tvennum sögum fer af því hvort héraðslæknirninn í Árgerði, Daníel Á. Daníelsson var ýtusleðanum eða ekki. Hann fór alla vega fram í Auðnir þarna um kvöldið. Fararstjóri var Árni Guðlaugsson múrari, formaður björgunarsveitarinnar sem slysavarnadeildin setti á laggir 1951. Auðnaslysið var fyrsta stóra verkefni sveitarinnar.

Kristinn Jónsson bifvélavirki frá Hæringsstöðum stýrði ýtunni og með honum í för til halds og trausts var Sveinn mjólkurbílstjóri, bróðir hans. Kiddi Hær rifjaði upp þetta ferðalag í samtali núna í dymbilvikunni.

Ferðin sóttist seint vegna gríðarlegs fannfergis og svo var skyggnið bókstaflega ekki neitt framan af. Hæringsstaðabræður höfðu á stundum litla sem enga hugmynd um hvar þeir voru staddir. Á leiðinni lentu þeir til dæmis á brúsapalli við veginn og brutu hann niður. Sveinn bar kennsl á brakið og sagði þetta vera brúsapallinn við Blakksgerði, milli Grundar og Ytra-Garðshorns. Þá vissu þeir að minnsta kosti hvar þeir voru þá stundina!

Þegar kom að Urðum var svo mikill snjór ofan við bæinn, þar sem vegurinn lá, að Hæringsstaðabræður ákváðu að fara niður á tún, niður fyrir Urðabæinn, og síðan upp á veginn sunnan við Urðir.

Þegar hér var komið sögu var veður orðið skaplegra og létt hafði nokkuð til. Ferð björgunarmanna á ýtusleðanum tók um sex klukkustundir þá 17 kílómetra sem eru frá Dalvík fram í Auðnir.

Ömurleg aðkoma

moggiÞegar Dalvíkingar mættu var fyrir á Auðnum hópur manna af næstu bæjum við að grafa í flóðið. Sumir komu á skíðum, aðrir klofuðu snjóinn.

Aðkoman var í senn hrikaleg og ömurleg eins og nærri má geta. Um nóttina voru  30-35 manns að björgunarstörfum.

Annar hjálparleiðangur kom daginn eftir frá Dalvík til að urða dauða gripi úr bústofninum og skyggnast  um eftir verðmætum ef einhver fyndust. Aðstoð barst líka úr Skíðadal að morgni laugardags og lengra að úr Svarfaðardal. Tekin var stór gröf í hól fyrir dauðar kindur og kýr. Þetta verkefni situr enn í þeim sem að því komu. Árni Guðlaugsson, formaður björgunarsveitarinnar, stjórnaði aðgerðum á vettvangi.

Jón Ágústsson fannst fyrst af heimafólkinu. Hann lét frá sér heyra í snjónum þegar hann varð var við mannaferðir á slysstaðnum á föstudagskvöldið. Jón stóð uppréttur í snjónum, skorðaður á bak við stofuskápinn og hafði trúlega misst meðvitund en rankað síðan við sér. Það þurfti að grafa í kringum Jón alveg niður í gólf til að losa um hann, svo þéttur var snjórinn allt um kring. Þá hafði liðið um ein klukkustund frá því grannar hans fóru að grafa í fljóðið.

Jón var óslasaður og gat gengið sjálfur að Hóli, sem björgunarmönnum þótti með ólíkindum. Móðir hans, Snjólaug, lét líka fljótlega frá sér heyra í snjónum Hún hafði setið við hlið Ágústs, bónda síns, á rúmi hans og lesið fyrir hann upp úr Passíusálmunum þegar flóðið féll. Ofan á þeim hjónum var þakhluti sem björgunarmenn þurftu að draga til hliðar og þar undir var Snjólaug klemmd í braki, mikið marin og kvalin.

Ágúst fannst fljótlega látinn og lík hans var dregið á teppi að Hóli. Hann var 76 ára.

Afar erfiðlega gekk að bjarga Snjólaugu. Enn var þá ófundin Rannveig, unnusta Jóns. Snjólaug sagði aftur og aftur við björgunarmenn að þeir skyldu láta sig vera en nýta kraftana frekar í leit að Rannveigu. Björgunarmenn fóru að sjálfsögðu ekki að þeim ráðum. Snjólaug lá í snjónum í um sjö klukkustundir áður en tókst að losa hana og draga heim að Hóli á teppi. Björgunarmenn kviðu þeirri för því á leiðinni var lækjargil. Þeir óttuðust að komast hreinlega ekki upp úr gilinu aftur í sjúkraflutningunum en það tókst.

Lík Rannveigar fannst ekki fyrr en um fimmleytið að morgni laugardags. Hún hafði borist lengra en hin með flóðinu og var mun dýpra grafin í snjónum. Daníel læknir úrskurðaði að hún hefði fallið aftur fyrir sig þegar flóðið féll og látist samstundist. Rannveig var 27 ára.

Upptök við fjallsbrún

timinnAðstæður til björgunar voru hreint hrikalegar. Fjallsmegin bæjarhúsanna var hesthús efst, þá hlaða, fjárhús og fjós sambyggt. Flóðið rústaði útihúsin fyrst og síðan sjálf bæjarhúsin. Þarna grófst sem sagt fólk í snjó og braki húsa og hey úr hlöðunni var saman við snjóinn, sem gerði björgunarmönnum enn erfiðara um vik. Dauðar kindur voru út um allt í snjónum en kýrnar voru allar á básum sínum.

Snjórinn var svo samanbarinn að helst líktist jökulstáli að pjakka í hann. Ekki svo mikið sem einn heill stóll fannst í rústunum, allt var brotið og bramlað.

Á Auðnum var frekar lítið bú. Í útihúsunum var á fjórða tug fjár og lifðu einungis tvær ær af flóðið. Allar fimm kýrnar drápust í fjósinu en tveir hestar gátu slitið sig lausa og sluppu lifandi. Þeir voru þar skammt frá enda komust þeir ekki langt í kafaldinu.

Heimilishundurinn varð undir eldavélinni og fannst þar dauður en aldrei spurðist neitt til kattarins á bænum.

DagurpdfDaginn eftir hamfarirnar var bjart og sólríkt. Þá sást vel til upptaka flóðsins mikla alveg uppi á fjallsbrún í Sýlingarhnjúki. Það sást líka að flóðið var geysistórt og hafði hlykkjast niður fjallshlíðina og stefnt um hríð á Hól eða bæði á Hól og Auðnir en breytt um stefnu og lent á Auðnum.

Jóna á Klaufabrekkum gekk til kinda í fjallinu nokkru síðar eða laugardaginn fyrir hvítasunnu. Hún segir að ummerki flóðsins hafi verið mikil og ógnvekjandi. Við fjallsbrúnina voru nokkrir flekar sem strönduðu á leiðinni niður og voru svo stórir að hún þurfti að krækja fyrir þá til að komast leiðar sinnar.

Ágúst og Rannveig á Auðnum voru jarðsungin á Urðum hálfum mánuði eftir flóðið, laugardaginn 18. apríl. Þá var orðið fært um sveitina og Jóna á Klaufabrekkum minnist þess að Vilhjálmur Þórsson á Bakka hafi verið frammi í dal á jarðýtu að ryðja snjó af veginum í aðdraganda þess að Auðnafólkið var til grafar borið.

Fjársöfnun til stuðnings Auðnabónda

Hafin var fjársöfnun á Norðurlandi til styrktar Jóni á Auðnum sem missti unnustuna og stóð upp sem öreigi. Í Morgunblaðinu 8. apríl 1953 segir:

Í einni sjónhending er allt hrifið frá honum, nema aldurhnigin, sjúk og særð móðir hans og systir er vistast hafði að heiman. Hann hefur misst föðurinn, kennarann, leiðbeinandann og hann hefur misst unnustuna, lífsförunautinn sinn. Hann hefur ennfremur misst húsið ofan af sér, bústofn sinn og bjargræðisveg. Það mun vart þörf á að benda mönnum á samskot þessu fólki til hjálpar, svo sjálfsagt er það. Í einni svipan missa þau allt sitt. Fórnfýsi og gjafmildi samlandans getur ofurlitla hjálp veitt.

Snjórinn eyddi Auðnum, þar var ekkert byggt upp aftur. Þar er talið að hafi verið byggð allt frá árinu 1318.

Snjólaug fluttist til Akureyrar  og settist að hjá æskuvinkonu sinni og uppeldissystur, Sesselju Eldjárn frá Tjörn, og dvaldi þar næstu átta árin. Jón sonur hennar fór suður á Selfoss, þar sem bjó mágur hans, bróðir Rannveigar. Hann kynntist síðar konu á Selfossi og þau hófu sambúð með hjónaband í huga.

Raunum Snjólaugar var ekki lokið því Jón varð bráðkvaddur á Selfossi 9. febrúar 1965 og var jarðsettur þar. Hann hafði orðið fertugur milli jóla og nýárs 1964 en hélt ekki upp á tímamótin fyrr en í febrúar, rétt fyrir andlátið.

 Petrína – viðtal

Snjólaug frá Auðnum lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 11. desember 1966. Ég hitti dóttur hennar, Petrínu Ágústsdóttur, á Akureyri núna á föstudaginn langa og hún féllst á að rifja upp sárar minningar frá föstudeginum langa 60 árum áður. 

Vert að halda því til haga að Auðnir voru meira en býli í sveitinni, bærinn þar var líka skóla- og samkomuhús!  Farskóli framsveitunga var starfræktur að Auðnum og sumir grannar Auðnafólksins höfðu bæði hafið námsferilinn sinn og lokið honum í húsinu sem þeir komu að í rústum. Þarna voru líka haldin harmoníkuböll á vegum ungmennafélagsins Atla.

Torfi Steinþórsson frá Hala í Suðursveit, bróðursonur Þórbergs rithöfundar Þórðarsonar, var til dæmis kennari í farskólanum að Auðnum í þrjú ár, frá 1942 til 1945. Hann kynntist þar Ingibjörgu Zophoníasdóttur á Hóli sem síðar varð eiginkona hans. Torfi var skólastjóri að Hrollaugsstöðum í Suðursveit um áratuga skeið.

Auðnir-200_web

Í Morgunblaðinu kom fram að snjóflóð hefði áður fallið í manna minnum á svipuðum slóðum og mannskaðaflóðið 1953. Haft var eftir Zophoníasi á Hóli að um 1930 hefði fallið flóð á svipuðum slóðum eða jafnvel á sama stað. Það stöðvaðist nokkru ofar og olli ekki skaða. Þetta er staðfest í afar skilmerkilegri og fróðlegri greinargerð um snjóflóðaaðstæður í Svarfaðardal sem Veðurstofa Íslands birti í september 2006. Höfundar hennar eru fjórir sérfræðingar og fremstur þar í flokki er Svarfdælingurinn Sveinn Brynjólfsson.

Veðurstofumenn segja að umrætt flóð hafi fallið ofan Auðna um 1930 „úr Sýlingarhnjúki en stöðvaðist milli bæjar og gilsins ofan við hann.“

Í þessari greinargerð kemur og fram að árið 2006 hafi fallið „ótal snjóflóðaspýjur“ úr Sýlingarhnjúki í og eftir norðanáhlaup með mikilli ofankomu. Á sama ári féll líka „þurrt flekaflóð úr Sýlingarhnjúki austanverðum, fram af stöllunum og fór um 100 m niður í stóra gilið ofan Auðna.“

Í greinargerð Veðurstofunnar kemur fram að þar á bæ séu skráð alls um 180 snjóflóð í Svarfaðardal. Vitað sé um 12 manns sem farist hafi í 8 flóðum, þar af fimm á 20. öld.

Aðeins eitt þessara mannskaðaflóða féll á hús og það var einmitt Auðnaslysið; hinir fórust á víðavangi.

Fyrsta fórnarlamb snjóflóðs í Svarfaðardal á öldinni sem leið var maður frá Háagerði þegar flóð féll úr Mjóageira í Bæjarfjallinu ofan Dalvíkur 5. nóvember 1926.

Næst varð manntjón á Auðnum og svo liðu aðeins rúmlega tvö ár þar til tveir ungir bændur í Skíðadal fórust í snjóflóðum.

  • Helgi Aðalsteinsson á Másstöðum, 33 ára, lenti í flóði sem féll úr Ytra-Kollhólagili  3. nóvember 1955. Hann lét eftir sig eiginkonu og fimm börn, hið elsta 12 ára og hið yngsta á fyrsta ári.
  • Sigtryggur Guðjón Steingrímsson á Hjaltastöðum fórst á Þorláksmessu 1955 í flóði í Sælugili. Hann hefði orðið þrítugur á aðfangadag. Guðjón lét eftir sig eiginkonu og fjögur börn, hið elsta á níunda ári og hið yngsta á fyrsta ári.

Skilja má á greinargerð Veðurstofumanna að oftar hafi legið við að illa færi. Orðrétt segir þar:

Það verður að teljast Guðs mildi að ekki hafi fleiri farist í snjóflóðum á svæðinu því oft hefur legið við slysum. Þannig hafa nokkur flóð hrifsað með sér menn sem komust af og borið þá mislanga vegalengd. Þar ræðir um a.m.k. 11 menn í 10 flóðum. Einnig hafa nokkur flóð fallið ískyggilega nærri íbúðarhúsum og skaðað sum þeirra svo og önnur mannvirki.

Þakkir

Þessir dimmu dagar í Svarfaðardal snemma á síðari hluta aldarinnar sem leið eru hluti af svarfdælskri sögu. Henni ber að halda til haga.

Þeim fækkar nú samtímamönnunum sem komu þar að málum á einn eða annan hátt. Engum þeirra reynist auðvelt að ræða um atburðina að Auðnum sex áratugum síðar. Þetta var slys sem setti mark sitt á svarfdælskt samfélag árum og áratugum saman og þeir sem komu á einhvern hátt nálægt slysinu sem björgunarmenn eða á annan hátt sögðust aldrei ná sér til fulls eftir þá lífsreynslu.

Friðbjörn Zophoníasson rifjaði upp reynslu sína í útvarpsviðtali löngu síðar. Hann orðaði það svo að að einum sólarhring eftir slysið, að kvöldi laugardagsins, hefðu þau Lilja, hjónin á Hóli, verið „niðurbrotin á sál og líkama“. Það segir sína sögu.

Friðbjörn bar í viðtalinu sérstakt lof á Dalvíkinga sem komu til að taka þátt í björgunarstörfum og gengu sumir að því búnu til Dalvíkur, í færi sem var víst mjög langt frá því að teljast göngufæri.

petrina_webÉg færi viðmælendum mínum innilegar þakkir fyrir að rifja upp þennan atburð núna fyrir páskana og þá sérstaklega Einari á Urðum og Petrínu Ágústsdóttur frá Auðnum fyrir að fallast á að ræða málið framan við upptökuvél.

Margar kjarnakonur eru af Göngustaðaættinni. Petrína sver sig í ættina Göngustaða svo um munar.

Atli Rúnar Halldórsson

 

10 athugasemdir við “Sextíu ár frá mannskaðaflóðinu á Auðnum

  1. Þetta er í meira lagi merkileg frásögn og ber að þakka að þessar merku heimildir skuli hafa verið varðveittar með þessum hætti.

  2. Alltaf sér maður betur og betur, hve lítið maður veit um sveitunga sína. Hollt er að rýna ögn til baka, þreifa á, og öðlast smá skilning á lífsbaráttu feðranna, því enginn veit hver hann er, ef hann ekki veit hvaðan hann kemur. Takk fyrir uppvakninguna ARH, greinargóður að vanda.

  3. takk Atli Rúnar – fyrir þína vönduðu umfjöllun, um viðkvæm mál í byggðalaginu okkar

  4. Flott frásögn og áhugavert að lesa. Ég er búin að sýna mömmu (Petrínu) greinina og hún er mjög sátt :o)

  5. Takk fyrir þetta. Ég er búinn að heyra ýmislegt um þetta en það kemur margt nýtt þarna í ljós. Það sem ég hef heyrt um þetta er útvarpsviðtal við afa Friðbjörn heitinn þar sem hann segir frá þessum örlagaríka degi.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s