Hápunktur menningarhátíðarinnar Svarfdælskur mars um helgina var að sjálfsögðu sjálfur svarfdælski marsinn í félagsheimilinu Rimum á laugardagskvöldið; langur og viðburðaríkur samkvæmisleikur eða raunar DANSLEIKURINN eini og sanni. Góðir gestir mættu úr grannbyggðum, til dæmis pör frá Akureyri og úr Hörgárdal. Dansinn dunaði svo um munaði.
Inga Magga stjórnaði marsinum af fágætri röggsemi, innlifun og sjarma, eins og hún hefur víst oftast gert frá því svarfdælskur mars var gerður að árlegum menningarviðburði í sveitinni. Ingunn Margrét er Hallgrímsdóttir Hreinssonar frá Klaufabrekkum. Hún hafði karl föður sinn sem dansherra og sannast þar að ótrúlegustu hlutir berast milli kynslóða sem erfðaefni, meira að segja danslistin. Hreinn á Klaufabrekkum var annálaður dansari á árum áður og stjórnaði til dæmis marsinum hvað eftir annað með eftirminnilegum glæsibrag á samkomum í þinghúsinu sáluga að Grund. Sonur og sonardóttir halda merki Hreins hátt á lofti.
Hafliði á Urðum var harmónikkuleikari kvöldsins, eins og hann hefur verið í hvert einasta skipti frá því þessi menningarsamkunda var sett á laggir. Með honum var gítarleikari frá Akureyri sem ég kann ekki að nefna, enn sem komið er.
Þetta hófst allt saman á slaginu 21:30 með því að „talið var í marsinn“ í eiginlegum skilningi. Hvert par fékk númer sem það varð að muna allt til loka. Hin raunverulegu pör fá auðvitað að taka spretti saman á gólfinu af og til en parast líka út á við í allar áttir eftir því sem marsinum vindur fram og finnast ekki að endanlega að nýju fyrr en í lokaþættinum. Þá er eins gott að hafa ekki gleymt tölunni sinni því makinn endurheimtist einungis við réttan innslátt, líkt og inneignin í hraðbankanum. Í fljótu bragði leit út fyrir um miðnættið að allir hefðu fengið rétta inneign við heimför um miðnætti.
Skemmst er frá að segja að dansinn var stiginn linnulaust í tvær klukkustundir og þá var í raun og veru „ballið búið og ég bruna í hvelli heim“ eins og segir í ljóðasafni Geirmundar kaupfélagsmanns í Skagafirði. Og haldi nú meinhugsandi utanhéraðsmenn að Svarfdælingar vafri um marserandi í annarlegu ástandi og drolli fram á nótt er með góðri samvisku hægt að reka slíkt ómenningartaut heim til föðurhúsanna.
Að fara fullur í svarfdælskan mars væri álíka gáfulegt og að mæta með ginfleyg í rassvasanum á brettin í World Class eða Hreyfingu og staupa sig þar á hlaupum. Inga Magga veitti hvorki drykkju- né pissustopp í tímana tvo sem dansinn dunaði og að leik loknum voru dansendur storknir svita með lafandi tungu, rétt eins og eftir margra kílómetra hlaup á brettunum í World Class eða Hreyfingu.
Þetta er stutta sagan af svarfdælskum marsi. Langa sagan er tveir tímar og fer ekki vel á Vefnum nema í bútum. Umsjónarmaður Svarfdælasýsls fylgdist með dansinum, vopnaður upptökuvél. Hér fáið þið sýnishorn af svarfdælskum marsi og fáið upplifunina, fjörið og gáskann beint í æð.
Svona dansiball er hvergi á dagskrá á landinu öllu, þvers og kruss. Um það gæti Geirmundur hinn skagfirski vitnað ef hann vildi. Hann veit meira um dansmennt í félagsheimilum landsins en eigendur þeirra og rekendur samanlagt. Og trúlega veit hann meira um ástand félagsheimilanna sjálfra en starfsmenn fasteignaskrár lýðveldisins.
Númi heitir gítarleikarinn, hvers son er ég ekki viss en hann átti bíl með númerinu A-1651 ? og bjó í Höfðahlíðinni á Akureyri.