Eva María Jónsdóttir fjölmiðlakona fór á kostum í Bergi á Dalvík í dag í umfjöllun sinni um Svarfdælasögu, efnivið sem hún til rannsóknar fyrir háskólaritgerð á sínum tíma en segist síðan þá hafa fáa fundið til að ræða við um! Sjálf hafði hún aldrei komið á söguslóðir Svarfdælu fyrr en í dag og fór sveitarhringinn með Svanfríði sveitarstjóra Jónasdóttur.Svarfdælasaga var umfjöllunarefni Evu Maríu í fyrri fyrirlestri eins dagskrárliðar menningarhátíðarinnar Svarfdælsks mars sem stendur yfir í Svarfaðardal og á Dalvík. Síðari fyrirlesarinn var Þórarinn Eldjárn, rithöfundur í Gullbringu. Hann ræddi um aðdraganda og verklag við skáldsögu sína Hér hvílir skáld og þar kemur Svarfdælasaga heldur betur við sögu líka. Þórarinn kallaði þessa bókmenntagrein eins konar endurvinnslu eða „afleiðubókmenntir“!
Fengur var að því að heyra hann lesa úr óbirtu handriti eftir föður sinn, Kristján Eldjárn, um Svarfdælasögu. Kristján telur að staðkunngur maður hafi skrifað söguna og þrátt fyrir gloppur eða eyður í henni standa sagan vel fyrir sínu og nóg sé að vita að hún sé yfirleitt til! Þórarinn upplýsti reyndar um þær pælingar sínar fyrir margt löngu að eyður í Svarfdælu skýrðust hugsanlega af því að drykkjusjúklingur hefði skrifað hana! Sá staupsæli maður hefði týnt blaði og blaði úr handritinu eða ekki haldið þræði við skriftirnar.
Eva María vakti margar forvitnilegar og skemmtilegar spurningar í sínu máli og reyndi að svara sumum sjálf. Hún staldraði lengst við skrímslið og drauginn Klaufa og skassið fagra Yngvildi, sem ætti ýmislegt sameiginlegt með Hallgerði langbrók og Guðrúnu Ósvífursdóttur en annað ekki. Yngvildur átti til dæmis ekki hetju fyrir eiginmann eins og stöllur hennar syðra.
Niðurstaða Evu Maríu var meðal annars á þá leið að líta mætti á Svarfdælasögu bæði sem harmleik og skopleik. Enn fremur væri sagan dágott efni í hryllingsmynd og það býsna blóðuga og hrottalega.
Síðast en ekki síst kom fram hjá Evu Maríu að hún hafði í rannsóknum sínum reiknað út hæðina á Klaufa eftir þeim lýsingum sem gefnar eru af kappanum í Svarfdælu. Niðurstaðan er að hann hafi verið hálfur þriðji metri á hæð eða nákvæmlega 248 sentimetrar. Jóhann Svarfdælingur hefði þurft að líta upp til Klaufa, hann var „bara“ 234 sentimetrar.
Síðdegis brustu á tónleikar eða öllu heldur sjónleikur. Hundur í óskilum flutti sögu þjóðar í fyrsta sinn í heimabyggð. Áheyrendur kunni afar vel að meta grín og gaman Hjörleifs og Eiríks. Sjónleiknum er annars ómögulegt að lýsa, hann er bara brúklegur til raunverulegrar upplifunar.
Ein athugasemd við “Íslandssagan í hnotskurn en Svarfdælasaga (að sjálfsögðu) í öndvegi”