Jón Adolf Steinólfsson líktist fremur sendimanni eiturefnadeildar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins en listamanni þegar að honum var komið í sólskinsbirtu í iðnaðarhverfi í Kópavogi í dag. Hann er langt kominn með sinn þátt í bautasteini til minningar um sjö Dalvíkinga sem fórust í sjóslysunum miklu 9. apríl 1963. Frumkvöðullinn að þessu mikla framtaki var ekki langt undan. Haukur Sigvaldason tekur síðan við; setur koparstafi á steininn og býr gripinn undir heimferð til Dalvíkur.
Rétt handan við páskana rennur upp 9. apríl og þá verður hálf öld liðin frá þessum hörmungaratburðum við Norðurland. Þessa verður minnst við Dalvíkurhöfn með því að afhjúpa bautasteinninn í minningu sjómannanna.
Steinninn var tekinn úr hafnargarðinum á Dalvík fyrra og fluttur suður til listrænnar meðhöndlunar, eins og greint var frá hér á Svarfdælasýsli í nóvember.
Jón Adolf hefur klappað mynd í steininn og sú er stílhrein, látlaus og með möguleika til túlkunar á margræðum boðskap í einfaldleika sínum. Hendur snertast. Ekki handtak, heldur snerting.
Það stefnir í umfangsmikla minningarathöfn á Dalvík og á Eyjafirði 9. apríl. Dagskráin er að taka á sig mynd og hægt að greina frá henni í stórum dráttum nú en í smáatriðum síðar.
- Gert er ráð fyrir að sigla trébátaflota frá Dalvík, Akureyri og Húsavík til „fundar“ við mynni Eyjafjarðar, norður af Gjögrum eða Gjögurfjalli yst á Flateyjarskagarskaga. Þar verður blómakransi varpað í sjóinn í minningu þeirra er fórust í óveðrinu.
- Af bátunum skal fyrst frægan telja Húna II, eikarbát sem áhugamannafélag á Akureyri sér um og gerir út. Þarna verður líka hvalaskoðunarbáturinn Níels Jónsson á Hauganesi og Norðursigling hyggst taka þátt í athöfninni með bátum sem fyrirtækið gerir út til hvalaskoðunar frá Húsavík.
- Þegar komið verður í land á Dalvík síðdegis er gert ráð fyrir að afhjúpa bautasteininn við afhöfn.
- Minningarstund verður að því búnu í Dalvíkurkirkju kl. 18:00.
Bautasteinninn og tilheyrandi samkomur 9. apríl eru annar tveggja þátta í sama verkefni. Hinn þátturinn er heimildarmynd um sjóslysin, sem gert er ráð fyrir að frumsýna á Dalvík í Fiskidagsvikunni í sumar. Búið er að taka upp fjölda viðtala og safna miklu sögulegu efni tengdu þessum atburðum. Eftir er að taka upp nokkur viðtöl til viðbótar og síðast en ekki síst að setja allt efnið saman í heillega mynd. Lokahnykkurinn eða klippingin, eins og það heitir á fagmáli kvikmyndamanna, er hálfur handleggur og ríflega það.
- Aðstandendur minningarverkefnisins eru Haukur Sigvaldason, smiður og sonur Sigvalda Stefánssonar, eins þeirra sem fórust 9. apríl; Stefán Loftsson, kvikmyndagerðarmaður og bróðursonur Hauks; og María Jónsdóttir, textílhönnuður frá Dalvík, nemandi í Margmiðlunarskólanum.
- Haukur fóstraði þá hugmynd árum saman að láta setja upp minnismerki við Dalvíkurhöfn vegna sjóslysanna. Maríu datt í hug að gera heimildarmynd um sjóslysin. Þau rugluðu saman hugmyndareitum.
Óþarft er að velta lengi vöngum yfir því að verkefnið allt er bæði umfangsmikið og dýrt; reyndar öllu stærra í sniðum en aðstandendur þess höfðu reiknað með. Frístundum þeirra hefur að miklu leyti verið ráðstafað fyrir fram svo lengi sem verkið varir. Haukur hefur meira að segja á stundum ekkert mátt vera að því að sinna viðskiptavinum sínum og JP-innréttinga vegna anna við að búa til bautastein, skipulegga afhöfn á Dalvík og safna heimildum og fá viðmælendur í heimildarmyndina!
Opnaður var reikningur fyrr í vetur til að áhugamenn og velunnarar gætu lagt þremenningunum fjárhagslegt lið. Talsvert hefur safnast og þeir fjármunir hafa fleytt verkunum áfram en býsna langt er samt frá því að endar náist saman. Rétt er því að minna á reikningsnúmer söfnunar til stuðnings minningarverkefninu:
0302-13-133 – kt.: 170144-7919
Reikningurinn er á nafni Ásgeirs Péturs Ásgeirssonar, lögmanns og fyrrum dómstjóra á Akureyri. Hann tók að sér að gerast trúnaðarmaður gefenda fjármuna til að tryggja þeim að styrkjum og framlögum verði að öllu leyti ráðstafað til þeirra hluta sem ætlað er.
Læt fylgja með að gamni mynd sem bæjarlistamaðurinn á Dalvík, Brimar Sigurjónsson á Jaðri, málaði 1960. Myndin hangir uppi á vegg hjá Inga Lár í Dalbæ!