Nokkrir áhugamenn um svarfdælska sögu og fræði hittust á Kaffi Loka í Reykjavík 8. mars, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, til að ræða stofnun svarfdælsks sögu- og fræðafélags. Þórarinn Eldjárn átti frumkvæði að spjallsamkomunni og næsta skref verður að líkindum stigið í Bergi á Dalvík á sunnudaginn kemur, á fundi sem er meðal dagskrárliða á Svarfælskum marsi.
Sveitungarnir sem komu saman á Kaffi Loka hafa allir fengist við svarfdælskan sagna- og menningararf, hver með sínum hætti. Hjörleifur á Tjörn skráði eftirfarandi texta um samkomuna til kynningar á opnum undirbúningsfundi að stofnun Sögufjelags Svarfdælinga að Rimum sunnudaginn 24. mars kl. 14:00:
Rætt var um verkefni sem slíkt félag gæti beitt sér fyrir, einkum útgáfustarf af ýmsum toga. Mikið „svarfdælskt“ efni liggur óútgefið og jafnvel óskráð á skjalasöfnun. Á Landsbókasafninu liggja t.a.m. óútgefin þjóðsagnasöfn Þorsteins Þorsteinssonar og Þorsteins Þorkelssonar og fleiri skjöl sem varða svarfdælska sögu.
Einnig ræddu menn um eyðibýlaskráningu, örnefnasöfnun, ljósmyndasöfnun, skráningu og starfsemi Héraðsskjalasafnsins á Dalvík, útgáfu ársrits o.fl.
Fundarmenn voru sammála um að full þörf væri á stofnun fræðafélags. Slíkur félagskapur, formlegur eða óformlegur, væri í senn umræðu- og samstarfsvettvangur. Hann hvetti til skipulagðrar rannsóknarstarfsemi og útgáfu og auðveldaði aðgengi að fjármagni til slíks.
Sambærileg fræða- og sögufélög eru rekin víða um land með blómlegri starfsemi. Má þar nefna Sögufélags Skagfirðinga sem lætur víða til sín taka við rannsóknir á skagfirskri sögu og stendur að einstaklega metnaðarfullri byggðasöguútgáfu.
Krunkandi nördarar: Atli Rúnar Halldórsson, Þórarinn Eldjárn, Gunnar Stefánsson, Hjörleifur Hjartarson, Árni Hjartarson, Anna Dóra Antonsdóttir Árni Daníel Júlíusson og Atli Rafn Kristinsson.
Svarfdælskur mars – árleg menningarhátíð
Dagskrá 21.-24 mars 2013
- Fimmtudagur 21. mars
Stórmynd Ágústs Guðmundssonar, Land og synir, sýnd í Bergi kl. 20:00. Hún var að miklu leyti tekin upp í Svarfaðardal og markar vorkomu í íslenskri kvikmyndagerð.
- Föstudagur 22. mars
Heimsmeistarakeppni í brús að Rimum kl. 20:30.
Keppt um gullkambinn. Æfinga- og kennslubúðir í hliðarsal.
- Laugardagur 23. mars
Svarfdælskar fornsögur í Bergi kl. 14:00
Þórarinn Eldjárn og Eva María Jónsdóttir fjalla um rannsóknir sínar og skrif um Svarfdælasögu og þætti. Þórarinn mun m.a. fjalla um skáldsögu sína Hér hvílir skáld, sem kom út á árinu 2012.
- Laugardagur – LOKSINS Á HEIMASLÓÐ!
Hundur í óskilum – SAGA ÞJÓÐAR – í Bergi laugardag kl. 16:00. Eina sýning íslenskrar leikhússögu sem Jón Viðar, gagnrýnandi gagnrýnendanna, hefur gefið fullt hús stiga í umsögn.
- Laugardagskvöld
Marsinn stiginn að Rimum. Húsið opnað kl. 21:00 og talið í marsinn kl. 21:30.
Húsband Hafliða leikur fyrir dansi, Inga Magga stjórnar af röggsemi!
- Sunnudagur 24. mars
Undirbúningsfundur vegna stofnunar Sögufjelags Svarfdælinga í litla salnum á Rimum kl. 14:00. Allt áhugafólk velkomið!
Ein athugasemd við “Svarfdælskir fræða- og sögunördar krunka saman”