Davíð og nikkan dýra

Staðlað

DS með nýja nikku 1200 pixJólasagan sem Svarfdælasýsl segir í ár fjallar um smið frá Göngustöðum og harmónikkuna hans fínu. Því fer fjarri að sagan öll sé hér sögð og reyndar er hér með lýst eftir sögubrotum til að fylla í myndina.

Davíð smíðar á Jarðbrú 1955.

Davíð smíðar á Jarðbrú 1955.

Davíð Sigurðsson fæddist á Göngustöðum 5. ágúst 1903. Hann lærði trésmíði og starfaði alla tíð sem smiður á Dalvík og í Svarfaðardal. Hér fylgir meðal annars með mynd sem Stefán Bergþórsson tók af honum við smíðar á Jarðbrú árið 1955. Þá voru Halldór, bóndi og systursonur Davíðs, og Ingibjörg að byggja við Jarðbrúarhúsið. Davíð vann við húsbygginguna og var myndaður með sporjárn og hamar á lofti við frágang innanhúss.

Davíð var sjálflærður harmónikkuleikari og spilaði oft fyrir dansi í byggðarlaginu. Engar reglur voru þá til um hvenær loka skyldi samkomuhúsum og hætta (dans)leik þá hæst hann stóð. Oftar en ekki stóðu böllin langt fram á nótt eða þar til birti af nýjum degi. Alltaf spilaði Davíð, tímunum saman.

Davíð með harmónikkuna sem hann eignaðist fyrst.

Davíð með harmónikkuna sem hann eignaðist fyrst.

Hann var líka fenginn til að spila á Ársskógsströnd. Vitað er um eitt tilvik þar sem hann gekk í kafaldssnjó með nikkuna á bakinu inn á Strönd. Honum var ekki beinlínis þakkað fyrir að mæta yfirleitt á vettang í veðri og færi sem hefði fremur átt að hvetja hann til að sitja heima og fara hvergi. Hann fékk i staðinn á sig skot fyrir að láta dansþyrsta ballgesti bíða eftir sér! Davíð sárnaði ögn og sagði frá því sjálfur.

Davíð átti tvær harmónikkur um dagana, að því best er vitað, og til eru meðfylgjandi myndir af þeim báðum í fangi eiganda síns. Báðar höfðu takka í stað hljómborðs. Það þykir talsvert meiri kúnst að spila á slík hljóðfæri en venjulega harmónikku. Þá skal nefnt að harmónikkur í Noregi höfðu aðra fingrasetningu en harmónikkur í Svíþjóð. Norska gripið var sjaldgæfara en það sænska og alla vega síðari harmónikka Davíðs var með „norskri fingrasetningu.“

David_med_nikku_4_webSíðari harmónikka Davíðs er tilefni þessara skrifa. Hún er fágætur gripur, sérsmíðuð og skreytt. Yfir henni er drottningarljómi og hún kostaði líka sitt þegar Davíð eignaðist hana.

Davíð smiður gaf nafna sínum og bróðursyni, Davíð Jóhannssyni, nikkuna fínu á sínum tíma. Hún var þá biluð en faðir nýbakaðs nikkueiganda, Jóhann Sigurðsson, smiður á Akureyri og bróðir Davíðs smiðs á Dalvík, lét gera við hana. Davíð veiktist á efri árum og þurfti að leita sér lækninga á Akureyri. Hann kom þá í heimsókn til bróður síns og fjölskyldu við Norðurgötuna, féllst á að grípa í nikkuna og spilaði góða stund, vel og fumlaust. Þessa stund man Davíð Jóhannsson eins og gerst hefði í gær.

Davíð var fínn músíkant og spilari. Því miður er hvergi til upptaka af hljóðfæraleik hans.

Davíð Jóhannsson með nikkuna góðu.

Davíð Jóhannsson með nikkuna góðu.

Davíð Jóhannsson veit að nafni hans keypti harmónikkuna af Jóhanni nokkrum sem vann trúlega við hljóðfærasmíðar í Osló. Sá kom til Íslands með hljóðfærið og seldi það smiðnum á Dalvík. Davíð smiður hefði getað keypt kotbýli í Svarfaðardal fyrir peningana sem hann snaraði út í þessum viðskiptum en hann vildi frekar góða harmónikku en kot. Sagan segir að ýmsir í fjölskyldu smiðsins hafi sopið hveljur þegar þeir heyrðu hvað nikkan kostaði!

Davíð naut fjárhagslegs stuðnings ungmennafélagsins Þorsteins Svörfuðar við hljóðfærakaupin. Líklegt má telja að sá fjárstyrkur hafi skipt verulegum máli og jafnvel ráðið úrslitum um að harmónikkan var yfirleitt keypt.

Víst er að Davíð Sigurðsson og Þorsteinn Svörfuður áttu mikið saman að sælda um dagana. Hann spilaði á ótal samkomum ungmennafélagsins og það segir sína sögu að á fimmtugsafmæli Davíðs, í janúar 1953, færðu svarfdælskir ungmennafélagar afmælisbarninu skrautritað heiðursskjal. Þorsteinn Svörfuður þakkaði Davíð þannig fyrir „fórnfúst og mikilvægt starf í þrjátíu ár.“ Davíð Jóhannsson varðveitir skjalið.

David_med_nikku_2_webEngar heimildir eru tiltækar um seljanda nikkunnar, Jóhann, en harmónikkan var og er merkt honum. Á hljóðfærið er líka skráð nafn fyrirtækis í Osló.

Á dögunum var reynt að rekja þræði í Noregi til að grennslast frekar fyrir um sögu nikkunnar hans Davíðs. Út úr því kom lítið en þó það að fyrirtækið Carl M. Iversen er löngu liðið undir lok. Á þess vegum var rekið smíðaverkstæði fyrir strok- og blásturshljóðfæri og sömuleiðis hljóðfæraverslun í miðborg Oslóar. Skemmtilegar myndir af hljóðfærasmiðum og verslunarmönnum hjá Carl M. Iversen er að finna hér.

Þeir sem könnuðu málið í Osló núna í nóvember svöruðu því til að engar harmónikkur hefðu verið smíðaðar hjá Carl M. Iversen, heldur hefði fyrirtækið látið framleiða nikkur fyrir sig á Ítalíu eða í Þýskalandi. Þeir sem höfðu ráð á slíku gátu látið setja nöfn sín á hljóðfærin, eins og Jóhann þessi gerði.

Við vitum sem sagt ekki hver Jóhann var, hvers vegna hann kom til Íslands og hvernig leiðir hans og Davíðs smiðs lágu saman.

  • Ef einhver lesandi þessa pistils hefur veður af harmónikkuleikara sem Jóhann hét og vann í hljóðfæraverslun eða á hljóðfæraverkstæði í Osló á fyrri hluta 20. aldar væri afskaplega gaman að frétta af því (sími 899 8820 eða atli@athygli.is).

Gaman væri líka að heyra af minningarbrotum um Davíð Sigurðsson spila á harmónikku á balli eða í heimahúsi. Skrifari þessara lína sá og heyrði til dæmis á dögunum myndbandsupptöku þar sem Eva Þórsdóttir frá Bakka rifjar upp minningar frá jólum þar á bæ þegar hún var stelpa. Þar nefnir hún að Davíð frændi hafi komið með harmónikkuna og spilað í jólaboði á æskuheimilinu. Húsfreyjan á Bakka var þá Engilráð Sigurðardóttir, systir Davíðs.

Davíð Sigurðsson var ókvæntur og barnlaus. Hann bjó lengst af í Dröfn á Dalvík en á heiðursskjalinu frá Þ0rsteini Svörfuði frá 1953 er hann skráður til heimilis að Reynifelli* á Dalvík. Hann lést 21. janúar 1969 og hvílir í Dalvíkurkirkjugarði.

Með honum í systkinahópnum frá Göngustöðum voru Steinunn (Nunna) í Dröfn á Dalvík, Engilráð á Bakka, Jón (Jonni) á Sigurhæðum, Rannveig á Jarðbrú, Páll málari á Dalvík og Jóhann smiður á Akureyri.

* Reynifell er að Goðabraut 9. Þar búa Jón Þ. Baldvinsson og  Kristjana S. Kristinsdóttir frá Hnjúki í Skíðadal. Þetta er æskuheimili Jóns en Davíð var kominn í Dröfn þegar Jón man fyrst eftir sér. Hann segir að Davíð hafi hins vegar oft komið í heimsókn, enda lá leið hans daglega fram hjá Reynifelli til og frá mat í Laxamýri, þar sem Davíð var í fæði hjá Fríðu mágkonu sinni og Páli bróður sínum.

DS með nýja nikku 1200 pix

Davíð með harmónikkuna sem hann eignaðist fyrst.

Davíð með harmónikkuna sem hann eignaðist fyrst.

2 athugasemdir við “Davíð og nikkan dýra

    • Er það ekki nokkuð ljóst, af uppstyllingu og baksviði, Þórir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s