„Senn kemur hann faðir okkar og ber hana mömmu og drepur okkur öll,“ kváðu börn séra Jóns, prests á Tjörn og síðar Völlum. Sögufélagið gaf út Blöndu, rit með gömlum og nýjum fróðleik, á árunum 1924 til 1927. Þar er að finna sagnir af skrautlegum prestum Svarfdælinga, sumt skrásett af Þorsteini Þorsteinssyni á Upsum. Sýslið lagðist í grúsk í tilefni jóla.
- Séra Ari Þorleifsson á Tjörn í Svarfaðardal (f. 1710, d. 1769)
Séra Ari á Tjörn, sonur merkisprestsins séra Þorleifs prófasts Skaptasonar í Múla var karlmannlegur maður og nokkuð harðfengur, mikilfengur í máli og rómurinn mikill og sterkur. Var mikið orð á gert hvað langt hann gat kallað svo heyrðist. Hann átti stundum til að kalla til vinnufólks síns á engi, helzt við bindingu, þegar honum fannst ekki allt í lagi, og þá er sagt, að orðaskil hefðu heyrzt til hans um mestalla sóknina, en Tjarnarsókn er þéttbýl og lítil um sig, en langt er á engi, sem blasir við bænum á bökkum austan Tjarnartjarnar.
Frekur var séra Ari í orðum og nokkuð um of ef honum rann í skap og eins og í ræðum sínum, þegar honum þótti við sóknarfólk sitt.
Björn hét maður og kallaður Langi-Björn, fjarska hár vexti og ónytjumaður og þungur til vinnu. Um hann var eitt sinn kveðið:
Björn er rekinn burt frá oss
býsna smátt þó feti,
þungan hefur á herðum kross,
hann er nefndur leti.
Björn þessi barnaði dóttur Egils bónda í Dæli, sem var nefndarbóndi í sókn séra Ara og kær vinur hans. Bónda þótti illa farið með dóttur sína og presti engu minna vegna Egils. Þá var venja að afleysa allar persónur ógiptar, sem börn áttu saman. Björn var sóknarmaður séra Ara, svo honum bar að afleysa hann. Er það sögn, að prestur hafi haldið óheyrilega hegningarræðu yfir honum, þá hann afleysti hann, en ekki er getið um aflausn stúlkunnar, og hefur hún eflaust verið mildari. Það er sögn, að í byrjun hverrar málsgreinar í aflausninni hafi prestur kallað upp og sagt: Þú djöfulsson! Það hafi átt að ganga ræðuna út, enda hafi Björn sagt við sína líka eptir embætti: „Fyrri hefi ég ekki vitað hvers son ég var en í dag heyrði ég að að séra Ari vissi það.“
Þá er séra Ari var prestur á Tjörn var séra Jón Jónsson prestur að Upsum (og síðar að Stærra-Árskógi). Séra Jón var „almennt kallaður „hin litli“, gáfumaður og fastheldinn á hlut sínum.“
Eitt sitt lenti þeim saman í kappræðu, séra Jóni litla og séra Ara, og er sagt út af einhverju andlegu efni, þar sem báðum rann í skap, því hvorugum var gjarnt undan að láta. Séra Jóni þótti séra Ari vera grófyrtur og tala gálauslega um þvílíkt efni og hætti að svara Ara presti, en segir að endingu ræðunnar, þegar Ari prestur hafði talað út: „Guð setji mark á þinn munn.“ Þeir sem segja þessa sögu meina að það hafi orðið að áhrínsorðum sem séra Jón sagði við séra Ara, er hann tók átumein í vörina, sem varð hans dauðamein.
Séra Ari messaði allt undir það síðasta sem hann lifði og strengdi hvítan trefil yfir vörina aftur fyrir höfuð, því hann átti örðugt að tala, enda var vörin næstum eydd burt. Gamlar sagnir í Svarfaðardal hermdu sem sagt að átumeinið (krabbamein?) í vör séra Ara hefði verið afleiðing áhrínsorða séra Jóns á Upsum. Aðrar sagnir í sveitinni hermdu að átumeinið hefði verið dómur Drottins yfir presti fyrir að hafa afleyst Langa-Björn svo hart fyrir að barna dóttur Egils í Dæli.
- Séra Jón Halldórsson á Tjörn og síðar á Völlum (f. 1698, d. 1779)
Séra Jón hóf starfsferil sinn í Grímsey, þá tvítugur að aldri, eftir að Grímseyingar höfðu hrakið sóknarprestsinn sinn, séra Þórarinn Jónsson, úr starfi.
Eyjarmenn þóttu ódælir mjög við presta sína með galdri og gerningum, svo að ekki hefur verið fýsilegt fyrir séra Jón að fara þangað, ungan og óreyndan. Jón stóð hins vegar í Grímseyingum og þeir töldu skýringuna þá að prestur væri göldróttur. Þegar hann fór frá Grímsey að Tjörn sendu eyjaskeggjar drauga á eftir presti til að drepa hann en prestur sá alltaf við bæði Grímseyingum og draugum þeirra. Margar sögur eru til um þessar sendingar Grímseyinga, mislukkaðar aftökusveitir drauga á hendur Tjarnarpresti. Einn drauginn tók prestur með sér til messu að Urðum og sneri honum á sitt band, í annað skipti villti hann fyrir sendingu úr Grímsey á göngu í svartamyrkri í Svarfaðardal og komst heill heim að Tjörn.
Skemmst er frá að segja að séra Jón glímdi við sendingar Grímseyinga árum saman og hafði alltaf betur. Hann þótti nokkuð stoltur og leit stórt á sig. Einhverju sinni kom hann framan frá Urðumn að vetrartíma. Brast á hann moldhríðarbylur á móti og náði hann Brekkukoti í Tjarnarsókn og baðst gistingar, treystist ekki lengra að halda og enginn að fylgja honum, því myrkt var líka af nótt. Þegar prestur var lagztur út af í rúmið um kveldið mælti hann: „Nú er séra Jón Halldórsson lagztur lágt.“ Bóndi anzar: „Lægra gat það verið í fönninni.“
Öðru sinni, eptir að séra Jón var kominn að Völlum, var hann á ferð fram í Skíðadal í sókn sinni. Þá brast hann á hríð í náttmyrkri; náði hann við illan leik bænum Syðra-Hvarfi, og treystist ekki að halda lengra og settist að. Jón hét þar bóndinn, fátækur og lítill fyrir sér. Þegar búið var að verka fönnina af presti og buga að honum, segir hann úr eins manns hljóði: „Þykir þér ekki, Jón, þér veitast virðingin að hýsa mig.“ Ekki er getið um, að bóndi hafi svarað enda var hann talinn einfaldur.“
Séra Jóni er lýst þannig að hann hafi verið „mikill vexti og rammur að afli, eins og hann átti kyn til, mikillátur og harðger.“
Það bar stundum við, þegar Jón kom heim úr ferðalagi, að hann var ölvaður og var þá nokkuð rysjóttur við konu sína og börn. Einhverju sinni á hausttíma var von á séra Jóni heim úr ferðalagi um kveldið. Veður var gott, börnin mörg í myrkinu og kváðu við raust: „Senn kemur hann faðir okkar og ber hana mömmu og drepur okkur öll.“ Þessu héldu þau áfram þar til prestur kom og heyrði og sagði: „Góðan eigið þið föðurinn.“ Er þess getið, að prestur hafi haft hægt um sig þetta kveld og það venju framar og jafnvel optar eftir. Er það tilgáta líklegt, að einhver eldri hafi komið börnunum til að kveða þetta, en ekki vita menn það með neinni vissu; en það hafði góð áhrif á prest.
- Séra Magnús Einarsson á Tjörn (f. 1734, d. 1794)
Magnús var ritari hjá Þórarni Jónssyni sýslumanni á Grund í Eyjafirði. Honum líkaði ekki aðbúnaðurinn á, einkum maturinn. Er svo að sjá, sem honum hafi þótt þar ill matarvist, og kenndi það Sigríði Stefánsdóttur, konu sýslumanns, er honum þótti góðgerðalítil og útlátanaum, þótt hún væri vel að öðrum kostum búin, stillt og geðprúð.
Magnús orti margar vísur um sýslumannsfrúna og „krásir“ hennar, til dæmis þessar:
Í öskustónni hún Sigga sat
sá hún mann í nauðum,
heldur gefur hún hundum mat
en hungruðum drottins sauðum.Húsmóðirin, það heillasprund,
hungrinu mun svo forða,
að skóna þar á góðu Grund
gerist ei þörf að borða.
Séra Magnús orti líka um sýslumann, þar á meðal lofgjörð sem sýslumaður var víst býsna ánægður með:
Dyggðum safnar, varla vann
verkin ódyggðanna,
lygðum hafnar, aldrei ann
athöfn vondra manna.
Brosið hefur trúlega stirðnað á sýslumannsfési þegar hann áttaði sig á því að bragarhátturin væri sléttubönd. Hún er lof ef rétt er kveðin en skammir ef lesin er aftur á bak!
Manna vondra athöfn ann,
aldrei hafnar lygðum,
ódyggðanna verkin vann,
varla safnar dyggðum.
Einhverju sinni var séra Magnús á ferð innan af Akureyri og heim til sín. Þegar út á Árskógsströnd var komið var farið að dimma af nótt, þetta var á öndverðum vetri. Þá er hann fór yfir Svarfaðardalsá undan bænum Sökku er mælt hann hafi kveðið:
Dimmt mér þótti Dals við á
dró af gaman að hálfu,
að mér sóttu þrjótar þá
þrír af Satans álfu.
Upp í lopti léku sér,
líkt sem eldibrandar,
þetta gaman þótti mér,
það eru skozkir fjandar.
Einu sinni var séra Magnús á ferð með manni nokkrum og fóru þeir að hól sem menn héldu huldufólk búa í. Þá segir maðurinn: Búa hér illir álfar, á ég að trúa því? Prestur svaraði:
Svo var nú sagt til forna
þeir sæist hér kveld og morgna,
en máske þeir minnki núna
fyrst menn hafa ei á þeim trúna.