Desember er kominn á hnarreistum klár

Staðlað

forsidaSjaldgæft er að fá í hendur tónlistardisk, setja hann undir geisla, hlusta einu sinni út í gegn og strax aftur. Láta svo diskinn snúast aftur og aftur og geta ekki hætt, enda batnar hann bara við hverja hlustun. Við erum að tala um Jól, nýjan disk Brother Grass. 

Jólapopp er ekki sérlega uppbyggjandi, alla vega ekki í síbylju. Fjárfest var í jóladiski Brother Grass með hálfum huga, það skal játað. Hann gat alveg verið einhvers konar afleggjari jólapoppsins en það reyndist aldeilis ekki svo.

Hér eru einfaldlega komin tólf ný jólalög, nýsköpun í anda bestu hefða hátíðartónlistar sem hæfir þessum árstíma. Þetta á við lögin sjálf, ljóðin, útsetningar, söng og hljóðfæraleik.

stormynd

Í Brother Grass eru systkin frá Tjörn, Ösp og Örn Eldjárn Kristjönu- og Kristjánsbörn, Hildur Halldórsdóttir, Sandra Dögg Þorsteinsdóttir og Soffía Björg Óðinsdóttir.

  • Tóndæmi af Jól á YouTube: Frostið. Lag: Örn Eldjárn, ljóð: Katrín Sif Ingvarsdóttir (sem vel að merkja er frá Dalvík) .

Soffía Björg er tengdadóttir Svarfaðardals, því hún og Örn eru par. Á YouTube er að finna stofusessjón í Vesturbænum þar sem þau flytja lagið góðkunna Ég er kominn heim.

Öll lögin á diskinum eru eftir liðsmenn sveitarinnar og þar er hlutur Arnar stærstur. Liðsmennirnir semja sömuleiðis flesta textana en þar koma líka við sögu Tjarnarbræðurnir Kristján og Árni Hjartarsynir og fleiri textasmiðir.

Fjöldi manna kemur að hljóðfæraleiknum og auðheyrt að nostrað hefur verið við útsetningar og flutning við upptökur í hljóðveri Geimsteins í Keflavík. Afraksturinn er í samræmi við það: innileg, fáguð og hátíðleg tónlist, sem hefur skapað mikla aðventustemningu hér í Fossvogsdal.

Tónlistarstjóri Ríkisútvarpsins gæti hiklaust sett þessa plötu í spilun á Rás eitt á jólanótt, ár eftir ár. Það þarf að uppfylla ströng skilyrði til að komast í þann flokk en Brother Grass hefur „meikað það“.

Og vel að merkja, sveitin gæti meira að segja lagt líka í púkk útvarps allra landsmanna lag til að spila á Rás eitt eftir messu á gamlárskvöld: Draugabola eftir Örn Eldjárn og Hildi Halldórsdóttur. Í því lagi og flutningi er áleitin gamlárskvölds- og nýjársstemning í þjóðlegum og hátíðlegum anda þeirra tímamóta.

Við fáum sum sé bæði jól og áramót í einum pakka eða öllu heldur á einum og sama diskinum, sem hrifið hefur skrifara meira en flestir aðrir tóndiskar í seinni tíð.

Heppilegt að svarfdælskir stofnar skuli standa að slíkri nýsköpun í jólatónlist, annars væri ekki Sýslið ekki vettvangur til að vekja athygli á henni.

  • Freistandi er að birta í lokin ljóðið Jól við titillagið á diskinum. Ljóðin fylgja með diskinum og þeirra má njóta líka sem slíkra! Og svo það sé sagt: umslagið er flott hannað og skilmerkilegar upplýsingar þar að finna en pirrandi að rekast á innsláttarvillur. Góður prófarkalestur á að vera sjálfsagður hlutur þegar svo vel er vandað til verka að öðru leyti .

jol

Ein athugasemd við “Desember er kominn á hnarreistum klár

  1. Þú gleymir einum Svarfdælingnum, Atli Rúnar: Katrín Sif Ingvarsdóttir var heimagangur hjá okkur á Öldugötunni þegar við bjuggum á Dalvík á tíunda áratugnum. Hún er dóttir Tótu sem vinnur í Kaupfélaginu og Ingvars sem vinnur á bæjarskrifstofunum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s