„Dalvíkurgrenitréð“ í Heiðmörk fært í jólaskrúðann

Staðlað

IMG_3706Hópur fólks fetar sig áfram eftir fljúgandi hálli skógargötu í svartamyrkri og hellirigningu í Heiðmörk. Ein ber stiga, annar borð. Hinir selflytja litfagrar kúlur og annað skraut sem kennt er við jól. Það á að færa tiltekið grenitré í jólaskrúða einu sinni enn og lýsa þannig upp tilveruna í tilefni komandi hátíða. Þetta dytti engum í hug að gera nema Dalvíkingum.

IMG_3770Hér er gönguhópurinn Sporið – líknarfélag á ferð, brottfluttir Dalvíkingar og viðhengi þeirra sem hittast á laugardagsmorgnum og ganga rösklega um Heiðmörk til að fá súrefni í kroppinn í góðum félagsskap, styrkja vöðva, víkja burt þungum þönkum og aukakílóum og auka yfirleitt við vellíðan sína á allan hátt.

Göngufólkið hefur smám saman kynnst trjáum í sjón og raun meðfram stígunum sem það þrammar viku eftir viku, ár eftir ár. Það hefur tekið eitt grenitréð í fóstur og sinnir því sérlega vel.

Allar sögur hafa upphaf og endi. Sagan um „Dalvíkurtréð“ í Heiðmörk hefur upphaf, við spyrjum svo að leikslokum.

Hvenær byrjaði þetta? Svörin voru ekki sérlega skýr þegar safnast var saman til skreytingar á fimmtudagskvöldið var, 29. nóvember. „Þetta er í áttunda skiptið,“ sagði einn. „Nei, þetta er ábyggilega í níunda skiptið,“ sagði annar. „Áttunda eða níunda skiptið án virðisaukaskatts, tíunda skiptið með vaski,“ mælti þá sá þriðji.

Dæmigert dalvískt svar.

Þegar grannt er skoðað má rekja upphafið 12 ár inn í fortíðina þegar Haukur Sigvalda fór að ganga í Heiðmörk á laugardagsmorgnum til að bæta geð og heilsu:

IMG_3696Eftir fáein ár varð ég hundleiður á sjálfum mér og bauð Jóni Magnússyni, Dalvíkingi í aðra ætt, að slást í för með mér. Hann þáði það. Nokkru síðar fóru konur að grennslast fyrir um laugardagsgönguna og Lína frænka fékk góðfúslega einn hring með okkur til reynslu. Hún mætti aftur og aftur. Fleiri bættust svo við, bæði konur og karlar, sumir komu einu sinni og síðan ekki söguna meir.

Brátt kom að því að laugardagsmorgnar dugðu ekki til. Menn vildu meira og þá var farið að ganga líka á fimmtudagskvöldum eftir bók Reynis Ingibjartssonar, 25 gönguleiðir á höfuðborgarsvæðinu.

Fastur liður á laugardögum er að hittast í Grafarvogsbakaríi að göngu lokinni, fá sér hressingu og ræða málin. Dæmi eru um að sveitungar okkar sleppi göngunni og komi bara í kaffið. Það er í góðu lagi!

Víkur þá sögu að trénu góða, þessu sérvalda greni sem skartar nú skrautkúlum á greinum og rauðri slaufu á toppnum. Upphafið er að finna í þann tíð er Haukur og Jón Magnússon voru tveir á rölti þarna á laugardögum:

IMG_3743Við sáum þetta grenitré, stakt í litlu rjóðri, fölt yfirlitum og raunalegt að sjá. Ákveðið var að gera eitthvað í málinu og gefa trénu sómasamlegt líf. Við náðum í hrossaskít og fluttum að trénu til að gefa því þrótt úr lífrænum áburði. Ekkert gerðist næstu tvö árin, tréð varð jafnvel enn fölara og ræfilslegra en fyrr. Á þriðja ári gerðist undrið: grenið fékk á sig þennan skínandi fallega græna lit og fór að vaxa eins og því væri borgað fyrir það. Á aðventunni hengdum við dálítið af jólaskrauti á tréð og bættum við skrautið ár eftir ár. Tréð stækkaði og við þurftum bæði fleiri hendur til verksins og stiga til að ná upp á topp. Þetta varð heilmikið fyrirtæki en markar skýrt upphaf jólahaldsins okkar.

IMG_3684Engu er logið þegar sagt er að grenið hafi braggast í fóstri Dalvíkinganna. Frá upphafi jólaföstu fram yfir þrettánda dag jóla er það í sérflokki í skóginum öllum, skreytt frá toppi til táar. Eðlilega er það alveg sérstök tilfinning fyrir gönguhópinn að fara sína leið um Heiðmörk þegar tréð er í jólaskrúðanum sínum. Aðrir gestir í Heiðmörk reka upp stór augu og velta mjög fyrir sér hvernig á þessari skreytingu standi, hverjir skreyti og hvers vegna? Það upplýsist hér og nú.

Göngufólkið er afar ánægt með að geta sagt með sanni að skrautið á trénu hafi fengið að vera í friði fyrir þjófum og skemmdarvörgum. Reyndar hefur skrautið staðið af sér alls kyns óveður og fannfergi og alltaf hefur verið nóg eftir á greinunum að baki jólum þegar göngufólk mætir til að taka það niður.

Margar hendur vinna létt verk. Það tók um það bil þrjá stundarfjórðunga að koma trénu í hátíðarbúninginn í ár. Að því búnu var dekkað borð með kökum, norðlensku laufabrauði, kaffi og súkkulaði með rjóma. Vel þegin hressin í votviðrinu.

Dálítið súrrelísk stemning í Heiðmörk þessa kvöldstund en fyrst og fremst  bæði óvenjulegt og í hæsta máta vinalegt uppátæki.

Jólin eru gengin í garð hjá gönguhópi Dalvíkinga í Heiðmörk.

erer

Skreytingagengið 2012. Aftast frá vinstri eru María Rún Guðmundsdóttir, Eygló Pálsdóttir, Ásgeir Guðjón Stefánsson og Jón Magnússon. Þar fyrir framan eru frá vinstri: Sigurlína Steinsdóttir, Guðrún Marínósdóttir, Sóley Björgvinsdóttir, Kristín Alfreðsdóttir, Guðlaug Baldvinsdóttir, Haukur Sigvaldason, Markús Mar Matthíasson og Hákon Óli Guðmundsson. Fremst eru frá vinstri: Friðfinnur Orri Stefánsso, hundurinn Geisli, Guðrún Valtýsdóttir, Þorgeir barnabarn Guðrúnar, og Valgerður Magnúsdóttir.

2 athugasemdir við “„Dalvíkurgrenitréð“ í Heiðmörk fært í jólaskrúðann

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s