Ólafsfirðingar sunnan heiða í siginni Sægreifaveislu

Staðlað

Glatt var á hjalla í lávarðadeild Sægreifans í hádeginu í dag, sem sagt í salnum uppi í þessu merka veitingahúsi við Reykjavíkurhöfn. Brottfluttir Ólafsfirðingar sunnan heiða hittust til að skrafa yfir signum fiski og í hópnum reyndist vera einn af tengdasonum Svarfaðardals. Þegar það lá ljóst fyrir var leiðin greið fyrir góða nærsveitamenn inn á víðar lendur Svarfdælasýslsins.

Kolla á Sægreifanum sér um sína, í þetta sinn brottflutta Ólafsfirðinga.

Tveir Ólafsfirðingar, Bjarki Sigurðsson og Stefán Ólafsson, fengu sér siginn fisk á Sægreifanum í mars 2012, sem út af fyrir sig er ekki í frásögur færandi. Hjá þeim kviknaði sú hugmynd að láta boð út ganga til sveitunganna og prófa að gera slíkar samkomur að föstum lið í hádeginu síðasta fimmtudag hvers mánaðar. Það tókst. Skúli Páls bættist fljótlega við í framkvæmdaráðið og nú hafa Ólafsfirðingarnir hist þarna einum sex sinnum. Stöðugt fjölgar í flokknum. Þrettán mættu í dag en hefðu með fullri mætingu átt að vera hátt í tuttugu.

Siginn fiskur er á borð borinn og hópurinn fær lávarðadeildarsalinn út af fyrir sig. Gamalreyndur starfsmaður Sægreifans, Kolbrún, tók Ólafsfirðingana að sér og eldar ofan í þá signa fiskinn og selspikið á staðnum, það er að segja í horni sjálfrar deildar lávarðanna.

Hamsar voru í boði fyrir þá sem neituðu sér um selinn en hamsatólg er heldur ekki allra uppáhald frekar en selspikið: „Hamsar? Hver étur hráefni sem kerti eru steypt úr?“ gall við í einum við borðið.

Nýir félagar mættu á fund í dag og voru reyndar svo framandi að menn þurftu að kynna sig með nafni og númeri í fyrstu. Svo kom auðvitað á daginn að allir þekktu alla við nánari skoðun og umræður urðu afskaplega líflegar með tilheyrandi hlátrasköllum.

Stefán tengdasonur Svarfaðardals Ólafsson.

Tengdasonur Svarfaðardals í hópnum er Stefán Ólafsson og eiginkonan er Gerður Árnadóttir Rögnvaldssonar frá Dæli.

Næsti hádegisfundur brottfluttu Ólafsfirðinganna á Sægreifanum er í hádeginu fimmtudaginn 20. desember. Þá verður að sjálfsögðu skata á borðum og ábyggilega vel kæst. Ef ekki verður fullskipað í klúbbnum þann daginn gerist það aldrei. Og svona í framhjáhlaupi er við hæfi að benda skötuvinum á að hin ljúfa sjávarafurð, oftast frá Hafsteini í Flatey, er á matseðli Sægreifans í hádeginu á laugardögum frá hausti fram á voru en daglega síðustu daga fyrir jól.

Áberandi margir í hópnum í dag voru lýðveldisbörn, þ.e. fæddir 1944. Fullyrt var að  einmitt ’44-árgangurinn væri sá stærsti í barna- og síðar grunnskólanum í Ólafsfirði. Ábyggilega satt og rétt. Hvað var annars skárra við að vera, utan dagvinnutíma í Ólafsfirði á myrkum tíma heimsstyrjaldarinnar, en að búa til börn?

Þrjú bræðrasett voru í þrettán manna hópnum í dag: Einar og Stefán Jakobssynir, Grímur og Sigurpáll Grímssynir, Sigursteinn og Skúli Pálssynir.

Aðrir á vettvangi: Pétur Guðmundsson, Jón Magnússon, Bragi Fannbergsson, Stefán Ólafsson, Bjarki Sigurðsson, Grétar J. Magnússon og Hreinn Guðmundsson. Allir búsettir á höfuðborgarsvæðinu nema hvað Jón er á Suðurnesjum.

Félagsskapur brottfluttra Ólafsfirðinga er auðvitað í hæsta máta óformlegur og skrifari þessara lína var hjartanlega boðinn velkominn til borðs, enda svo stálheppinn að ganga með Ólafsfjarðargen í sér og vera þar með löglega gjaldgengur, þökk sé Ingibjörgu ættmóður frá Jarðbrú.

Engu að síður ber að nefna það sem fram kom í dag um að ættartengsl væru ekki úrslitaatriði til að fá þarna landvistarleyfi. Eina skilyrðið er, alveg ófrávíkjanlegt:

„óstöðvandi löngun til að vera Ólafsfirðingur!“

Þinglið Ólafsfirðinga í lávarðadeild Sægreifans í dag. Frá vinstri: Einar Jakobsson, Grímur Grímsson, Pétur Guðmundsson, Jón Magnússon (að baki  Braga), Bragi Fannbergsson, Stefán Jakobsson, Stefán Ólafsson,  Bjarki Sigurðsson (að baki Skúla), Skúli Pálsson (sitjandi), Grétar J. Magnússon, Sigurpáll Grímsson, Hreinn Guðmundsson og Sigursteinn Pálsson.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s