Svo brytjum við grísina, Grundarmenn

Staðlað

Eini gallinn við Svarfdælasögu hina nýrri eftir Þórarinn Eldjárn er að hún er ekki nema 164 blaðsíður! Lesandinn þiggur meira af svo góðum texta en þá er bara að byrja á nýjan leik og lesa aftur. Hafi sagan legið við frumkynnin steinliggur hún við hinn síðari lestur. Rétt eins og gerist með tvíreykta hangiketið: síðari umferðin í kófinu gerir útslagið.

Kort af Svarfaðardal verður fyrst fyrir lesandanum þegar opnuð er nýja bókin frá Þórarni Eldjárn í Gullbringu, Hér liggur skáld. Þar eru merktir inn bæir í sveitinni sem koma við sögu: Upsir, Brekka, Grund, Hof og Klaufanes. Svo fær Skeiðsvatn að fljóta með, enda gerast í Vatnsdalnum dramatískir hlutir eins og víðar í dalnum.

Alþingi á Þingvöllum og hallir höfðingja í Þrándheimi og Hróarskeldu eru líka hluti af sögusviðinu en allt hverfist þetta um átök í Svarfaðardal, þar sem „sífelld úlfúð ríkti milli Hofsmanna austan ár og Grundarmanna að vestan. Höfðingjar er hvoru sínum megin vildu teljast fremstu menn dalsins.“

Við fylgjum Þorleifi hinu hógværa jarlsskáldi Ásgeirssyni frá Brekku heima og heiman þegar hann skorar hið illa á hólm. Á bókarkápu er sagan þannig kynnt:

„Sagan segir“ – ja, hvað segir sagan? Af Þorleifi og ættingjum hans í Svarfaðardal eru fornar sagnir um harðvítug átök höfðingjanna í dalnum, fyrirboða og forynjur, afdrifaríka kaupferð til Noregs, grimmd og dráp, kynngimagnaðan hefndarkveðskap og ómennskt víg á Þingvöllum.

Við höfum verið alin upp við að dalurinn  dragi nafn sitt af landnámsmanninum Þorsteini Svörfuði á Grund en nafnakenning Þórarins í bókinni er þessi: „Áin svarf úr bökkum og hlaut nafnið Svörfuð. Þar af Svarfaðardalur.“

Svarfaðarnafn landnámsmannsins er hins vegar skýrt þannig: „Það svarf að Þorsteini í bardaga við hálfberserk í Svíþjóð  og hét svarfaður upp frá því.“

Þórarinn Eldjárn er með fágæta skáldagáfu og segir sögu í texta eða ljóðum sem unun er að lesa. Nýja skáldsagan er auðvitað mikill fengur fyrir Svarfdælinga en  fólk í öðrum héruðum fær ábyggilega notið hennar fullvel líka!

Svo er beinlínis uppbyggjandi fyrir líkama og sál að lesa bókina. Ef eitthvað er hæft í því að hlátur lengi lífið bætir lesandinn ábyggilega við sig nokkrum æviárum.  Lýsingin á hátterni Klaufa framkallar þannig bráðhollan hláturkrampa.

  • Textabrot úr skáldsögunni Hér liggur skáld er að finna á bokmenntir.is.

Vel átti við að skjóta Vínlandsdagbók Kristjáns Eldjárns inn á milli fyrsta og annars lesturs bókar Þórarins til að fullkomna góða leshelgi. Afar áhugaverðar frásagnir og hugleiðingar þjóðminjavarðarins um það sem fyrir augu og eyru bar við uppgröft á Nýfundnalandi sumarið 1962. Hann var gagnrýninn á vinnubrögð Norðmannsins Helge Ingstad og sú er líkast til ástæðan fyrir því að Kristjáni hugnaðist ekki að birta dagbókarskrifin fyrr en hæfilegur tími væri liðinn. Hann varpaði því sjálfur fram í maí 1979 að ef til vill yrði tímabært að birta þetta 2012 þegar hálf öld væri liðin frá Vínlandsreisunni. Þórarinn Eldjárn tók föður sinn á orðinu og undirbjó dagbókina til útgáfu nú, sem er þakkarvert framtak. Mikill fengur er að bókinni og hún er sérlega vel hönnuð grafískt og frágengin af hálfu Forlagsins.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s