Gamlar myndir sýndar linnulítið í tvær klukkustundir á Loka og gera mátti ráð fyrir þreytu vegna slímsetu. Flestir gestir sögðu hins vegar að skilnaði: svarfdælskt myndakvöld sem fyrst aftur, takk!
Tiltölulega einfalt væri að afgrreiða frásögn af bjórkvöldi Svarfdælinga á Loka á Skólavörðustíg í gærkvöld með því að segja: bullandi hamingja, gleði og fróðleikur. Reyndin varð allt þetta og miklu meira til.
Sindri Heimis sýndi í upphafi myndir frá föður sínum, Heimi Kristinssyni, og í síðari hálfleik brá Júlli Jónasar upp myndum úr safni föður síns, Jónasar Hallgrímssonar bílaverkstæðisformanns á Dalvík til áratuga.
Þétt setinn Svarfaðardalur á Loka, eins og vera ber á svona samkundum. Mikið fjör og mikið gaman. Gamlar myndir kveikja neista til umræðna. Þurfti ekki annað en bílnúmer, bragga sem horfinn er, bát sem hvarf á gamlárskveldsbálkesti, rúllu í hári, Telefunken-útvarpstæki á hillu eða Kidda Rommel í löggubúningi til að stofna til spjalls.
Kvöldið var fráhvarf til fortíðar í besta skilningi. Af meiru er að taka á nýju ári í myndefni.
Tvær myndir af myndum fljóta með í safninu hér fyrir neðan, teknar í bríaríi af veggnum í miðri skyggnilýsingunni. Strákarnir þrír á annarri myndinni eru Boddi heitinn, Soffi á Hrafnsstöðum og Villi Helga sigri hrósandi með mink sem Boddi náði að góma og senda inn í eilífðina. Vígalegir drengir en misháir í loftinu!
Leiðinlegt að hafa misst af þessu, sé á myndunum að þetta hefur ekki verið mjög leiðinlegt 🙂
Skemmtilegt kvöld og mögnuð innkoma ritstjóra svarfdælasýsls í hléi 🙂
rábært að sjá ykkur þarna í kös…..aldeilis verið gaman!!!!!