Veglegt ljósmyndauppboð til stuðnings sveitunga okkar, Ingólfi Júlíussyni, verður í Gyllta salnum á Hótel Borg á sunnudagskvöldið kemur, 25. nóvember, kl. 19:00. Ingólfur er á Landspítala vegna alvarlegra veikinda og vinir hans í ljósmyndunarfaginu vilja rétta honum og fjölskyldunni hjálparhönd
Stofnuð hefur verið Fésbókarsíða þar sem eftirfarandi kemur fram um málið:
Tilgangur uppboðsins er að styrkja Ingólf Júlíusson, ljósmyndara og margmiðlunarhönnuð, sem frá árinu 2008 hefur starfað sjálfstætt (freelance), m.a. sem ljósmyndari fyrir Reuters hér á landi.
Ingólfur greindist með bráðahvítblæði (Acute Myelogenous Leukemia – AML) í byrjun október 2012 og hefur verið á sjúkrahúsi síðan. Upp úr áramótum fer hann til Svíþjóðar til að gangast undir mergskipti.
Samhugur félaga hans í stétt ljósmyndara varð til þess að þeir tóku höndum saman og ákváðu að aðstoða þennan hjartahreina og hlýja mann sem Ingólfur er. Það gera þeir til dæmis með þessu veglegasta ljósmyndauppboði Íslandssögunnar og styðja þannig fjárhagslega við bakið á honum og fjölskyldu hans á þessum erfiðu tímum.
Á uppboðinu verður m.a. að finna málverk eftir Tolla sem hann gaf sjálfur til söfnunarinnar og myndavél sem 12 helstu ljósmyndarar landsins hafa tekið myndir á og áritað. Filman fylgir vélinni óframkölluð og því er um einstakan grip að ræða.
Margir helstu ljósmyndarar og blaðaljósmyndarar landsins gefa myndir á uppboðið, en þeir eru eftirfarandi:
• Ragnar Axelsson (RAX)
• Ragnar Th. Sigurðsson
• Spessi
• Páll Stefánsson
• Ari Magg
• Christofer Lund
• Gassi
• Kristinn Ingvarsson
• Júlíus Sigurjónsson
• Árni Sæberg
• Geirix
• Haraldur Guðjónsson (HAG)
• Sigtryggur Ari Jóhannsson
• Jóhann Ágúst Hansen
• Stefán Karlsson
• Pjetur Sigurðsson
• Vilhelm Gunnarsson
Þá hafa fjölmörg fyrirtæki lagt málefninu lið og má þar nefna Beco, Hótel Borg, Pixla, Velmerkt, Gallerý Fold, Svansprent og Vífilfell.
Allir sem að uppboðinu koma gefa vinnu sína.
Ingólfur Júlíusson fæddist 5. maí 1970 og ólst upp fyrstu árin í Syðra Garðshorni í Svarfaðardal en síðan frá 5 ára aldri í Breiðholti. Hann var athafnasamur lestrarhestur á unglingsárunum, átti hesta og mótorhjól og spilaði í pönkhljómsveitum, meðal annars í Q4U.
Hann er sjálfmenntaður þúsundþjalasmiður og hefur fengist við ótalmargt og m.a. starfað við flesta fjölmiðla á Íslandi frá árinu 1996, fyrst sem umbrotsmaður á blöðum og tímaritum, fastráðinn eða verktaki, síðan sem tökumaður fréttamynda í sjónvarpi. Ingólfur fór snemma að taka myndir fyrir blöð og ljósmyndun varð um síðir meginstarf hans, enda er hann orðinn afbragðsgóður ljósmyndari.
Í nokkur ár hefur hann verið ljósmyndari Reuters fréttastofunnar á Íslandi og hann hefur starfað sjálfstætt frá árinu 2008. Myndir hans hafa farið um víða veröld og hann hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar, til dæmis var ein mynda hans meðal fréttamynda ársins hjá Reuters árið 2010 og árið 2011 var ein mynd hans valin sem ein af óvæntustu myndum ársins hjá Time Magazine.
Hann hefur haldið nokkrar ljósmyndasýningar og tekið þátt í samsýningum. Einna þekktustu myndir Ingólfs eru frá eldgosum og öskufalli síðustu ára en listrænar myndir hafa orðið meira áberandi á síðari árum.
Ingólfur hefur fengist við ýmislegt annað: myndbandagerð, tónlist, útskurð, fjallamennsku og sitthvað fleira. Árið 2011 tók hann myndir í bókina Ekki lita út fyrir en Eva norn skrifaði textann. Síðustu árin hefur hann verið mjög virkur með víkingafélaginu Einherjum og á orðið gott safn af miðldavopnum og verjum.
Ingólfur er kvæntur Monicu Haug og þau eiga tvær dætur, Hrafnhildi 11 ára og Söru 9 ára. Tíkin Beta er hluti af fjölskyldunni.
Ein athugasemd við “Ljósmyndauppboð til stuðnings Ingólfi frá Syðra-Garðshorni”