Fyrirsögnin gefur fyrirheit um að það styttist í næstu samkomu Svarfdælinga sunnan heiða. Mikið rétt, við blásum til samverustundar á Loka á Skólavörðuholti á föstudagskvöldið 23. nóvember kl. 20:30.
Þetta verður hámenningarsamkoma, skyggnilýsingafundur, og víst er að gestir fara fróðari heim um átthagana en þeir voru við komuna á vettvang. Þórhallur miðill, sveitungi vor frá Skáldalæk, kemur að vísu ekki við sögu heldur vörpum við skuggamyndum á vegg og lýsum þeim eftir því sem efni standa til. Við höldum okkur sum sé í okkar efnisheimi; förum ekki í ,,næsta herbergi“ eins og Þórhallur kallar handansheiminn.
- Júlli Jónasar mætir með myndir úr safni föður síns, Jónasar Hallgrímssonar á bílaverkstæðinu.
- Sindri Heimis mætir með myndir úr safni föður síns, Heimis Kristinssonar í Dalsmynni.
- Þetta verður pabbatími sem lengi hefur verið beðið eftir í suðurbyggðum Svarfdæla.
Júlli og Sindri báru á dögunum saman bækur sínar heima hjá þeim fyrrnefnda i Kópavogi. Auðvitað kom á daginn að mun erfiðara er að hafna en velja sýningarmyndir. Það er svo ótalmargt í flóðinu sem skemmtilegt er að skoða og spá í.
Þegar Júlli sýndi Jónasarmyndir á Loka í fyrra lengdist samkoman verulega í hinn endann. Menn tóku sér svo góðan tíma til að stúdera fólk, fénað, hús, bíla, dráttarvélar, byggingarkrana, báta, síldarplön, KEA, mjólkurbúðina og yfirleitt allt sem fyrir augu bar á mynd eftir mynd.
Í ljósi reynslunnar byrjum við því tiltölulega snemma kvölds, kl. 20:30, til að hafa tímann fyrir okkur í myndaskoðun og tilheyrandi ljúfsáru saknaðarhjali. Auðvitað verður svo að hafa hlé eins og í Ungóbíói forðum en aðallega fyrir kaffi eða öl + Lokakrásir. Vertarnir, Hrönn og Þórólfur, eru frekar tæpir með birgðir af Spur og Conga.
Júlli gerði Svarfdælasýsli þann heiður að leyfa hér birtingu myndar úr safni Jónasar og sú er í hæsta máta viðeigandi fyrir Dalvík og nágrenni í augnablikinu.
Þarna er Steingrímur Þorsteinsson á Vegamótum að virða fyrir sér snjóalög á Múlavegi fyrir hálfri öld eða svo, margra metra hátt stálið.
Með á myndinni er jeppi Jónasar, ekki þessi með númerið A-1000 sem hann var þekktastur fyrir að aka, heldur annar sem hann kallaði Nýræktina. Sá bíll var aðallega notaður á meðan byggt var hús yfir A-1000. Nafnið á jeppanum, Nýræktin, vísaði til þess að bíllinn var á litinn eins og kalin nýrækt.
Júlli handmálaði Nýræktina og það frekar tvisvar en hitt. Hann bar því nokkra ábyrgð á kalinu.
Júlli sjálfur átti líka bíl um hríð sem Afgangur hét. Nafngiftin skýrðist af því að eigandinn notaði málningarafganga á bílaverkstæðinu til að gefa gripnum lit.
Sagnfræðin kúrir þannig víða þegar brugðið er upp svarfdælskum ljósmyndum frá því i den og eins gott að mæta tímanlega á föstudagskvöldið til að halda öllum þráðum þar að lútandi frá upphafi til enda.