Bautasteinn og heimildarmynd um mannskaðaveðrið við Norðurland 1963

Staðlað

Hinn 9. apríl 2013 verður nákvæmlega hálf öld liðin frá því mannskætt fárviðri varð ellefum sjómönnum norðanlands að aldurtila, þar af sjö Dalvíkingum í blóma lífsins. Sjómönnunum frá Dalvík verður af þessu tilefni reistur bautasteinn fremst á norðurgarði hafnarinnar og unnið er að heimildarmynd um sjóslysin.

Stefán, Haukur og María bera saman bækur sínar á Lokakaffi á Skólavörðuholti.

Aðstandendur þessa verkefnis eru þrír:

  • Haukur Sigvaldason, sonur Sigvalda Stefánssonar, eins fórnarlamba páskahretsins. Haukur var fimm ára þegar þetta gerðist.
  • María Jónsdóttir textílhönnuður frá Árhóli á Dalvík. Hún er nemandi í Margmiðlunarskólanum og átti hugmyndina að því að gera heimildarmynd um sjóslysin miklu. Sú hugmynd átti hins vegar rætur á ská í áformum Hauks um að setja upp minnismerki á Dalvík.
  • Stefán Loftsson, kvikmyndagerðarmaður ogbróðursonur Hauks. Hann annast tæknilega hlið verkefnisins: upptökur, klippingu og eftirvinnslu. Stefán er sem sagt afabarn Sigvalda heitins en fæddist löngu eftir að þessir atburðir áttu sér stað. Hann heiðrar minningu afa síns með vinnu sinni nú. Bræðurnir Stefán og Sigvaldi Loftssynir eiga og reka kvikmyndafyrirtækið Omen. Þeir unnu báðir við upptökur á heimildarmyndinni um Bakka-Baldur ásamt Þorfinni Guðnasyni kvikmyndagerðarmanni.

Barnsminning um illviðri og ógn í lofi

„Haukur vildi fá mig til að teikna minnismerki fyrir nokkrum árum en ég færðist undan því. Síðar fór ég að velta fyrir mér sjóslysunum sem efniviði í heimildamynd. Þá hafði ég fengið áhuga á myndbandagerð sem nemandi Margmiðlunarskólanum. Ég hringdi í Hauk og spurði hvort hann vildi vera með mér í ákveðnu verkefni. Hann svaraði játandi án þess að hafa hugmynd um hvað hengi á spýtunni og hér erum við nú!“ segir María.

„Fyrsta handritið varð til núna vorið 2012. Verkefnið hefur síðan þá vaxið í allar áttir og atburðarásin að sumu leyti tekið völdin af upprunalegum hugmyndum og handriti, sem eðlilegt er. Sjóslysin höfðu mikil áhrif á mig. Ég er jafnaldri Hauks og man vel eftir afa mínum hlusta á bátabylgjuna í útvarpinu þennan dag. Veðrið var vont, ógn í lofti og fólkið hrætt. Við börnin vorum lítið sem ekkert upplýst um hvað væri að gerast.“

Grjótnám með bæjarstjóraleyfi

Haukur hefur lengi fóstrað þá hugmynd að minnast föður síns og annarra sem fórust þennan örlagadag með minnismerki eða á annan hátt þegar hálf öld væri liðin frá atburðunum, það er að segja þriðjudaginn 9. apríl 2013. Og vel að merkja: 9. apríl 2013 er þriðjudagur og sjóslysin áttu sér líka stað á þriðjudegi, 9. apríl 1963.

Verkefnið er öðrum þræði liður í því hjá Hauki að vinna úr eigin minningum og sorg á barnsaldri eftir allan þennan tíma. Slysin voru löngu fyrir tíma áfallahjálpar og fullorðna fólkið kaus að láta börnin vinna að mestu sjálf úr sínum sorgum. Hann segist jafnframt vilja með þessu heiðra ekkjur sjómannanna, konurnar sem stóðu uppi fyrirvinnulausar með börnin sínu ungu.

„Hugmyndin um minnismerki endaði í bautasteini, grjóti sem tekið yrði við höfnina á Dalvík og gert að minningarsteini um höfðingjana sem reru til fiskjar þarna um morguninn og komu aldrei heim aftur í lifanda lífi,“ segir Haukur.

Við verðandi bautastein í porti Sólsteina-S.Helgasonar í Kópavogi. Stefán kvikmyndatökumaður filmar samkomuna.

„Svanfríður Jónasdóttir bæjarstjóri gaf mér leyfi til að leita að hentugu grjóti í höfninni en eiginlega fann grjótið mig, ekki öfugt. Það valdi sig sjálft. Ég gekk nánast beint að ákveðnum steini. Klaufabrekknabræður voru að vinna við höfnina, ekki að vísu þá í augnablikinu enda var ég þarna staddur á sunnudagsmorgni. Ég hringdi í Halla Hreins og hann í Jón bróður sinn. Þeir komu á vettvang og þegar ég benti á steininn glottu þeir báðir mjög og litu hvor á annan. „Hver fjárinn er nú í gangi?“ hugsaði ég. Þá kom í ljós að einmitt þessi tiltekni steinn hafði valdið þeim bræðrum og starfsmönnum þeirra umtalsverðu hugarangri. Hann hlóðst engan veginn í grjótgarðinn og var hálfvegis utanveltu í hleðslunni. Steinninn ætlaði sér annað og meira hlutverk í tilverunni!

Lagt á ráðin. Frá vinstri: María Jónsdóttir, Haukur Sigvaldason, Brjánn Guðjónsson, forstjóri Sólsteina-S.Helgasonar, Jón Adolf Steinólfsson listamaður og Ægir Ólafsson steinsmiður.

Klaufabrekknabræður tóku að sér að lyfta grjótinu upp á bíl frá Eimskipi og síðan lá leiðin suður í steinsmiðjuna Sólsteina-S.Helgason í Kópavogi. Þar er steinninn í góðra manna höndum. Framkvæmdastjóri Sólsteina-S.Helgasonar er nefnilega með svarfdælsk gen í sér, Brjánn Guðjónsson*, sonur Guðjóns Svarfdal Brjánssonar, fyrsta forstöðumanns Dalbæjar, heimilis aldraðra á Dalvík.

Jón Adolf Steinólfsson, tréskurðarmeistari og listamaður, ætlar að klappa lágmynd í steininn og Ægir Ólafsson, steinsmiður hjá Sólsteinum-S.Helgason, sér um tilheyrandi áletrun. Við hittumst á dögunum í porti Sólsteina-S.Helgasonar til að skoða steininn betur og velta fyrir okkur hugmyndum um hvað hægt væri að gera og hvernig. Nú tökum við okkur tíma í vangaveltur um útfærsluna og þegar niðurstaða fæst verður gengið í verkið.“

* Ættarfróðleiksmoli í framhjáhlaupi: Brjánn Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sólsteina-S.Helgasonar, er langömmubarn Snjólaugar Jóhannesdóttur á Skáldalæk. Hún fæddist á Göngustöðum og átti systkin víða í Svarfaðardal: Þuríði á Skeiði, Jón á Hæringsstöðum, Sigríði á Jarðbrú, Önnu í Ytra-Garðshorni, Sigurð smið á Dalvík, Soffíu á Urðum, Sólveigu, sem síðast bjó á Dalvík, og Steinunni (Nunnu) í Staðarhóli á Dalvík. Nunna var tengdamóðir Jóhanns Helgasonar sem fórst með vélbátnum Hafþóri í páskahretinu.

Lýsa eftir hreyfimyndum og fatnaði frá sjöunda áratugnum

„Við ætlum að ljúka töku myndarinnar á Dalvík 9. apríl á næsta ári. Þá verður steinninn afhjúpaður á hafnargarðinum og síðan er áformuð minningarathöfn í kirkjunni,“ segir Stefán.

„Upphaflega gerðum við ráð fyrir að myndin yrði í mesta lagi hálftími að lengd en trúlega verður hún eitthvað lengri. Viðmælendum fjölgar og meira myndefni kemur í ljós líka þegar nú verkið er komið á skrið. Við viljum gjarnan frétta af meira myndefni frá Dalvík frá þessum tíma, einkum þó kvikmyndum sem mögulegt er að menn lumi á og gæti gagnast okkur. Það kann að leynast merkilegra efni á filmubútum en eigendur þeirra gera sér grein fyrir sjálfir.

Við hugsum okkur svo að taka upp leiknar senur í lokin til að tengja saman myndbrot og frásagnir í eina heild. Ef einhverjir lesendur þessara skrifa búa svo vel að eiga föt frá þessum tíma, bæði á fullorðna og 5 til 8 ára börn, væri vel þegið að viðkomandi hefðu samband við okkur.“

Leitað eftir fjárstuðningi

Aðstandendur minningarverkefnisins komast ekki langt án beins eða óbeins stuðnings, enda er þetta fyrirsjáanlega milljónadæmi í krónum talið. Þremenningarnir hafa nú þegar leitað eftir styrkjum hér og þar en sú leit hefur litlu handföstu skilað, enn sem komið er.

Ásgeir Pétur Ásgeirsson, lögmaður og fyrrverandi dómstjóri á Akureyri, hefur tekið að sér að vera trúnaðarmaður þeirra sem koma til með að styrkja verkefnið fjárhagslega, til að tryggja að styrkjum og framlögum verði að öllu leyti ráðstafað í kvikmyndagerðina og ekkert annað. Hann hefur stofnað reikning í Arionbanka til að taka við framlögum/styrkjum vegna minningarverkefnisins:

  • Reikningsnúmerið: 0302-13-133 – kt.: 170144-7919

Ásgeir Pétur stofnaði söfnunarreikninginn á eigin kennitölu og hefur einn aðgang að reikningnum sem trúnaðarmaður þeirra sem vilja styrkja verkefnið.

Frumsýning i tengslum við Fiskidaginn mikla 2013

Stefán kvikmyndagerðarmaður Loftsson í aksjón!

Heimildarmyndin verður byggð upp á viðtölum við Dalvíkinga, bæði úr fjölskyldum þeirra er fórust og aðra. Ljósi verður líka varpað á sjálft óveðrið og aðdraganda þess að svo fór sem fór. Trausti Jónsson veðurfræðingur verður aðstandendum myndarinnar innan handar í þeim efnum.

Stefnt er að því að frumsýna myndina á Dalvík á Fiskidaginn mikla 2013 eða í tengslum við þá samkomu. Þangað til rótast þremenningarnir áfram í verkinu, eftir því sem tími, orka og peningar leyfa: Haukur aflar heimilda og viðmælenda, María sýslar áfram við handritið og heldur utan um fjármál og slíka hluti, Stefán sér um tökur og tæknimál.
Það sem skrifari þessara lína fékk að sjá af efni, sem í hús er komið, lofar góðu og er afar áhugavert. Þarna er á sinn hátt verið að skrá í myndmáli mikilvægan hluta byggðasögunnar og þótt fyrr hefði verið.

Illt væri ef aðstandendur verkefnisins fengju ekki þann stuðning sem það verðskuldar til að ná því heilu í höfn.

Þjóðarsorg um páska 1963

Forsíða Morgunblaðsins miðvikudaginn 17. apríl 1963 er átakanleg og segir meira en nokkur orð um áföllin sem yfir þjóðina gengu þá um páskana með tilheyrandi sorg og söknuði. Þarna birtast myndir af sjómönnum, flugliðum og farþegum sem týndu lífinu í dæmalausri slysahrinu á fáeinum sólarhringum í dymbilvikunni og á sjálfan páskadaginn

Í dymbilvikunni fórust alls 16 sjómenn í fárviðri sem gekk yfir landið, þar af sjö Dalvíkingar af tveimur vélbátum gerðum út frá Dalvík: Hafþóri og Val. Það gerðist þriðjudaginn 9. apríl.

  • Af Hafþóri fórust Tómas Pétursson, Bjarmar Baldvinsson, Jóhann Helgason, Óli A. Jónsson og Sólberg Jóhannsson.
  • Af Val fórust bræðurnir Gunnar og Sigvaldi Stefánssynir.

Bjarmar og Sigvaldi eru jarðsettir í kirkjugarðinum á Dalvík. Lík annars þeirra rak á fjörur, hinn náðist um borð í strandferðaskipið Esjuna skömmu eftir að slysið átti sér stað á Eyjafirði en var þá látinn. Lík annarra fundust aldrei.

Tveir bátar frá Dalvík til viðbótar sukku í þessu sama fárviðri, Helga og Sæbjörg. Tveir menn voru um borð í hvorum báti og tókst að bjarga þeim öllum.

Tvo menn tók út af vélbátnum Hring frá Siglufirði 9. apríl og tveir menn fórust með vélbátnum Magna frá Þórshöfn.

Daginn eftir, 10. apríl, sökk aflaskipið Súlan frá Akureyri úti fyrir Garðskaga og með því fórust fimm sjómenn en sex úr áhöfninni fundust á lífi í björgunarbáti á reki á sjónum.

Ótrúleg veðrabrigði urðu þarna örlagavaldur. Í samtímaheimildum er talað um að logn hafi breyst í brjálað veður á 10 mínútum. Notuð er samlíkingin að hleypa af byssu, svo skyndileg og mikil hafi breytingin verið á Norðurlandi um hádegisbil 9. apríl.

Landsmenn fengu greidd þung högg, ekki síst Dalvíkingar. Kári, fréttaritari Morgunblaðsins, segir í pistli sínum í blaðinu á skírdag:

„Hér hafa 10 ungbörn misst feður sína, en alls áttu þeir 13 börn. Fimm konur hafa misst menn sína. Allir þessir menn voru frá Dalvík og áttu fjölda skyldmenna hér á staðnum. Það er þungur harmur kveðinn af Dalvíkingum vegna þessa mikla sjóslyss.“

Þjóðin öll var í sárum í aðdraganda páskahátíðarinnar en hörmungarsagan hafði ekki verið sögð til enda því að morgni páskadags, 14. apríl, fórst Hrímfaxi, Vickers Viscount vél Flugfélags Íslands, í aðflugi að Fornebu flugvelli í Osló.

Allir tólf um borð fórust, fimm manna áhöfn og sjö farþegar.

Fyrirhugað var að millilenda Hrímfaxa í Osló og Björgvin í Noregi á leið heim til Íslands frá Kaupmannahöfn.

Frétt í ramma á baksíðu Morgunblaðsins 11. apríl 1963, þ.e. á skírdag.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s