Góður portrettsmiður nær langt inn fyrir skinn fyrirsætunnar og birtir okkur sjálfan karakterinn ljóslifandi. Það tekst Ragnheiði Arngrímsdóttur svo sannarlega í bókinni sinni sem kom út í dag og kynnt var með bravúr í teiti í Máli og menningu.
Ragga er Svarfdælingur í báðar ættir. Hún er af Göngustaðaætt hinni svarfdælsku, dóttir Arngríms Jóhannssonar, flugstjóra og fyrrum eiganda Atlanta flugfélagsins. Faðir Arngríms og afi Röggu var Jóhann Sigurðsson, smiður á Akureyri. Systkin Jóhanns voru Steinunn á Göngustöðum (Nunna í Dröfn); Engilráð á Bakka; Jón, smiður á Dalvík (sjálfur Jonni á Sigurhæðum); Rannveig á Jarðbrú; Davíð, smiður og harmonikkuleikari á Dalvík og Páll, málari á Dalvík.
Móðir Röggu er Hrafnhildur Gunnarsdóttir, elst þriggja dætra Gunnars Pálssonar frá Hrafnsstöðum í Svarfaðardal. Gunnar tók síðar við rekstri fyrirtækis föður síns, Páls Friðfinnssonar útgerðarmanns og fiskverkanda á Dalvík. Gunnar og Jónína, eiginkona hans, fluttu til Reykjavíkur 1964 og hann vann allt til starfsloka hjá Fasteignamati ríkisins.
Þegar nú ljósmyndarinn hefur verið ættbókarfærður upp á svarfdælsku er vert að snúa sér að sjálfri ljósmyndabókinni sem Ragga gefur út sjálf, Fólkið í landinu & landið í fólkinu. Sú hefur nú aldeilis náð tökum á ljósmynduninni!
Skrifari þessa pistils fór beint úr útgáfuteitinu á knæpu Kormáks og Skjaldar til að rýna betur í bókina áður en lengra yrði haldið í lífinu. Bjórglasið stóð óhreyft í 20 mínútur og þarf mikið að ganga á svo skrifari gleymi sér svo gjörsamlega að ölfroða nái að að lyppast niður.

Nokkrar fyrirsætur Röggu mættu í útgáfuteitið í dag og eru hér með höfundi og fleiri aðstandendum bókarinnar.
Þarna eru nokkrar myndir sem fá mann til að grípa andann á lofti af hrifingu. Meistarastykki. Ekkert ofsagt þótt frænka eigi í hlut! Ég nefni mynd af baksvip Bjarna á Völlum í Svarfaðardal með Vallakirkju í augsýn, myndir af Eyvöru hinni færeysku söngkonu, myndir af Ragnari Axelssyni ljósmyndara (RAX) og af Erlu Guðmundsdóttur óléttri í sundi. Svo verður að nefna myndir af Sigrúnu systur Röggu, sem eru hvínandi flottar, og af Kristni G., listmálara á Akureyri og föðurbróður Röggu. Síðast en ekki síst verður að nefna stórbrotna mynd af pabbanum Arngrími sofandi framan við flugvélina sína.
Oflof? Nei, krakkar mínir, ég er einfaldlega stórhrifinn af þessari bók og mun fletta henni aftur og aftur næstu daga.
Textann í bókina skrifar Sigrún Arna, systir Röggu, og gerir vel. Get ekki stillt mig um að grípa upp sýnishorn, niðurlag textans um RAX ljósmyndara:
Hann hefur fylgt veiðimönnum um ísinn og eftir langa og stranga leit, staðið augliti til auglitis við ísbjörn. Sjálfur sagði hann að upplifunin hefði verið svo sterk þar sem þeir horfðust í augu í návígi, vitandi báðir að aðeins annar lifði af fundinn, að þar og þá hefði hann verið sáttur þótt hann hefði tekið sína síðustu mynd.
Björninn hafði setið fyrir í hinsta sinn en Raxi heldur áfram að segja orðlausar sögur í myndum.
Laglega skrifað en vel að merkja er Sigrún líka söngfugl. Árið 2010 gaf hún út diskinn Mitt er þitt. Mál og menning var með pakkatilboð í dag á bók og diski systranna og það fer vel á því að horfa, lesa og hlusta á afurðir þeirra. Bjórfroðan lyppast þá bara niður á meðan …
Ekki má gleyma grafísku hliðinni. Íris Blöndal hannaði bókina snoturlega til prentunar í Odda. Gott prentverk er auðvitað afskaplega mikilvægur þáttur í útgáfu þegar ljósmyndir eiga í hlut. Og það skal sagt líka að texti bókarinnar er bæði á íslensku og ensku, sem gefur henni vitanlega enn meira gildi á markaði en ella.
Eplin falla ekki langt frá eikinni. Báðar eru systurnar í fluginu, Ragga atvinnuflugstjóri, Sigrún með réttindi sem einkaflugmaður.
Örlögin höguðu því svo til að Ragga keypti góða myndavél og fór í Ljósmyndaskólann. Bókin góða varð til sem útskriftarverkefni og Ragga fór hringinn í kringum landið í leit að fyrirsætum.
Ferðalögin hennar hafa svo sannarlega skilað árangri. Viðbrögð gesta í Máli og menningu sögðu það sem segja þurfti.
- Þið getið séð hvað Ragga kann fyrir sér í ljósmyndun með því að kíkja á heimasíðuna hennar, ragnheidurarngrims.is.
- Þið getið líka hlýtt á söng Sigrúnar, tvö lög af diskinum góða: Vorið kemur og Frostrósir.
Glæsilegar myndir og umfjöllun
kv,Tinna
Ég þurfti að lesa þetta aftur og aftur þar sem ég sá ekkert fyrir tárum!
Mikið er þetta fallegt og vel skrifað og sko takk, takk TAKK! Bæði fyrir að fallegu orð OG fallegu myndir! Já og og og fyrir að koma í dag og fyrir að þykja bókin mín falleg og fyrir falleg skrif um okkur systurnar og 🙂 🙂 🙂 Forréttindi að eiga svona flottan frænda.
Takk kærlega fyrir mig 🙂
Ragga
p.s. ætla að þurrka framan úr mér tárin og lesa þetta NOKKRUM SINNUM í viðbót 😉