Fjölgum vinum Norðurslóðar!

Staðlað

Svarfdælska blaðið Norðurslóð gæti þegið fleiri áskrifendur og Hjörleifur Hjartarson, útgefandi og ritstjóri, býður þeim sem slá til nú að fá jólablaðið 2012 í kaupbæti með áskriftargjaldi fyrir árið 2013 sem er 5.800 krónur.

Svarfdælasýsli er ljúft og skylt að mæla með því að lesendur þess skrái sig áskrifendur að þessu elsta héraðsfréttablaði landsins sem komið hefur út í 36 ár; nú eða gefi áskrift í jólagjöf. Það er góður harður pakki og endist lengi.

Svarfdælasýsl og Norðurslóð eru andlegir ættingjar í raun og ritstjórarnir hittust í dag á Loka á Skólavörðuholti til að bera saman bækur sínar. Þar var allt eins og átti að vera á góðum degi. Svo vildi til að Björk Eldjárn frá Tjörn, bróðurdóttir Hjöra, var þjónn á vaktinni. Hún er annars í námi í textílhönnun en vinnur með námi á Loka. Ljúfur söngur móður hennar, Kristjönu á Tjörn, barst yfir salinn úr hátalarakerfinu. Hvað kemur næst úr svarfdælskri átt? heyrðist allt í einu frá næsta borði. Þar sat Hörður Áskelsson, organisti í Hallgrímskirkju í góðum hópi og glotti.

Hjöri er annars fyrir sunnan enn eina helgina til að flytja Sögu þjóðar í Borgarleikhúsinu ásamt Eiríki Stephensen. Þeir koma fram þrisvar eða fjórum sinnum helgi eftir helgi og alltaf uppselt. Áfram halda þeir allt til jóla, búið að setja á aukasýningar en þær seljast upp líka. Nú blasir við að halda áfram á nýju ári.

Saga þjóðar er sem sagt vinsælasta leiksýningin í borginni og þar með á landinu öllu. Og hana nú.

Litlu munaði reyndar að brjósklos í baki Eiríks setti strik í reikninginn. Hann var að bogna í orðsins fyllstu merkingu og ákveðið var því að dúndra manninum á skurðarborðið á dögunum til tjöslunar og reyna að gera hann leikfæran á ný. Ein sýning féll niður vegna þessa, það var nú allt og sumt.

Nú er karlinn risinn upp teinréttur af aðgerðaborði spítalans og hamast sem aldrei fyrr á sviðinu í Borgarleikhúsinu. Það er engu logið upp á læknana okkar.

Farið endilega í leikhúsið og skemmtið ykkur með Eiríki og Hjöra ef þið hafið ekki látið verða af því nú þegar!

Tilefnið skrifanna var annars að hvetja ykkur til að kaupa Norðurslóð, sendibréfið góða að norðan. Þeim aurum er vel varið.

  • Hjöri á Tjörn er hagmæltur í betra lagi og kvæðamenn segja drenginn reyndar vera hraðhagyrðing sem geti nánast talað þindarlaust í stuðlum og höfuðstöfum. Ritstjóri Svarfdælasýsl kvaðst vilja eggja lesendur Sýslsins til áskriftar að Norðurslóð gegn því að ritstjóri Norðurslóðar setti saman stöku í þeim anda sem Sýslið ætti skilið. Eina skilyrðið var að skáldið yrði að ríma á móti orðinu „sýsli“ í vísunni.

Vísan barst í hús eldsnemma að morgni sunnudags, laglega ort eins og við mátti búast úr þessari átt. Þar með eru fjölmiðlar Dalsins kvittir.

Hann hóf sína vegferð, hálfgerður gísl
í höfðinu á Atla – óttaleg písl
og virkaði í fyrstu eins og vesælt hvísl
í veraldar argaþrasi.
En núna er vefurinn Svarfdælasýsl
svei mér þá vaxinn úr grasi.

Verðandi áskrifendur sendi Hjöra póst á norðurslod@simnet.is eða hringi í 861 8884 til að panta Norðurslóð inn um póstlúguna.

Ein athugasemd við “Fjölgum vinum Norðurslóðar!

  1. Hjörleifur – ég verð að hryggja þig með því að ég hef ákveðið að segja upp blaðinu Norðurlsóð. Ég er ekki nógu kunnug á Svarfdælskum slóðum til að njóta frásagna blaðsins, þekki aldrei nokkra manneskju sem um er fjallað, hvorki lífs né liðna.

    Bestu kveðjur, Kristín Aðalsteinsdóttir

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s