Anna frá Grund tekst á við sorgina og horfir fram á veginn

Staðlað

Anna Stefánsdóttir frá Grund í Svarfaðardal vann markvisst að því árum saman að búa sig undir að draga sig í hlé á vinnumarkaðinum og gerast heimsóknarvinur á vegum Rauða krossins í Kópavogi. Hún hefur frekar sóst eftir áskorunum af ýmsu tagi í lífinu en hitt en stóð svo skyndilega frammi fyrir langstærstu áskoruninni í júlí í fyrra þegar hún missti eiginmanninn eftir bílslys.

Við mæltum okkur mót í Kaffi Dix í Hamraborg í Kópavogi. Kvöldið áður hafði hún verið á sjónvarpsskjánum í fréttatíma RÚV að skrifa undir samning við Össur Skarphéðinsson, hún sem formaður Rauða krossins á  Íslandi og hann sem utanríkisráðherra ríkisstjórnarinnar. Anna gaf kost á sér til setu í stjórn Rauða krossins árið 2002 og lét þess getið að þá þegar hefði hún ákveðið að gerast sjálfboðaliði samtakanna í bænum sínum þegar starfsferlinum lyki.

Anna lét af störfum sem hjúkrunarforstjóri Landspítala 1. mars 2012. Yfirlýsingin um það hvað þá tæki við stendur óhögguð en henni verður ekki hrint í framkvæmd fyrr en árið 2014, því Anna var kjörin formaður Rauða krossins fyrir tveimur árum og hefur nýlega verið endurkjörin til tveggja ára.

Anna og eiginmaður hennar, Jón Pétursson eðlisfræðingur, fluttu í Kópavog fyrir 17 árum. Nokkru síðar gekk Anna í Rótarýklúbbinn Borgir, beinlínis til að kynnast Kópavogsbúum, ekki síst frumbyggjunum og afkomendum þeirra, og búa sig undir tilveruna sem sjálfboðaliði Rauða krossins, þegar þar að kæmi. Hún undirbjó sig markvisst fyrir þessa breytingu á högum sínum samfleytt í átta ár!

„Kannski er undirbúningurinn skýring á því að ég er sátt við að hafa hætt að vinna. Ég gerði ráð fyrir því að í haust settist að mér leiði yfir því að vera ekki lengur á mínum stað á Landspítala en finn ekkert fyrir því, ekki ennþá, enda með fulla orku til að gera ýmislegt sem mig langar til að gera.“

Glapræði að byggja ekki nýjan Landspítala

— Hvað langar þig helst að gera?

„Ég skuldaði sjálfri mér fræðilegt starf á mínu fagsviði í hjúkrunarstjórnun en gat ekki sinnt því fyrr en nú. Núna í haust byrjaði ég á endurmenntunarnámskeiði og ætla í vor að skila verkefni, vísindagrein í erlent fagtímarit um hvernig við höfum stuðlað markvisst að því á Landspítala að gera hjúkrunarfræðinga að öflugum fagmönnum. Ég beitti mér sérstaklega fyrir því sem hjúkrunarforstjóri að aðstoða hjúkrunarfræðinga við að afla sér meiri reynslu og þekkingar til að styrkja sig í starfi. Ástæða er til að koma því á framfæri víðar hvað við gerum, hvernig og hverju það skilar.“

— Þú hefur ekki skilið við Landspítala, þrátt fyrir vera stigin upp úr stóli yfirmanns þar á bæ?

„Ég skil aldrei við Landspítala! Mér þykir afar vænt um hann og vil veg hans sem mestan. Það væri hreint glapræði að tefja áform um nýjan Landspítala, hvað þá að stöðva þau. Ég sit í byggingarnefnd spítalans og leyfi mér að vera bjartsýn. Ég trúi því og treysti að skynsemi ráði för og nýr spítali rísi. Hinu er ekki að leyna að andstaðan í samfélaginu hefur vaxið nokkuð. Trúlega á það rætur að rekja til þess að Landspítali er í fjárhagskröggum. Fólk spyr sig hvort rétt sé að byggja nýjan spítala ef ríkið hafi ekki efni á að reka sómasamlega þann sem fyrir er. Stóri vandinn er hins vegar sá að það kostar allt of mikið að lappa upp á slitin tæki og halda úti starfsemi á ótal stöðum á höfuðborgarsvæðinu í húsum sem mörg hver eru óhentug eða jafnvel alveg ónothæf til síns brúks.

Vinnuaðstæður þurfa að vera mun betri en þær eru og það gerist ekki nema með nýbyggingum. Þegar aðstæður breytast til batnaðar gerist margt í senn.  Aðstaða sjúklinga batnar og betri aðbúnaður starfsmanna verður aðdráttarafl fyrir ungt vel menntað fagfólk,  sem starfar erlendis, að koma heim til starfa.

Á dögunum hitti ég konu sem hafði komið oft í heimsókn á spítalann og verið þar vegna eiginmanns síns, sem þurfti á sjúkrahúsmeðferð að halda. Hún talaði af reynslu: „Ég skildi ekki áður af hverju þyrfti að byggja nýjan spítala en skil það nú.“

— Þú gerðir hjúkrun að ævistarfi. Var það köllun?

„Köllun? Nei en ég skal segja þér að pabbi ráðlagði mér nokkuð sem ég aldrei gleymi. Þá var ég 14 eða 15 ára. „Hjúkrunarnám er ágætt fyrir konur. Þær geta séð fyrir sér sjálfar og haft ákveðið sjálfstæði“. Þetta sagði Stefán frá Grund alveg réttilega!

Ég fór að vinna á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri 16 ára og þar var hjúkrunarfræðingur sem hafði afgerandi áhrif á að ég ákvað að læra hjúkrun. Eftir það var ekki aftur snúið og ég hef ekki séð eftir starfsvalinu, aldrei.“

Örlagadagurinn 4. júlí

Hjónin Anna og Jón á Hornströndum sumarið 2009,  í eftirminnilegri gönguferð með fleirum úr fjölskyldu sinni.

Hjónin Anna Stefánsdóttir og Jón Pétursson lögðu upp í örlagaríka ferð til Dalvíkur í fyrrasumar, mánudaginn 4. júlí 2011, ásamt barnabarni sínu. Þau lentu í bílslysi í Víðidal, slösuðust öll og voru flutt á sjúkrahús í Reykjavík. Jón gekkst þegar í stað undir aðgerð og staðfest var að áverkar hans væru alvarlegri en svo að unnt yrði að bjarga lífi hans. Jón lést 17. júlí.

Anna og barnabarnið náðu fullri heilsu á ný en þessi atburður setti annars konar mark á líf hennar og það varanlega, eins og nærri má geta. Hún kýs að ræða um þessa skelfilegu lífsreynslu opinskátt og af einlægni.

„Satt að segja er ég upptekin við að takast á við þá áskorun að lifa lífinu án Jóns og reyna að venjast nýrri tilveru eftir að hafa haft hann mér við hlið í  meira en fjóra áratugi. Við settum upp hringana 17. júní 1967.

Þetta er erfiðara en nokkuð annað sem ég hef gert um dagana en ég ætla að komast í gegnum skaflinn, annað er ekki í boði. Við vorum mjög náin, að tala um „gott samband“ er alls ekki nógu sterkt til að lýsa því sem ég reyni hér að færa í orð.

Þegar liðið er meira en eitt ár frá því hann dó er einhvern veginn að renna upp fyrir mér fyrst núna að hann sé í raun farinn. Sá veruleiki kemur harkalega við mig, þannig er það nú bara. Ég sakna þess að hafa hann ekki til að spjalla við, segja honum hvað ég er að fást við, rifja upp fyrirlestur sem ég hlýddi á eða segja frá fólki sem ég hitti á förnum vegi. Sjálfsagt þarf ég að læra að tala meira í staðinn við fjölskylduna og vini mína, lyfta símtólinu og hringja en það verður aldrei sama samtalið og ég átti við hann. Mér finnst hann hafa verið hluti af mér.“

— Hjálpar það þér að þú hefur sjálf hjálpað mörgum öðrum á einn eða annan hátt í starfi sem hjúkrunarfræðingur?

„Ekki beinlínis en þó, ég þekki leiðirnar til að nálgast þá hjálp sem ég tel mig þurfa. Vinanetið er sterkt og fjölskyldan er afar sterk og öflug. Þeir sem þekkja mig vel vita að ég þarf mitt rými og vil stjórna því sjálf hvort, hvernig og hvenær ég tel mig þurfa aðstoð og ber mig þá eftir henni. Þetta virða þeir sem standa mér nálægt og ég er þakklát fyrir það.“

— Hvernig upplifðir þú sem hjúkrunarforstjóri Landspítala að vera allt í einu komin slösuð í sjúkrarúm á spítalanum, með undirmenn þína í starfi allt um kring?

„Staðan var sérstök en trúlega erfiðara fyrir starfsfólkið en mig, alla vega í fyrstu. Starfsfólkið á spítalanum tók vel á móti okkur og hugsaði vel um okkur, afskaplega vel. Ég rifbrotnaði og annað lungað féll saman að hluta. Við vorum flutt öll á sjúkrahúsið í Fossvogi og fljótlega kom upp að ég yrði færð á Hringbraut, þar sem lungnaskurðdeildin er. Slíkt kom alls ekki til greina af minni hálfu. Jón var á gjörgæsludeildinni í Fossvogi og ég vildi vera nálægt honum. Hjúkrunarforstjórinn fékk að ráða því!

Strax fyrsta kvöldið, eftir að Jón hafði verið í aðgerðinni, var mér tjáð að hann myndi jafnvel ekki lifa af nóttina. Ég vissi því hvert stefndi og átti erfiða nótt, náði að sofna en vaknaði og leið illa. Ég hringdi bjöllunni og inn kom ung stúlka, hjúkrunarnemi. Hún talaði við mig, tók utan um mig og sýndi mér þá hlýju og nærgætni sem ég þurfti á að halda. Við náðum góðu sambandi og töluðum saman á hverjum degi þegar hún var á vakt.

Á sjötta degi útskrifaðist ég af spítalanum, þakkaði sérstaklega stúlkunni fyrir samveruna og hlýjuna sem hún sýndi mér, hældi henni, eins og hún átti virkilega skilið, og sagði að það væri sterkt fyrir fagið að fá fólk eins og hana í hjúkrunarfræðingahópinn. Þá sagði hún: „Ég vissi ekki hver þú varst fyrstu nóttina.“  „Hefði það breytt einhverju ef þú hefðir vitað að ég væri hjúkrunarforstjóri spítalans?“ spurði ég. „Veit það ekki, kann að vera“, svaraði hún og bætti því við að deildarstjórinn hefði talað við starfsfólkið um morguninn og sagt að Anna Stefánsdóttir væri kominn inn á deildina og yrði þar næstu daga. Um Önnu ætti að hugsa eins og hvern annan sjúkling. Ég veit að þetta var ekki einfalt en við fengum afskaplega góða aðhlynningu við sérstakar aðstæður.“

Grund – Lambhagi

Stefán og Dagbjört á Grund með syni sína, Þorstein Svörfuð og Jóhannes. Myndin er líklega tekin árið 1943.

Anna er sem sagt fædd og uppalin á landnámsjörðinni í dalnum sem kenndur er við fyrsta ábúandann á Grund. Foreldrar hennar sýndu landnámsmanninum og fortíðinni þá virðingu að skíra elsta son sinn Þorstein Svörfuð. Áður höfðu Grundarhjón misst stúlkubarn, óskírt.

Grundarsystkin, sem komust á legg, eru fimm talsins. Elstur er Þorsteinn Svörfuður, fæddur 1937 og þar á eftir koma Jóhannes f. 1940, Anna f. 1947, Björn f. 1948 og Sigurlaug, Silla, f. 1952. Fjögur þau elstu eru fyrir sunnan en Silla býr á Dalvík.

Stefán Björnsson á Grund fæddist á Atlastöðum í Svarfaðardal. Dagbjört kona hans Ásgrímsdóttir var frá Haganesvík í Fljótum. Þau kynntust í vinnumennsku á Hóli í Siglufirði sumarið 1932. Vorið 1933 hófu þau búskap á Grund og bjuggu þar til 1960 eða í 27 ár. Þá lá leiðin í Lambhaga á Dalvík og þetta gamla virðulega hús er enn í eigu Grundarfólks. Lambhagi er samt nútímalegri en flest önnur hús á landi hér og á sér eigin heimasíðu á Vefnum.

„Við systkin eigum Lambhaga og erum þar oft með fjölskyldum okkar. Hvítasunnuhelgar eru fráteknar til að dytta að húsinu en þess utan förum við norður til að fara á skíði, tína ber, leika golf á Arnarholtsvelli eða bara til að gera ekki neitt! Ég á æskuvinkonu á Dalvík og hitti hana á hverju ári, Súsönnu Friðbjörnsdóttur – Dúddu frá Hóli í Svarfaðardal. Við kynntumst 9 ára gamlar og gengum saman í Húsabakkaskóla. Eftir að ég flutti til Dalvíkur var ég í tvö sumur í sveit á Hóli. Við Dúdda höfum alltaf haldið sambandi og vinskap.“

Systkinahópurinn frá Grund á góðri stundu, í veislu í gamla skátaheimilinu á Dalvík sumarið 2007 í tilefni af sjötugsafmæli Þorsteins og sextugsafmæli Önnu. Frá vinstri: Þorsteinn Svörfuður, Jóhannes, Anna, Björn og Sigurlaug.

Þessi mynd telst hiklaust til svarfdælskra menningarverðmæta! Hér er Stefán bóndi Björnsson að slá gamla túnið á Grund, trúlega norðan við íbúðarhúsið. Hægra megin má greina bæi á austurkjálkanum og Látrafjöllin. Stjarni (nær) og Rauður (fjær) draga sláttuvélina. Stefán hafði Rauð alltaf hægra megin, framan við sláttugreiðuna, því erfiðara var að draga þeim megin og Rauður var duglegri en Stjarni. Það þurfti lagni og æfingu til að stjórna sláttuvél sem tveir hestar drógu. Hestarnir urðu að vera samtaka svo vélin héldi réttri stefnu og sláttumaðurinn hafði því um nóg að hugsa í sæti sínu!

Ein athugasemd við “Anna frá Grund tekst á við sorgina og horfir fram á veginn

  1. Mjög gott viðtal við Önnu. Mér hefur oft orðið hugsað til hennar og fjölskyldunnar eftir þetta hörmulega slys. Ljósið er þó að barnabarnið lifir við fulla heilsu. – Það er rangt nafn við myndina af Grundarhjónum með synina. Þar á auðvitað að standa Stefán og Dagbjört á Grund …

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s