Rífandi gangur í bási Tehettunnar Freyju

Staðlað

Stöllurnar úr Dalvíkurbyggð, sem gera út undir nafni Tehettunar Freyju, höfðu í nógu að snúast á lokadegi Handverks og hönnunar í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Stanslaust rennerí gesta í básinn til þeirra og bissnessinn eftir því.

Sigríður Hafstað á Tjörn í Svarfaðardal og Sigurbjörg Snorradóttir á Krossum á Árskógsströnd eru sjálfmenntaðar handverkskonur sem fóru að vinna saman veturinn 1994-´95, ásamt Völvu Gísladóttur, tónmenntakennara og fjöllistakonu á Dalvík.

Valva flutti síðar til Noregs en Sigríður og Sigurbjörg héldu ótrauðar áfram. Þær eru enn að og það svo um munar, auðvitað alltaf með te- og kaffihetturnar sínar sem orðnar eru landsþekktar. Síðan hafa þær bætt við hettum yfir egg, hnetufólki í þjóðbúningum, útsaumuðum samkvæmistöskum, sjölum og fleiru og fleiru.

Í básnum í Ráðhúsinu höfðu þær til sýnis og sölu fleiri flottar vörur úr heimabyggðarhráefni, til dæmis úlnliðsbönd úr ull af Krossafé og fiskroði. Ofan af hillu horfði gínuhöfuð með húfu úr loðskinni frá minkabúinu Dalalæðu í Svarfaðardal. Og svo heiðra þær séra Solveigu Láru Guðmundsdóttur, nývígðan Hólabiskup, með því að nefna nýja litla fígúru eftir henni (þessi til vinstri á myndinni, hin fígúran hlýtur þá að vera séra Gylfi, bóndi biskups).

Augljóst var að Tehettan Freyja var meðal sýningarbása sem hvað mest aðdráttarafl hafði á gestina í dag. Sigríður gantaðist reyndar með að Sigurbjörg væri farin að stinga vörum til hliðar svo þær yrðu ekki uppiskroppa áður en kæmi að handverkssýningu í Húsasmiðjunni á Dalvík eftir fáeina daga!

Við blasir svo að Tehettan Freyja verður að taka stífa framleiðslutörn næstu vikur til að birgja sig upp fyrir jólamarkaðinn á Skeiði.

Sigríður notaði hverja mínútu sem til féll í básnum til að sauma samkvæmistösku. Kom í ljós að taskan sú er gerð samkvæmt sérpöntun annarrar handverkskonu með bás á sýningunni.

Hér er því ekkert gefið eftir og  tíminn gjörnýttur til listsköpunar og framleiðslu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s