Tveir álitlegir sveinar skráðu sig um svipað leyti á samning hjá Þóri Pálssyni, húsasmíðameistara á Dalvík, þegar vel var liðið á 20. öldina og tóku til við að læra smíðar. Enn eru þeir að trúir köllun sinni, annar fyrir norðan en hinn fyrir sunnan. Þeir ætluðu að verða snikkarar þegar þeir yrðu stórir og urðu það. Sá síðarnefndi er reyndar búinn að fara bæði út (Osló) og suður (Reykjavík) með verkfæratöskuna sína. Hinn fór verkfæralaus til Hawaii að skoða hross og staldraði stutt við.
Haukur Sigvaldason á Dalvík og Baldur Þórarinsson á Bakka byrjuðu þannig saman í smíðunum, þessu fagi sem helgiljómi umlykur í orðsins fyllstu merkingu og aldrei meira en á jólum. Þá er allt leitað að kjarna málsins í ungum palestínskum smið, Jósef, sem náði Maríu á sitt band eftir lítils háttar kelerí í Nasaret. Hún hleypti honum ekki lengra en að vanga sínum í fyrstu heldur fór út að skoða næturhimininn og varð ólétt af stjörnuskini einu saman. Ofan á allt annað var það engill sem færði Jósef smið fréttina um að þungunarprófið hefði verið jákvætt en ekki Maja sjálf. Jósef lét ósköpin samt yfir sig ganga, enda trúlega hógvær týpa eins og fagbræður hans, Haukur og Baldur. Barnið kom í heiminn og allt í einu var Jósef orðinn stjörnupabbi, með annan fótinn í fjárhúsi í Betlehem en hinn framarlega í jólaguðspjallinu um aldur og ævi. Síðan þá eru liðin vel yfir tvö þúsund ár og alltaf er verið að segja okkur söguna af fæðingu smiðssonar frá Nasaret eins og nýja. Og alltaf hlustum við á tíðindin eins og við séum að heyra þau í fyrsta sinn, helst í beinni lýsingu úr fjárhúskrónni.
Haukur og Baldur unnu við smíðar á Dalvík um hríð en árið 1980 tók Haukur sig upp og fór til Noregs. Hann fékk umsvifalaust vinnu við mótauppslátt og færði sig upp á skaftið nokkrum mánuðum síðar með því að byrja að smíða timburhús frá grunni og innréttingar í þau handa Norðmönnum að búa í. Baldur hélt sig heima á Dalvík við smíðar en fór líka að sinna hrossarækt. Síðar átti fyrir honum að liggja að verða landsfræg kvikmyndastjarna, Bakka-Baldur. Þar skákaði hann bæði Hauki og Jósef.
Haukur ákvað að láta gott heita í Noregi haustið 1982 og flytja heim á nýjan leik. Eitt af síðustu verkunum ytra var að smíða innréttingar í 30 þúsund tonna flutningaskip:
„Hvers vegna flutti ég heim? Svarið er einfalt: mig vantaði íslenskt landslag! Í Noregi er bara endalaus skógur og fjöll eða fjallgarðar gægjast upp ur honum hér og þar. Eiginlega allt eins, hvert sem litið er. Ég hef alltaf haft gaman að rölta úti í náttúrunni og líta í kringum mig. Kannski að upphafið að því sé samveran með Böggvistaðabræðrunum Bonga og Gaua í kindastússi á Dalvík á æskuárunum. Ég fór í fjárhúsin með þeim og gekk líka til fjalls að reka fé. Þá horfðum við yfir Dalvíkina og fjörðinn. Útsýnið og víðáttuna vantar í Noregi, þess vegna kom ég heim.“
Eftir heimkomuna smíðaði Haukur timburhús í Strandasýslu og innréttingar í það að norskum stíl. Hann gat alveg hugsað sér að koma upp fleiri timburhúsum yfir Íslendinga en áhuga þeirra vantaði. Þá sneri Haukur sér að sérhæfðri innréttingasmíði sem hann hafði gert talsvert af í Noregi. Saman fóru þá einingar úr tré og járni og síðan mátti raða þeim saman á ýmsa vegu þannig að úr urðu afgreiðsluborð eða hillusamstæður í verslunum.
Í fyrstu starfaði Haukur á smíðaverkstæði sem hann rak ásamt Lofti bróður sínum við Suðurlandsbraut undir heitinu Forma. Síðar lá leiðin í Ísold ehf. í Reykjavík, þar sem aðallega eru framleiddar verslunarinnréttingar og hillukerfi.
„Ég vann við það samfleytt í 25 ár að smíða innréttingar fyrir verslanir og komst að því 1989 að ég hefði framleitt 400 afgreiðsluborð um dagana. Þá hætti ég að telja. Mörg afgreiðsluborðin í búðum hér eru gamlir kunningjar, enn þann dag í dag. Fari ég í Kolaportið er ekki þverfótað fyrir borðum sem ég smíðaði. Flest þeirra gæti ég ávarpað með nafni! Innréttingasmíðin er hálfgerð færibandavinna og árið 1997 fékk ég nóg. Þá ákvað ég að liðka hendurnar og fara aftur í handverkið.“
Haukur vinnur í JP innréttingum i Kópavogi og var núna í vikunni önnum kafinn við að spónleggja og hvítlakka hurðir í nýtt hús sem augljóslega tilheyrir ekki verkamannabústaðakerfinu. Allar innréttingar sérsmíðaðar, bæði smátt og stórt. Glæsilegt handverk. Þrír karlar saman á verkstæði, Haukur unglingurinn í hópnum. Útvarpið stillt á Rás eitt. Lykt af nýsöguðum viði, lími og lakki í bland.
Þegar Haukur er ekki með smíðasvuntuna á verkstæðinu í Kópavogi er líklegra en ekki að hitta megi á hann röltandi með myndavél einhvers staðar utan dyra. Hann myndaði talsvert sem strákur. Sú della fjaraði út en tók sig upp aftur með trukki á hrunarinu 2007 með þeim árangri sem við verðum meðal annars vitni að á Fésbókarsíðu Svarfdælinga syðra. Hann sér til dæmis um að við höfum Dalinn eina stöðugt skýran á tölvuskjánum og í kollinum með unaðslegum Svarfaðardalsmyndum sínum.
Haukur á sinn þátt í því að mynda upphaflega stækkandi kjarna Svardælinga sem fór að hittast á knæpu í Kópavogi í fyrra en flutti sig síðar á Loka á Skólavörðustíg. Hann er iðinn gestur á bjórkvöldum Svarfdælinga en lætur bjórinn alveg eiga sig. Tappi var settur í flöskuna fyrir fullt og allt fyrir tveimur áratugum eða nákvæmlega 11. maí 1992. Þessi dagur, 11. maí, var áratugum saman skráður lokadagur vetrarvertíðar á almanakinu og varð sem sagt líka lokadagur hjá Hauki, sem átti vel við. Hann segist þarna hafa verið eigin gæfu smiður.
Haukur varð að láta duga að hlýða á Sigurð Braga Ólafsson, bruggara Kalda á Árskógsströnd, lýsa gæðum framleiðslu sinnar á fyrstu samkomu Svarfdælinga á þessu hausti en neita sér um að smakka. Hann spurði Sigurð Braga hins vegar hvort Kaldafólk gæti ekki hugsað sér að framleiða bjór sem óvirkir alkar gætu drukkið. Þá varð bruggarinn kjaftstopp í eina skiptið á samkomunni. Haukur snikkari glotti hins vegar og ábyggilega líka Jósef snikkari á himnum uppi.
Sýnishorn af ljósmyndum Hauks Sigvalda: