Ketsúpudagur með svarfdælsku ívafi

Staðlað

Snapsverjar yfir ketsúpupottum: Hrafnhildur og Bjarni á Völlum í miðið, sonur þeirra, Sigurgísli, og tengdadóttirin, Sandra.

Hrafnhildur og Bjarni, eigendur Valla í Svarfaðardal &  Nings, jusu ketsúpu í plastdollu og réttu að niðurrigndum vegfarendum ofarlega á Skólavörðustíg í dag. Þau stóðu í skýli sem merkt var Snaps en þar var engan snaps að fá, fara súpu.

Vissi það reyndar ekki fyrr en þá að sonur þeirra, Sigurgísli, og tengdadóttirin, Sandra Hauksdóttir, sem stóðu líka súpuvaktina, væru aðaleigendur þessa nýlega og vinsæla veitingastaðar við Óðinstorg. Hef reyndar gert heiðarlega tilraun til að borða einu sinni á Snaps á laugardagskveldi en þá var allt troðfullt og biðröð út á götu. Mun styttri röð var við súpupott Snapsverja í dag og súpan sérlega fín með miklu gumsi, kjöti bæði og grænmeti.

Undir vegg Hegningarhússins vaktaði Úlfar, yfirfrakki á Þremur frökkum, kokkana sína sem líka voru að gefa súpu. Úlfar er fastagestur á Fiskideginum mikla á Dalvík. Ég var því góðum félagsskap og þáði  auðvitað í líka dollu á tukthúshlaðinu. Afskaplega góð súpa en lítið sem ekkert gums í henni. Þar hafði Vallabóndinn betur.

Í grennd við Snapsverja spilaði kona á harmoníku en í tjaldi við hlið Þriggja frakka  spilaði heil rokkhljómsveit. Meiriháttar band. Stelpur á hljómborðum en strákar á gítar og bassa. Ekki leiðinlegt fyrir tukthúslimina að kúra handan við rimlana og fá slíkar tónatrakteríngar beint í æð og hlustir.

Gámar stóðu á götunni til að taka við flöskum og dósum til stuðnings bændum á Norðurlandi, sem misstu sauðfé í septemberhretinu. Sýndist sá hluti samkomunnar vera hálfgert flopp. Lítið var að minnsta kosti af drykkjarumbúðum í gámnum. Það þarf sjálfsagt talsvert til að menn drösli dósum og flöskum með sér í poka niður í miðborg. Fallega hugsað engu að síður.

Gott framtak annars þetta með ketsúpuna. Fyrir það má þakka bændum sem gáfu ket og grænmeti og kokkum fyrir að elda og ausa.

Bjarni á Völlum sagðist ætla að stofna til ketsúpudags Svarfdælinga. Þá er ljóst að af því verður. Bjarni hugsar margt og mikið en hann framkvæmir víst líka flest sem honum dettur í hug.

Fiskidagurinn mikli og Stóri ketsúpudagurinn. Hljómar ágætlega og smakkast enn betur.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s