Svarfdælasýslið rumskar nú eftir að hafa legið í dvala í sumar. Það var meðvitaður svefn. Á meðan Svarfdælasýslið lá í híði sínu spriklaði systursíðan, Víkingssýsl, á Vefnum.Víkingssýslið var upphaflega stofnað til að flytja foreldrum og öðrum aðstandendum fótboltastráka í 3. flokki Víkings fréttir frá Serbíu í júnímánuði. Ritstjóri síðunnar fylgdi Víkingum til Serbíu og skráði það sem fyrir augu og eyru bar handa þeim er heima sátu.
Víkingssýslið hóf þar með flug sem varði allt til loka keppnistímabilsins, enda engin leið að hætta, eins og Valgeir Stuðmaður syngur réttilega. Það var líka um margt að skrafa því strákunum gekk mjög vel í fótboltanum. Þeir urðu Reykjavíkurmeistarar og síðan ReyCup-meistarar eftir að hafa lagt Keflvíkinga í æsandi úrslitaleik á sjálfum Laugardalsvelli.
Víkingarnir gengu hins vegar á Garðabæjarvegg í úrslitaleikjum Íslandsmótsins og bikarkeppninnar á haustdögum og töpuðu fyrir Stjörnunni í tvígang. Breytir ekki því að uppskera þeirra var fín í heildina.
- Alls voru skrifaðar liðlega 60 fréttir á Víkingssýslið í sumar og birtar bæði ljósmyndir og myndbandsupptökur af leikjum og lífinu utan vallar. Heimsóknir á síðuna eru komnar vel yfir 60.000 en nú leggst hún í vetrardvala, í það minnsta.
Hugsanlegt er að Víkingssýslið rumski á ný að vori og fylgist þá með 2. flokki Víkings á næstu sparktíð. Strákarnir úr 3. flokki eru nú komnir upp í 2. flokk og þar á meðal er yngri sonur Álftalandsheimilisins, varnarjaxl af svarfdælsku bergi brotinn.