Lokasöfnuður Svarfdælinga stúderaði Kaldafræði

Staðlað

Svarfdælingar á suðurhjaranum hittust á fyrstu spjallsamkomu vetrarins á Skólavörðuholti í gærkvöld, auðvitað á Loka, sem orðinn er óformlegt safnaðarheimili þjóðarbrotsins að norðan á höfuðborgarsvæðinu. Þar er ekki í kot vísað því vertarnir, Hrönn og Þórólfur, hafa gert Loka að veitingahúsi sem hver útlenskur fjölmiðill á fætur öðrum hefur upp til skýja og segir að Íslandsheimsókn án málsverðar á Loka sé eiginlega engin Íslandsheimsókn í raun.

Ekki var nú fullt hús í Loka í þetta sinn en eftir því góðmennt. Svarfdælir á suðurhjara ættu hins vegar að fylgjast með næstu skrefum í þessum efnum. Í loftinu liggur nefnilega samkoma í nóvember þar sem meiningin er að sýna gamlar myndir að norðan á vegg. Menn minnast enn kvöldstundarinnar á Loka þegar Júlli Jónasar mætti með myndir frá karli föður sínum á bílaverkstæðinu, þeim mikla og stórmerkilega menningarsjóði. Þá var setið tímunum saman og stúderuð andlit, klæðaburður, hárgreiðsla, hús og hýbýli, bílar og dráttarvélar, umhverfi og margt margt fleira úr byggðarlaginu í den tíð. Auðvitað er sjálfgefið að Júlli komi með hnefafylli úr sjóðnum til að sýna en fleiri luma á myndum sem við fáum vonandi að sjá í vetur.

Myndasýning var ekki á dagskrá í Loka í gærkvöld, heldur mætti sérstakur heiðursgestur á svæðið, Sigurður Bragi Ólafsson, bruggari í Kaldaverksmiðjuni á Árskógsströnd og sonur hjónanna Agnesar og Ólafs Þrastar, sem stofnuðu félagið á sínum tíma. Hann flutti skemmtilega tölu um fjölskyldufyrirtækið, lygilega hraðan og mikinn vöxt þess og vinsældir bjórsins.

Nýjasta afurðin, Október-Kaldi, er enn ein rós í hnappagatið fjölskyldunnar og vann til gullverðlauna á bjórhátíð á Hólum í Hjaltadal núna í haust. Bruggmeistarinn ungi, Sigurður Bragi, er höfundur uppskrifarinnar að Október-Kalda og ekki annað hægt að segja en drengur byrji með stæl. Gestir á Hólum kunnu gott að meta því vissulega er Kaldi klassavara svona hvunndags en Október-Kaldi er unaðslegur drykkur sem framkallar sælustrauma, svo á jörðu sem á himni. Ekkert minna en það.

Lokasöfnuðurinn fékk að bragða á ýmsum tegundum Kalda og bruggmeistarinn fjölgaði auðheyrilega í vinasöfnuði bruggsmiðjunnar sinnar þessa kvöldstund. Mestu máli skipti samt að Sigurður Bragi kom vel fyrir og hafði frá mörgu forvitnilegu að segja.

Ströndungar eru því áfram í sókn og raða inn mörkum. Rifjast nú upp þegar gengið var til atkvæða um sameiningu Árskógsstrandarhrepps, Dalvíkurbæjar og Svarfaðardalshrepps í eitt sveitarfélag forðum tíð. Þá mætti sameiningin nokkurri andstöðu á Dalvík og á borgarafundi  þar nefndu andstæðingarnir nefndu einkum kostnað sem skattgreiðendur bæjarins yrðu að bera til að koma heitu vatni í krana Ströndunga. Svo var sameiningin samþykkt og fáeinum vikum síðar boruðu Ströndungar sig niður í heitavatnslind og úr henni rennur nú heitt vatn úr krönum Dalvíkinga.

Ekki nóg með það, Ströndungar boruðu meira og upp kom Kaldi. Hann rennur úr krönum um allt land. Það á eftir að finnast líka bæði olía og gull í jörðu á Árskógsströnd. Það var lán að Dalvíkingar kusu forðum að hafa Ströndunga frekar með sér en á móti.

Sá sem öllu ræður þarna uppi ætti í alvöru að sameina himnaríki og Dalvíkurbyggð í eitt sveitarfélag til að íbúar himinhæða séu örugglega með á nótunum. Í Dalvíkurbyggð gerast nefnilega hlutirnir, ekki síst á Árskógsströnd.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s