Unna Maja: „Hlýjar hugsanir hjálpa“

Staðlað

Unna Maja með tölvuna góðu heima hjá sér fyrir hvítasunnuhelgina. Rögnvaldur Már Helgason tók hús á henni og tók meðfylgjandi myndir.

Frænkur Unnar Maríu Hjálmarsdóttur á höfuðborgarsvæðinu blása til lokasóknar í fjársöfnun sem þær hófu í lok aprílmánaðar henni til stuðnings í glímunni við illviðráðanlegt krabbamein. Sigrún K. Óskars, Halla Jónasar og Inga Snorra fóru upphaflega af stað innan Jónshúsættarinnar á Dalvík til að safna fyrir fínni fartölvu og öllu tilheyrandi handa Unnu Maju og ákváðu síðan að gefa fleirum kost á þvi að sýna hug sinn í verki með því að gefa í söfnunina.

Söfnunarpeningarnir verða víst seint verkefnalausir. Unna Maja hefur til dæmis þurft að borga drjúgan skilding fyrir lyf, blóðprufur og fleira. Eins og það sé nú ekki nægur handleggur og rúmlega það að glíma við sjálfan sjúkdóminn!

Unna Maja fékk tölvuna afhenta í apríllok og notar græjuna mikið. Nú skrifast hún á við sitt fólk og tekur á móti vina- og baráttukveðjum í stríðum straumum á Fésbók eða í tölvupóstum.

Að gantast með dauðans alvöru

„Kveðjur úr öllum áttum hjálpa. Eitt einasta „læk“ á Fésbókinni hlýjar mér til dæmis mikið!“ sagði Unna Maja í símtali heiman frá sér á Akureyri fyrir hvítasunnuhelgina. Hún er opinská um veikindin og stöðu mála en það er stutt í húmorinn. Hvernig í veröldinni er hægt að gantast með illvígan sjúkdóm og dauðans alvöru?

Mín leið til að gera lífið bærilegt er að grínast dálítið á kostnað veikindanna! Ég breiði samt hvorki yfir það gagnvart sjálfri mér né öðrum að staðan er erfið. Ég greindist í apríl með krabbamein í brisi og skeifugörn. Meinvörp eru í lifur. Sjúkdómurinn er á fjórða stigi af fjórum mögulegum og ekki blasir annað við en að berjast með þeim ráðum sem læknavísindin ráða yfir og í krafti orkunar sem ég fæ frá öllum þeim sem hugsa hlýtt til mín nær og fjær.

Ég klökknaði þegar ég fékk í hendur fartölvuna frá þeim sem gáfu í söfnunina og aftur þegar Maja Snorra kom frá Dalvík með borð úr plexígleri til ég gæti haft tölvuna á því í rúminu. Ég klökkna líka oft þegar ég les kveðjur og fésbókarfærslur. Umhyggjan og væntumþykjan streymir til mín og skiptir meira máli en auðvelt er að lýsa með orðum.

Í apríl var ég í geislameðferð á Landspítala og hefur svo verið í stífri lyfjameðferð á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Starfsfólk spítalanna er einstaklega notalegt og nærgætið. Trúlega fer ég aftur suður í sumar í aðra geislameðferð; kemur í ljós. Svo getur vel verið að ég drífi mig suður til að hitta mitt fólk og sýna mig og sjá aðra. Spái í það ef ég verð nógu hress að loknum næsta lyfjaumgangi.

Áður en ég veiktist var ég í mikilli og dýrri tannaðgerð; fannst ég þurfa að flikka aðeins upp á kerlinguna áður en hún yrði sextug! Um daginn datt upp úr mér að ekki kæmi til greina að fara fyrir hornið strax eftir svona útgjaldaævintýri. Lágmark væri að lifa í 20 ár í viðbót til að láta fjárfestinguna borga sig. Þetta kann að þykja „svartur húmor“ en svona er ég bara!

Æðruleysi til umhugsunar og eftirbreytni

Unna Maja er Dalvíkingur að uppruna og býr á Akureyri, starfsmaður á sambýli fatlaðra þar. Frænkur hennar þrjár benda á í tilkynningu, sem þær sendu frá sér vegna söfnunarinnar, að æðruleysi hennar sé ótrúlegt og eigi að vera okkur öllum til umhugsunar og eftirbreytni.

Söfnunin ber yfirskriftina Baráttukveðjur til Unnu Maju. Sérstakur reikningur var opnaður í Sparisjóði Svarfdæla og Sigurlaug Stefánsdóttir, forstöðumaður Bókasafns Dalvíkur, gerðist trúnaðarmaður söfnunarinnar. Söfnunarreikningurinn er á kennitölu hennar og hún ein hefur aðgang að honum. Að söfnun lokinni verða peningarnir afhentir Unnu Maju, reikningnum lokað og gögnum eytt.

  • Baráttukveðjur til Unnu Maju: 1177-15-200602, kt. 070552-4189.

Rífandi gestagangur á Svarfdælasýsli

Frásögn af veikindum Unnu Maju og söfnuninni henni til stuðnings birtist fyrst hér á heimasíðunni Svarfdælasýsli að kvöldi 30. apríl. Viðbrögðin voru lyginni líkust. Fréttin fór um Vefinn á eldingarhraða. Strax fyrsta kvöldið fékk heimasíðan yfir 500 heimsóknir vegna þessarar fréttar, á verkalýðsdaginn 1. maí urðu heimsóknirnar alls 2.969 og 2. maí vel á sjötta hundraðið. Með öðrum orðum alls á fimmta þúsund heimsóknir á rúmlega tveimur sólarhringum!

Allan maímánuð hefur síðan verið stöðugur gestagangur á Svarfdælasýsli í tilefni fréttarinnar um Unnu Maju: allt frá nokkrum tugum heimsókna upp í yfir 500 heimsóknir á sólarhring. Ekkert sem skrifað hefur verið á þessa heimasíðu hefur fengið viðbrögð í líkingu við þetta. Og það ber líka að nefna að heimsóknirnar 1. maí voru úr mörgum heimshornum eða frá alls átján löndum í þremur heimsálfum! Það sína sögu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s