Tilberi með svarfdælskar rætur

Staðlað

Diskurinn Exorcise með hljómsveitinni Tilbury er fjári góður. Hann hefur snúist á heimafóninum í stofunni og í bílnum líka, aftur og aftur, og batnar bara við síhlustun. Fyrsta lagið, Tenderloin, er talsvert spilað á útvarpsstöðvunum en þau eru fleiri sterk á diskinum.

Svarfdælasýsl er ekki rokkmiðill en lætur sér fátt óviðkomandi þegar halda þarf til haga svarfdælskum rótum og tilvísunum – líkt og þeim sem blasa hér við. Þær eru fleiri en ein og fleiri en tvær:

  1. Þormóður Dagsson, stofnandi og leiðtogi Tilbury, er skráður fyrir öllum lögum á diskinum nema einu og öllum textum. Hann er sonur Imbu Hjartardóttur frá Tjörn.
  2. Höfundur eina lagsins sem Þormóður samdi ekki er Örn Eldjárn, gítaristi í Tilbury og sonur Kristjönu Arngríms og Kristjáns E. Hjartarsonar á Tjörn.
  3. Teikningar á umslagi disksins eru eftir Hugleik Dagsson, bróður Þormóðs, og bera þetta magnaða höfundareinkenni hans sem þekkist um víða veröld.
  4. Nafnið á hljómsveitinni, Tilbury, er sótt í samnefnda smásögu sem Þórarinn Eldjárn rithöfundur í Gullbringu skrifaði og gaf út fyrir þónokkrum árum. Hann lék sér að orðum og menningararfinum með því að leiða frásögn af Tilbury, ofursta í breska hernum, út í sögu um tilbera. Kvikindið tilberi var samkvæmt íslenskri þjóðtrú fyrirbæri með kjaft á báðum endum, notað til að sjúga mjólkandi ær og kýr með leynd á næstu bæjum og færa húsmóðurinni sem gerði þá út. Eðli máls samkvæmt getur ekki verið að tilberar hafi verið húsdýr á nokkrum einasta bæ i Svarfaðardal. Þeir hljóta að hafa þrifist í öðrum héruðum.
  5. Enn eina svarfdælska tengingu má nefna og hún er Soffía Björg Óðinsdóttir sem syngur með í laginu Filet Mignon. Þau Örn frá Tjörn eru par og bæði í hljómsveitinni Brother Grass. Í þeirri sveit er líka Ösp Eldjárn frá Tjörn. Brother Grass gaf út fínan disk á síðasta ári.
  6. (Ábending frá Þórarni Eldjárn 21. júní 2012 um svarfdælska tengingu til viðbótar):  Höfundur kvikmyndarinnar Tilbury (eftir samnefndri sögu Þórarins) er Viðar Víkingsson Heiðars Arnórssonar frá Upsum.

Tilbury og Brother Grass á fartinni í sumar

Örn Eldjárn á Fiskidagssviðinu við Dalvíkurhöfn 2011.

Örn Eldjárn segir að diskurinn Exorcise hafi byrjað sem sólóverkefni Þormóðs en svo hafi frændinn kallað sig til verka. Síðar bættist Kristinn Evertsson við á píanó/ synthesizer og loks Guðmundur Óskar Guðmundsson á bassa og Magnús T. Eliassen á trommur.

Þar með var áhöfnin á Tilbury fullskipuð. Efnið á diskinum var hálft annað ár í vinnslu; drengirnir tóku sér þann tíma sem þurfti til að gera þetta almennilega og árangurinn er eftir því.

„Við ætlum að spila víða um land í sumar, meðal annars veit ég að til stendur að koma fram á Græna hattinum á Akureyri en ég get ekki sagt hvenær það gerist,“ segir Örn. Hann hefur auðheyrilega ekkert á móti því að komast enn nær svarfdælskum rótum bandsins og kýla á Rimar. Ja, því ekki það?

Svo er það Brother Grass. Sú sveit fer líka á fartina í sumar þegar Ösp kemur heim úr söngnáminu frá Lundúnum.  Ráðgert er að Brother Grass flakki um landið í þrjár vikur eða svo.

Gæðapopp

Tónlistin frá Tilbury er grípandi, áheyrileg og flott. Hún er ekki „íslensk“ á að hlýða heldur væri til dæmis auðvelt að „selja“ Bretum að þar væru landar þeirra á ferð. Þroskað band, enginn byrjendabragur af neinu tagi.

Sjálfsagt er það fremur tilviljun en raunveruleg áhrif en Tilbury minnir hér og þar á ELO, Electric Light Orchestra, sem stofnuð var í Birmingham árið 1970 og starfaði til 1986 eða þar um bil. Ekki leiðum að líkjast þar …

Tilbury minnir líka stundum á Traveling Wilburys sem gaf út plötur 1988-1990, sem er rökrétt því stutt er á milli TW og ELO. Jeff Lynne, höfðinginn í ELO, stofnaði Traveling Wilburys með sjálfum George Harrison og fleiri góðum mönnum og flutti með sér þangað margt gott úr ELO.

Það er hreint ekki slakt að hafa nú fengið alþjóðlegt band með svarfdælskar tilberarætur sem yljar meðal annars öldruðum aðdáanda ELO og Traveling Wilburys.

Diskurinn með Tilbury er hverrar krónu virði.

Brother Grass á fullu gasi á sviðinu í Kaffi Rósenberg sumarið 2011. Frá vinstri: Soffía Björg, Sandra, Ösp, Hildur (bograr yfir hljóðfæri sem gæti verið þvottabali, þvottabretti eða ?!) og Örn.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s