Kunnuglegt andlit konu á vorkaffi Svarfdælingafélagsins á Kaffi Loka á dögunum. Með henni var Stella frá Hæringsstöðum, enginn vafi. Sú kunnuglega reyndist vera Gréta á Bakka. Stella og Gréta eru jafnaldra, fæddar lýðveldisárið 1944, gengu saman í Húsabakkaskóla og fermdust á Urðum 1958. Þær höfðu ekki hist áratugum saman þegar granni Grétu, kona ein í Svínadal, minntist á Stellu. Þær höfðu verið saman í húsmæðraskólanum á Löngumýri í Skagafirði og héldu sambandi. Í framhaldinu náðu þær saman á ný, Gréta og Stella, og mættu í vorkaffi Svarfdælinga!
Nú segir Gréta að næst á dagskrá sé að grafa upp hvar Gréta á Sandá sé niður komin. Hún er jafnaldri og fermingarsystir Grétu og Stellu. Bæði Bakka-Gréta og Sandár-Gréta heita fullu nafni Anna Gréta. Önnunafnið hefur í hvorugu tilvikinu verið brúkað og á Húsabakka voru bæjarnöfnin Bakki og Sandá notuð til aðgreiningar.
Anna Gréta Þorbergsdóttir er fæddur Ólafsfirðingur. Fjölskyldan flosnaði upp í kjölfar skilnaðar foreldranna árið 1949. Þremur barnanna var komið fyrir í Skagafirði, í Fljótum og á Kvíabekk í Ólafsfirði. Ein systirin, Guðlaug, fór til Laugu og Klemensar í Brekku í Svarfaðardal og þaðan til Önnu Arngríms og Kristjáns hreppsstjóra á Dalvík. Önnur systir, Gréta, fór til Engilráðar og Þórs á Bakka. Þar var hún til 16 ára aldurs, fór þá suður árið 1960 og bjó fyrst hjá Evu Þórsdóttur frá Bakka og Daníel.
Gréta segir að þau systkinin frá Ólafsfirði hafi ekki haldið sambandi hefur að þau fóru hvert í sína áttina heldur kynnst að nýju sem fullorðið fólk og tekið upp samband.
Gréta eignaðist dóttur 17 ára gömul. Móðirin unga fór austur í Flóa til að vinna þar á sveitabæ og Eva frá Bakka annaðist stúlkubarnið á meðan. Síðar fóru þær mæðgur í sveit í Borgarfirði og þar náði Gréta sér í mann sem hún á enn, Magnús Ólafsson. Sá er fæddur og uppalinn á Efra-Skarði í Svínadal. Gréta og Magnús bjuggu þar lengi en hafa nú selt jörðina og búa í Melahverfinu í grennd við Grundartanga.
Gréta á Bakka á góðar minningar frá Bakka og úr Svarfaðardal og segist verða að komast norður helst á hverju ári til að hlúa að rótum sínum þar. Þeim sem hún þekkti best í Bakkafjölskyldunni hefur fækkað eins og gengur. Þannig eru nú öll eldri systkinin frá Bakka látin, Villi var síðastur þeirra til að kveðja snemma í vor og þar áður Eva systir hans fyrir jól í vetur. Gréta er í ágætu sambandi við dætur Stínu og Tóta á Bakka, einkum Halldóru Lilju, sem reyndar gætti barna Grétu um skeið. Hún heldur líka sambandi við Gauju og Ásrúnu, dætur Helgu og Ingva á Bakka.
Og svo verður að halda því til haga í lokin að Gréta á Bakka var stundum á Jarðbrú hjá Jónsa og Rannveigu, systur Engilráðar á Bakka. Hún rifjar upp að þegar ófærð var og veður vont fékk hún að stundum að gista á Jarðbrú og hafði þann áningarstað nær Húsabakkaskóla en Bakki var.
Önnur Jarðbrúartenging. Snemma á búskaparárum Ingibjargar og Halldórs útvegaði Rósa tvíburasystur sinni sumarmann til starfa í heyskap og öðrum verkum. Rósa bjó í Keflavík og sendi norður Keflvíkinginn Kristinn Björnsson. Hann var á Jarðbrú eitt sumar. Síðar kvæntist hann dóttur Grétu á Bakka en leiðir þeirra skildu. Sumarmaðurinn á Jarðbrú býr núna á Akranesi.