Lífeindafræðingur gerðist gistihússrekandi

Staðlað

Arna í svítunni, stærsta leiguherberginu í Áskoti. Hér væsir ekki um gesti!

Örnu í Lundi dreymdi árum saman um að reka gistihús. Draumurinn rættist seint og um síðir en Arna fór reyndar ýmsar óvenjulegar krókaleiðir að markinu. Hún lærði meinatækni, fag sem nú heitir lífeindafræði, vann sem lífeindafræðingur í mörg ár á Landspítala og síðar í Íslenskri erfðagreiningu. Svo gerðist hún um hríð sölumaður hjá fyrirtækinu Inter og sankaði að því kaupendum að hjartastuðtækjum og fleiri græjum.

Það þarf að vísu ekki að sanka að sér allri þessari lífsreynslu og þekkingu til að selja gistingu og morgunmat en svona lá samt leið Dalvíkingsins Örnu Auðar Antonsdóttur heim á hlað gistiheimilisins Áskots að Ásvallagötu 52 í Reykjavík. Þar hefur hún verið hótelhaldari frá 2006 en er jafnframt í hálfu starfi sem formaður Félags lífendafræðinga, eins af aðildarfélögum Bandalags háskólamanna. Það þýðir að hún er í reynd samtals í hálfu öðru starfi  eða svo, sem er íslenski stællinn á hlutunum.

Arna rekur gistiheimilið sitt í tveggja hæða timburhúsi á steyptum kjallara. Hún leigir út þrjú herbergi á efri hæð og eitt á þeirri neðri. Heimilisfólkið deilir eldhúsi með leigjendunum og þekkir ekki annað en hitta fyrir gesti, sem tala tungum, við ísskápinn á morgnana.

Rauða gistiheimilið við Ásvallagötu.

Sjálf býr Arna í kjallaranum og sömuleiðis sonur hennar Jóhann,  tengdadóttirin Ingigerður Sólveig og svo fósturdóttur Örnu, Veronica Piazza frá Ítalíu. Veronica kom hingað til lands sem skiptinemi fyrir nokkrum árum og er hér enn. Hún er á öðru ári í jarðfræði í Háskóla Íslands og komst í fréttir á sínum tíma fyrir að dúxa í íslensku í Ármúlaskóla eftir að hafa búið einn vetur á Íslandi! Þá fóru víst sumir landar vorir hjá sér og aðrir roðnuðu upp í hársrætur …

Þáverandi bóndi Örnu sagði svo frá að hún hefði tekið sér frí frá vinnu dag nokkurn árið 2005, farið út að ganga og keypt gistihús. Nokkuð er til í því. Leiðir þeirra skildu fáeinum árum síðar og Arna ákvað þá að taka alveg við húsinu og rekstrinum.

Þetta gengur bara þokkalega vel hjá mér en rekstrarumsvifin eru ekki nægilega mikil til að ég geti lifað á þeim eingöngu. Hér geta gist 9-10 manns í einu. Á veturna leigi ég erlendum stúdentum í Háskóla Íslands, á sumrin eru hér ferðamenn í gistingu og morgunmat, mest Frakkar og Danir en margir Þjóðverjar líka.

Áskot auglýsir hvergi en kynnir þjónustuna á heimasíðum á Vefnum. Reyndar fáum við líka gesti sem hafa fengið ábendingu um Áskot eða að einhverjir hafa mælt með gistingunni við þá. Maður þekkir mann og allt það … orðsporið er besta auglýsingin og kostar ekkert!

Við erum vel í sveit sett, stutt í Háskólann og stutt í miðbæinn. Mörgum kemur á óvart hve friðsælt er hér þrátt fyrir að miklar umferðaræðar séu ekki langt undan.

Húsið hennar Örnu er sérlega tignarlegt og glæsilegt á stórri lóð. Það er knallrautt á litinn, áberandi sem slíkt í götumyndinni og hefur efni á því að láta taka eftir sér. Þarna bjó um hríð Pétur Einarsson, fyrrverandi flugmálastjóri. Rauði liturinn er frá hans tíð og hann ku sjálfur hafa málað bæinn rauðan af og til.

Húsið var upprunalega flutt inn í einingum frá Svíþjóð og reist árið 1934. Húsbyggjandinn og frumbýlingurinn var Guðbrandur Magnússon, fyrsti ritstjóri framsóknarblaðsins Tímans og síðar forstjóri Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins frá 1928 til 1937.

Ekkert minnir út af fyrir sig á að ÁTVR-forstjóri hafi búið þarna í nær þrjá áratugi. Arna hefur t.d. hvergi rekist á forna bokku á afviknum stað í húsinu, sem út af fyrir sig er skiljanlegt. Flugmálastjórinn og aðrir fyrrum húseigendur leituðu ábyggilega af sér allan grun í þeim efnum.

Arna og tíkin Dimma í vorsólinni úti í garði.

Arna þarf ekki langt að fara til að heilsa upp á dætur sínar, Ástu Brynju og Sigurlaugu Maríu. Þær búa einungis í örskotsfjarlægð frá mútter. Bráðlega flýgur Jóhann sonur líka úr hreiðrinu ásamt kærustunni. Þau eru bæði á fjórða ári í læknisfræði, líta varla upp úr námsbókum í stífum próflestri nú á vordögum en hyggjast flytjast búferlum alla leið að Snorrabraut í sumar og hefja þar búskap.  Í huga móðurinnar jafnast það á við að fara til Grindavíkur eða upp í Borgarnes að setjast að við Snorrabraut, svona miðað við búsetu dætranna.

Eftir sitja þá drottningar þrjár í Áskotsríkinu rauða: Arna í Lundi, Veronica frá Ítalíu og tíkin Dimma.

Lauga í Lundi og sunnanbörnin hennar þrjú: Arna Auður, Anna Dóra og Þórólfur. Myndin var tekin á bjórkvöldi Svarfdælinga á Kaffi Loka í marsmánuði þegar Anna Dóra kynnti nýutkomna skáldsögu sína, Hafgolufólk.

Ein athugasemd við “Lífeindafræðingur gerðist gistihússrekandi

  1. Mikið er gaman að lesa á síðunni þinni Haukur–frábær skrif og fróðlegt. Bestu kveðjur Anna Ara

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s