… og hann er oftast að finna í Salnum, því magnaða tónlistarhúsi í Kópavogsbæ. Júlíus Jónasson er titlaður tæknistjóri og fóstrar sem slíkur tól og tæki fyrir hljóð, ljós og upptökur á vettvangi. Stýrigræjunum er þannig fyrir komið að hann geti samtímis verið í hlutverkum hljóðmanns og ljósamanns á tónleikum. Að geta sameinað slík embætti svo vel fari er fáum gefið en Júlli er ekkert venjulegur og hefur aldrei verið.
Þegar saman fer í einum manni náðargáfa í tónlist og náðargáfa til skilnings á innvolsi í vélum og tækjum af öllu tagi eru rekendur Salarins í góðum málum. Júlli er reyndar liðtækur líka að skúra gólf og rífa flipa af aðgöngumiðum þegar svo ber undir því þarna eru einungis fjórir starfsmenn og verða að ganga í flest störf. Nema hvað enginn hinna hættir sér í takkana á ljósa- og hljóðblöndunarborðunum hans Júlla.
Innlendir og erlendir gullbarkar í Salnum
Margir gullbarkar gefa frá sér hljóð á sviði Salarins. Sumir eru heimskunnir og vilja helst koma aftur og aftur til að syngja fyrir 300 manns í fullsetnu húsi í Kópavogi. Þessum frægu flytjendum, sem margir hverjir líta ekki við því að syngja fyrir minna públikum en 6-10 þúsund manns í einu í útlandinu, finnst Salurinn einfaldlega gott sönghús og bera hróður hans vítt um veröld.
Kanadíska sópransöngkonan Mary Lou Fallis er gott dæmi. Sú er á sjötugs aldri, ferðast enn heimshorna á milli, hefur komið í þrígang til Íslands til að syngja í Salnum og rómar hljómburð og viðtökur. Carola Häggkvist er annað dæmi, söngkonan sem hefur verið fulltrúi Svía í Evrópusöngvakeppninni í þrígang og á enn sölumet í Svíþjóð fyrir fyrstu plötuna sína, Främling. Hún hældi Salnum á hvert reipi og móttökunum sem hún fékk þar, ekki síst hjá tæknistjóranum svarfdælska!
Hér á Svarfdælasýsli ber auðvitað að nefna sérstaklega Karlakór Dalvíkur og Matta Matt sem gerðu allt vitlaust í Salnum með flutningi laga Bítlanna og Queen í janúar 2010. Júlli hafði mikið við þegar hann þjónaði sveitungum sínu að norðan og tók upp tónleikana í hljóði og mynd í útgáfugæðum. Hann lét svo framleiða DVD-diska fyrir kórinn en er jafnframt á því að efnið hefði verðskuldað frekari útbreiðslu.
„Við hljóðrituðum söng og hljóðfæraleik á 24 rásir og notuðum þrjár myndavélar til upptökunnar. Það hefði þurft tiltölulega lítið til að gera þetta efni skothelt fyrir almennan markað: eina ferð norður til að “stoppa smávegis í kórinn” á nokkrum stöðum, og taka upp aukamyndefni á heimaslóðum kórfélaganna. Síðan hefði þurft aðeins meiri eftirvinnslu og snudd í kringum útgáfuna. Ég var með danska vini í heimsókn um þetta leyti og leyfði þeim að heyra prufumix af tónleikunum. Þeir hlustuðu aftur og aftur og þótti krafturinn í flutningnum stórkostlegur og lífsgleðin hrífandi. Sama sögðu reyndar allir sem heyrðu efnið á meðan vinnsluferlið stóð yfir, þar á meðal nokkrir af okkar bestu tónlistarmönnum, og útsetjurum. Ég er sannfærður um að þetta hefði selst í þúsundum eintaka!“
segir Júlli af mikilli sannfæringu.
Tónlist, spjall við bændur og bílastúss
Júlli Jónasar hefur verið tæknistjóri í Salnum í sex ár. Áður var hann reyndar með annan fótinn í verkefnum þar innan dyra en vann fyrir megninu af saltinu í grautinn sinn á allt öðrum vettvangi. Hann er lærður bifvélavirki og bílamálari, vann sem slíkur og rak lengi eigið fyrirtæki. Hann var í nokkur ár starfsmaður tjónamatsdeildar tryggingafélagsins Sjóvár og svo seldi hann bændum og búaliði varahluti í traktora og heyvinnutæki sem afgreiðslumaður Vélavers í Lágmúla. Enn má nefna að hann skrapp til Danmerkur og dvaldi þar um hríð við að sprauta bíla, aðallega fornbíla. Maðurinn hefur því komið víða við sögu!
Júlli er sjálflærður músíkant og var ekki hár í loftinu þegar hann birtist á sviði á Dalvík með hár niður á herðar og gítar í fangi. Hér syðra var hann svona „hálfatvinnumaður“ í tónlist í hálfan annan áratug og spilaði í mörgum hljómsveitum, til dæmis Opus, Rás eitt og Hafróti. Í nokkur ár störfuðu þau hjónin Mjöll Hólm söngkona og Júlli saman í hljómsveitum. Þau spiluðu og sungu í Þórskaffi, Klúbbnum, á Hótel Sögu, fyrir Kanann á Keflavíkurflugvelli, í Ártúni og víðar, helgi eftir helgi, ár eftir ár. Júlli spilaði líka inn á margar plötur, þá fyrstu með Örvari Kristjánssyni 1985.
Seinna eða 1995 eða svo gáfu Júlli og Mjöll út diskinn Mjöll með frumsömdu efni, aðallega, eftir Júlla og Agnar Steinarsson, son Mjallar. Þetta var í upphafi tölvuvæðingar í upptökutækni, nánast allt gert heima hjá þeim á Atari Falkon vél, sem þótti svakalega græja, þá. Árið 2007 kom svo út diskurinn Tónleikar á þeirra vegum, tekinn upp á tónleikum í Kaffileikhúsinu. Þar syngur Mjöll nokkur af uppáhaldslögunum sínum í skemmtilega djössuðum útsetningum.
Upptökur og Klofarokk
Nú segist Júlli spila mest lítið opinberlega en vinnur þeim mun meira við upptökur og hljóðblöndun á tónlist. Hann tók til dæmis upp tónleika þegar flutt voru öll bestu lög Sigfúsar Halldórssonar og gefin út í flutningi Egils Ólafssonar, Stefáns Hilmarssonar, Heru Bjarkar, Andreu Gylfa og hljómsveitar Björns Thoroddsens. Júlli tók líka upp gítarveislu Bjössa Thor í Salnum til útgáfu á diski, svo dæmi séu tekin.
Júlli hefur sem sagt ekki sagt alveg skilið við spilamennskuna. Hann reynir til dæmis að komast á hina árlegu samkomu Klofarokk, helgarútilegu og alvöru sveitaball sem hljómsveit, að mestu skipuð starfsmönnum upplýsinga- og tæknideildar Kópavogs stendur fyrir í og við félagsheimilið Brúarlundi í grennd við Galtalæk. Sonur Júlla, Ellert Þór er starfsmaður þessarar deildar Kópavogsbæjar og söngvari í bandinu. Júlli segist mæta illa á æfingar, eiginlega aldrei, og hafa því starfsheitið sporhönnuður (kóreografer) innan hljómsveitarinnar:
„Sporhönnun er í þessu tilviki létt verk sem krefst engra hæfileika! Þarna reyni ég að mæta árlega með gítar og fæ að spila með.“

Hópurinn sem stóð að tónleikum með bestu lögum hans Fúsa – Sigfúsar Halldórsson + tæknistjórinn Júlli.
Júlli Jónasar er maður ekki einhamur og verður ekki afgreiddur á einu bretti á Svarfdælasýsli. Þau Mjöll Hólm eiga heilt hljóðver heima hjá sér og sýsla mikið við tónlist þar, bæði við eigin verk og annarra. Útrás fyrir bíla- og véladellu fær Júlli í bílskúrnum. Þar úir og grúir af tækjum og tólum til bílaviðgerða; skúrinn er heill heimur út af fyrir sig.
Síðast en ekki síst verður að gera hér skil gríðarmiklu ljósmyndasafni Jónasar Hallgrímsonar, Jónasar á bílaverkstæðinu. Júlli fóstrar þetta safn föður síns, skannar myndir og stúderar mannlíf fyrir norðan og fleira á myndum sem eru stórmerkileg heimild um fólk og byggð á Dalvík og í Svarfaðardal á öldinni sem var. Meira um það síðar, auðvitað hér á Svarfdælasýsli.
- Smellið á myndirnar ef þið viljið stækka þær og njóta þeirra stærri á skjánum!