Döllurnar frá Dalvík

Staðlað

Döllur í mars 2012: Edda, Gulla, Ellen, Ásdís og Sigrún.

Það er ekki seinna vænna en kynna til sögunnar félagsskapinn Döllurnar á þessum vettvangi, sjö hressar konur sem koma reglulega saman á höfuðborgarsvæðinu undir yfirskini hannyrðasýsls og handverks. Þetta er með öðrum orðum saumaklúbbur og dregur nafn sitt af heimaslóðunum, Dalvík. Þær segja til skýringar nafngiftinni að strákar í Ólafsfirði hafi gjarnan kallað Dalvíkurstelpur Döllur forðum daga (berist fram með órödduðum ellum!) en láta svo kyrrt liggja að ræða frekar um þessa nafnlausu fortíðardrengi handan Ólafsfjarðarmúla. Þær ræða heldur ekki sérlega mikið um hannyrðir og saumaskap, ef út í það er farið. Ein úr hópnum mætir reynar alltaf með prjóna en hinar játa ekki á sig mikla handavinnu á samkomunum, Þær hittast að jafnaði einu sinni í mánuði til skiptis heima hjá þeim stöllum.

Tvær heimsóknir þurfti á Döllufund til að ná þeim öllum á mynd. Veikindaforföll sáu til þess. Fyrri tilraun til myndatöku var á jólaföstunni hjá Ellen. Þá vantaði Gullu. Síðari tilraunin var hjá Gullu núna í mars og þá vantaði Huldu og Sillu. Skrásetjara hefði reyndar hreint ekki verið á móti skapi að fara í hið þriðja sinnið á Döllufund því þar er gott að borða og uppbyggilegar umræður. Meðal annars er farið yfir helstu tíðindi af heimaslóðum, ábyggilegar fréttir sem fótur er fyrir – ekkert bæjarslúður af Dalvík. Sú sem síðast fór norður gefur þannig skýrslu á næsta fundi um það sem hún sá og heyrði. Döllurnar fylgjast því vel með og hvergi er komið þar að tómum kofa um mannlíf fyrir norðan, samgöngur og gæftir til sjávarins.

Döllurnar í desember 2011: Ellen, Ásdís, Hulda, Edda, Sigurlaug og Sigrún.

Dalvíkurferðum gæti fjölgað frekar en hitt í ljósi þess hve margar Döllur starfa á Landspítala því starfsmannafélag spítalans hefur nýverið keypt íbúð á Dalvík og hyggst leigja hana út til orlofsdvalar fyrir starfsmenn. Auðvitað hugsa Döllur sér gott til glóðarinnar í þeim efnum ekki síður en aðrir spítalastarfsmenn sem vilja komast í líkamlega slökun og andlega upplyftingu í svarfdælsku umhverfi.

Döllurnar halda hópinn oftar og víðar en á mánaðarlegum samkomum sínum. Þær efna til árshátíða, hafa farið með mökum sínum í Veiðivötn og stefna að annarri Veiðivatnaferð núna sumarið 2012. Þær hafa líka farið í leikhús með mökunum og hópurinn veltir fyrir sér helgardvöl í sumarbústað norður í landi í ár – auðvitað í Svarfaðardal.

Tvær Döllur fara svo rúmlega bæjarleið núna um páskana. Ellen og Ásdís eru jafnöldrur og fyrrum bekkjarsystur í Dalvíkurskóla. Þær ná þeim áfanga í ár að komast loksins á fullorðinsár og ætla að halda upp það á Indlandi. Umræðuefni skortir því ekki á næsta fundi í Dölluklúbbnum. Tíðindi frá Dalvík þurfa þá að keppa við ferðasögu frá landinu þar sem kýr eru heilagar og við þær stjanað í samræmi við það.

Döllurnar – örkynning

  • Ásdís Gunnarsdóttir – Dísa, dóttir Emmu og Gunna Hær. Leikskólakennari að mennt en starfar í Læknasetrinu í Mjódd við hitt og þetta, tek m.a. á móti Dalvíkingum sem leita sér þar lækninga!
  • Edda Gunnarsdóttir, dóttir Ástu og Gunnars í Bárugötunni. Hjúkrunarfræðingur sem hefur starfað við svefnrannsóknir á Landspítala frá 2006. Rannsóknirnar beinast að fólki sem þjáist af kæfisvefni og vöðvarýrnunarsjúkdómum.
  • Ellen Sigurðardóttir tannsmiður. Dóttir Erlu Björnsdóttur í Ásbyrgi og Sigurðar Haraldssonar skipsstjóra frá Svalbarði. Starfar sem aðstoðarmaður á tannlæknastofu Úlfars Guðmundssonar, sem vel að merkja er eiginmaður hennar.
  • Guðlaug Baldvinsdóttir – Gulla. Uppeldisdóttir Hrannar og Jóa á Dalvík en dóttir Balda og Beggu. Ráðgjafi í íslenska viðskiptahugbúnaðinum Ópus Allt hjá Advania.
  • Hulda Sveinbjörg Gunnarsdóttir, dóttir Ástu og Gunna skipstjóra í Bárugötunni. Hjúkrunarfræðingur og sjúkraliði, hefur líka kennararéttindi á framhaldsskólastigi. Hefur starfað á gjörgæsludeild og vöknun á Landspítala frá 1995.
  • Sigrún Gunnarsdóttir, dóttir Diddu og Gunna málara. Svæfingarhjúkrunarfræðungur á Landspítala við Hringbraut frá 2001, var áður á gjörgæsludeildinni ásamt Huldu.
  • Sigurlaug G. Sverrisdóttir – Silla, dóttir Gerðu og Sverris í Bárugötunni. Fjármálastjóri hjá Efnamóttökunni.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s