Flamberað flatbrauð í boði dalvísks fiskifræðings á Café Loka

Staðlað

Hróður flatbrauðs og rúgbrauðs á matseðli veitingahússins Café Loka, efst á Skólavörðuholtinu, berst víða um heimsbyggðina með erlendum ferðamönnum sem kíkja þar inn á leið til eða frá guðshúsi kenndu við sálmaskáldið Hallgrím.

Sumir fara ekki af landi brott nema koma í annað eða þriðja sinn á Loka en láta eina heimsókn duga fyrir guðshúsið. Café Loki slær í gegn svo um munar. Umsvifin hafa aukist um tugi prósenta á skömmum tíma, þökk sé aðallega erlendu ferðafólki. Íslendingum í gestahópnum fjölgar líka stöðugt, þar á meðal Svarfdælingum og viðhengjum þeirra.

Flatbrauðið rýkur út og rúgbrauðið sömuleiðis. Það þýðir að Þórólfur Antonsson verður að baka oftar og meira með tilheyrandi tilfæringum. Hann rekur veitingastaðinn ásamt eiginkonunni, Hrönn Vilhelmsdóttur textílhönnuði. Reksturinn á annarri hæðinni er að sprengja utan af sér húsrammann og þau ætla brátt að færa út kvíar á jarðhæðinni. Meira um það síðar hér í Svarfdælingasýsli. Nú skal hins vegar segja litla sögu af miklum bakstri.

Úr gasloga í saltvatnsbað

Þórólfur er sonur Tona í fiskbúðinni og Laugu í Lundi á Dalvík og starfar sem fiskifræðingur á Veiðimálastofnun. Hann hefur sem sagt aðra hlið og sú snýr að brauðbakstri.

Þórólfur bakar rúgbrauð á hverjum degi handa gestunum á Loka og einu sinni til tvisvar í viku bakar hann flatbrauð eftir leyniuppskrift úr fórum móður sinnar. Nær væri reyndar að segja að hann eldsteiki brauðið eða flamberaði, eins og það víst heitir á fagmálinu. Kökurnar stikna í gasloga í fáeinar sekúndur og bakarinn dýfir þeim síðan sem snöggvast í léttsaltað vatn. Saltvatnsbaðið er hið eina úr leynilegu bakstursferli Laugu í Lundi sem fæst uppgefið og staðfest hér í máli og myndum. Þórólfur heldur öðrum leyndardómum brauðgerðarinnar út af fyrir sig og það er í góðu lagi svo lengi sem hann bakar ofan í gesti sína. Brauðið hans er undurgott og heimsóknar virði á Loka, svona út af fyrir sig.

Maturinn á Café Loka er bæði góður og sérstakur, sem skýrir vinsældir staðarins. Á matseðlinum má meðal annars sjá brauðsúpu með rjóma, plokkfisk, fiskibollur og kjötsúpu.  Reyktur silungur úr Mývatnssveit er í boði ofan á brauðið og þeir sem sækjast eftir sætmeti kaupa sneið af tertu eða pönnuköku, sem líka eru afurðir heimabaksturs.

Gestir geta meira að segja fengið sér hákarl og brennivínsstaup með. Hákarlinn er verkaður hjá Hildibrandi bónda í Bjarnarhöfn á Snæfellsnesi. Sumum túristum dugar að þefa af hákarlinum, aðrir narta í og enn aðrir borða bitana með bestu lyst og skola þeim niður með brennivíni.

Borgaryfirvöld lutu í gras fyrir Loka Lofeyjarsyni

Hrönn og Þórólfur bjuggu á árum áður á Barónsstíg, í sjónfæri við Hallgrímskirkju. Hann gerði það sér til gamans að ljósmynda guðshúsið frá sama sjónarhorni við mismunandi veður- og birtuskilyrði á öllum tímum ársins. Svo fór að hann setti nokkrar myndir upp til sýnis í kirkjuturninum og hafði þar bók fyrir fólk að kvitta fyrir komuna. Þórólfur þurfti að hafa sig allan við að skipta út útskrifuðum gestabókum og setja nýjar bækur í stað. Þegar sýningunni lauk átti hann um tíu þúsund nöfn skráð í gestabókasafnið sitt!

Þá kviknaði hugmyndin að gera sér bissness úr öllum þessum túristastraumi. Hjónin keyptu húsið við Lokastíg í nóvember 2005 til að opna þar veitingastað. Ráðamenn Reykjavíkurborgar voru hins vegar ekkert á því að hleypa þeim af stað í slíkan rekstur og höfðu uppi ýmsar mótbárur, sem sýndu sig hvorki vera reistar á rökum né lagabókstaf. Fyrst stóð í stappi um leyfi til sjálfs rekstrarins og svo stóð í stappi um vínveitingaleyfi.

Þrefið stóð í hálft þriðja ár og því lyktaði á þann veg að úrskurðarnefnd skipulagsmála og dómsmálaráðuneytið úrskurðuðu væntanlegum veitingamönnum í hag. Ráðuneytið veitti stjórnendum Reykjavíkurborgar þar að auki ofanígjöf fyrir óviðunandi stjórnsýslu í málinu.

Borgaryfirvöld kunnu greinilega lítið fyrir sér í norrænni goðafræði og gerðu sér enga grein fyrir því að Loki er bæði slægur og slunginn bragðarefur. Þau voru dæmd til að láta í minni pokann en þráuðust samt lengur við en góðu hófi gegndi. Það var ekki fyrr en í júlí 2008 að  unnt var að opna veitingastaðinn, kenndan við Loka Laufeyjarson, til þess meðal annars að kynna heimsbyggðinni leynda flatbrauðsuppskrift úr dalvískum Lundi.


Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s