Kór Árbæjarkirkju hefur á að skipa hvorki fleiri né færri en sjö Svarfdælingum. Það er býsna hátt hlutfall þegar þess er gætt að alls eru 32 söngfuglar í kórnum. Landsbyggðarrætur kórsins eru verulegar. Þarna eru sjö Húnvetningar, Strandamenn og Skagfirðingar eiga líka sína fulltrúa, svo eitthvað sé nefnt. Og því skal líka til haga haldið að í hópnum eru 8 hjón, þar af tvenn hjón í Svarfdælahópnum!
Halla og Toni, Halla Jónasdóttir og Anton Angantýsson, eiga lengstan starfsaldur að baki í kórnum. Þau voru þar í nokkur ár á síðasta áratugi aldarinnar sem leið, hættu síðan en byrjuðu á nýjan leik um það leyti sem núverandi organisti og kórstjóri hóf störf í Árbæjarkirkju.
Þegar Elísabet Eyjólfsdóttir og Bjarni Jónsson fluttu suður frá Dalvík á árinu 2004 hafði Halla samband við Elísabetu, sjóaða söngkonu úr kórastarfi fyrir norðan, og hvatti hana til að koma í Kór Árbæjarkirkju. Það gekk eftir og Bjarni fylgdi með!
Systurnar frá Melum, Anna og Soffía Halldórsdætur, gengu líka til liðs við kórinn og síðastur bættist við Jón Baldvin Halldórsson frá Jarðbrú. Kórstjórinn segir reyndar að sá síðastnefndi hafi verið lokkaður í kórinn með kampavíni, sem hljómar trúlega.
Jón Baldvin er sá eini Svarfdælinganna sem býr í Árbæjarhverfi, hin eiga heimili í Grafarvogi, Breiðholti og Mosfellsbæ.
Kórstjórinn er Ungverji, Krisztina Kalló Szklenár að nafni, og fær fyrstu ágætiseinkunn hjá sveitungum vorum. Hún þykir mjög flínk og fær í sínu fagi, ljúf manneskja og mikill karakter. Það fór reyndar ekki á milli mála við stutt innlit á æfingu á dögunum að þarna ríkir léttur og góður andi og ljósmyndarinn átti reyndar fótum fjör að launa frá Kristínu hinni ungversku, sem endilega vildi draga hann inn í kórinn. Hún komst að því að meira segja kampavín dugar ekki sem beita nema á suma í Jarðbrúarfjölskyldunni.
Páskahátíðin er rétt handan við hornið og æfingar kórsins núna eru til undirbúnings messutörninni sem fylgir páskum.
Halla Jónasar segir séra Guðmundur Þorsteinsson hafi verið sóknarprestur í Árbæ þegar þau Toni byrjuðu upphaflega í kórnum og séra Þór Hauksson aðstoðarprestur. Nú er séra Þór sóknarprestur og séra Sigrún Óskarsdóttir er prestur líka í Árbæjarkirkju. Séra Sigrún og séra Jón Helgi Þórarinssson, fyrrum prestur á Dalvík og núverandi sóknarprestur í Langholtsprestakalli, skiptu um prestakall tímabundið. Séra Sigrún þjónar því Langholtsprestakalli núna en Jón Helgi er í Árbæjarkirkju og hitti þar fyrir mörg kunnugleg andlit í kórnum!
„Prestarnir tveir, Þór og Sigrún, eru frábært teymi og í kringum þau ríkir sérdeilis góður andi. Séra Sigrún segir að Kór Árbæjarkirkju sé best varðveitta leyndarmálið meðal kóra á höfuðborgarsvæðinu og ég held að það sé rétt, við erum hins vegar óskaplega hógvært fólk,“ segir Halla og bætir við:
„Við höldum því auðvitað til haga að í kórnum séu sjö Svarfdælingar en Húnvetningar benda þá á að þeir séu líka sjö talsins. Þá er þeim bent á að við komum öll úr einni sveit en þeir úr tveimur sýslum og þar með höfum við augljósan vinning!
Hvað við gerðum í millitíðinni þegar við tókum hlé frá söng í Árbæjarkirkju? Við vorum bæði í öðrum kórum og höfðum hreinlega ekki tíma til að sinna þessu öllu á sama tíma. Svo sungum við Fríður vinkona mín mikið saman við ýmis tækifæri og gáfum meðal annars út disk með Dalvíkingnum Kára Gestssyni. Við æfðum líka með Skúla Halldórssyni tónskáldi og héldum með honum tónleika í Gerðubergi. Þá var Skúli 82 ára og þetta urðu síðustu opinberu tónleikarnir hans. Fríður vinkona mín lést úr krabbameini langt fyrir aldur fram í ágúst árið 2000.“
- Kór Árbæjarkirkju á æfingu
- Kór Árbæjarkirkju á æfingu
- Krisztina Kalló Szklenár kórstjóri
- Kór Árbæjarkirkju á æfingu
- Kór Árbæjarkirkju á æfingu
- Kór Árbæjarkirkju á æfingu
- Krisztina Kalló Szklenár kórstjóri
- Svarfdælagengið
- Svarfdælagengið
- Svarfdælagengið
- Svarfdælagengið frá vinstri: Soffía, Jón Baldvin, Anna, Toni, Elísabet, Bjarni, Halla.