Það er ekki leiðinlegt að valsa á milli stóru atvinnuleikhúsanna í höfuðstaðnum og horfa á sveitunga sína brillera á sviðinu. Í Borgarleikhúsinu fara Hjöri frá Tjörn og Eiríkur Stephensen á kostum við að segja Íslandssöguna á hundavaði. Sú sýning er alveg makalaus og stemningin í salnum eftir því. Þegar meira að segja Jón Viðar Jónsson gagnrýnandi gefur Hundi í óskilum fimm stjörnur fyrir sýninguna er ekki nema tvennt til, annað hvort er maðurinn genginn af göflunum (fimm stjörnur voru áður óþekkt fyrirbæri á gagnrýnendaferli mannsins) eða að sýning er einfaldlega í sérflokki. Og hið síðarnefnda á hér við. Ég sé að Borgarleikhúsið áætlar hundasýninguna fram í miðjan apríl. Hún er skylduverkefni fyrir alla sem vilja eiga góða (svarfdælska) stund í leikhúsi.
Svo er það Eyþór Ingi, Dalvíkingurinn með englahárið og röddina með allan tónskalann og rúmlega það. Hann er fyrirbæri í sjálfu sér og vakti fyrst þjóðarathygli með því að rúlla upp keppinautum sínum í baráttu um sæti í bandinu hans Bubba á Stöð 2 hér um árið. Núna er hann á sviði Þjóðleikhússins í hlutverki Maríusar í Vesalingunum. Sú sýning er reyndar mögnuð sem slík en fyrir Svarfdælinga er hún líka skylduverkefni til sjá og heyra Eyþór Inga. Hann fer virkilega vel með sinn hlut og sannar enn einu sinni þvílíkir hæfileikar búa í drengnum.
Ég man fyrst eftir Eyþóri Inga á hestamannasamkomu í Svarfaðardal fyrir þónokkrum árum. Þar söng hann og hermdi eftir á þann hátt að gleymist ekki. Spaugstofumaðurinn Örn Árnason var kynnir á samkomunni og undrunarsvipurinn á honum eftir atriði Eyþórs Inga var áberandi og ekta. Hann spurði sjálfan sig og gesti í sal: Hvers vegna eruð þið að kaupa rándýra skemmtikrafta að sunnan þegar þið eigið svona mann hér á staðnum?!
Sem sagt: Saga þjóðar og Vesalingarnir. Missið ekki af þessum sýningum.
- Bónusefni: Eyþór Ingi og Matti Matt taka lagið í bás Dalvíkurfyrirtækisins Promens á sjávarútvegssýningunni í Kópavogi í september 2011.