Helga Matt er örugglega þekktasta Helga heims og þótt víðar væri leitað í sólkerfinu. Nafnið hennar klingir þegar Heiðar Helguson ber á góma í íþróttafréttum um víða veröld og hún stóð sjálf á verðlaunapalli í janúar 2012 þegar íþróttafréttamenn sæmdu soninn nafnbótinni íþróttamaður ársins til að taka við tilheyrandi viðurkenningu fyrir hans hönd. Heiðar átti ekki heimangengt úr vinnunni sinni í Bretlandi og vildi að mamman tæki við gripnum og færi með heim til að geyma sem stofustáss. Það að vildi mamman hins vegar ekki og stakk upp á að fela Þrótti, gamla félaginu hans Heiðars, að hafa gripinn til sýnis í félagsheimilinu sínu í Laugardal. Það varð úr en Dalvíkingar og gestir þeirra fá samt líka að njóta vegsemdar Heiðars í sumar:
„Það kom aldrei annað til greina en að verðlaunagripurinn yrði um hríð heima á Dalvík. Ég ætla að fara með hann norður í sumar og þú getur sagt frá því að hann verði til sýnis í sundlauginni á Fiskidaginn mikla!
Það var hrikalega skemmtilegt að fá að taka við þessari viðurkenningu og ég var reyndar alveg viss um að Heiðar yrði fyrir valinu, hann átti það svo sannarlega skilið. Mér fannst blasa við að aðrir á listanum væru frekar kandídatar síðar í íþróttamenn ársins. Það var hringt í Heiðar á nýársdag til að tilkynna niðurstöðuna í kjöri íþróttafréttamanna og þá lá strax fyrir að hann gæti ekki verið hér heima við athöfnina í janúar. Hann hringdi strax í mig og sagði að ég yrði staðgengill en ég mátti engum segja. Það var erfiðast af öllu að þurfa að þegja yfir tíðindunum dögum saman. Ég kjaftaði þeim ekki í nokkurn mann!“
Helga Matt starfar í Fylgifiskum við Suðurlandsbraut í Reykjavík, fyrirtæki sem í senn er verslun og veitingahús með fyrirtaks sjávarfang af öllu tagi. Fylgifiskar voru og eru engu líkir hérlendis, frumkvöðull á sínu sviði. Guðbjörg Glóð Logadóttir er stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Meðeigendur eru Gunnar Logason og Sveinn Kjartansson.
Helga flutti suður frá Dalvík 1999 til að vinna hjá Elvu systur sinni og Jóni Gunnarssyni í fatahreinsuninni á Eiðistorgi. Þar var hún til 2003 og skrapp þá norður í frí og ætlaði að dvelja um hríð. Fríið styttist í annan endann vegna blaðaauglýsingar sem hún rak augun í að morgni laugardags, þá nýkominn til Dalvíkur.
„Guðbjörg Glóð hafði verið í viðtölum í fjölmiðlum að kynna væntanlegan rekstur Fylgifiska. Mér fannst hugmyndir hennar ofboðslega spennandi og þegar ég sá Fylgifiska auglýsa eftir starfsmanni, þá stödd heima á Dalvík, hringdi ég strax að morgni mánudags suður og réði mig eiginlega sjálf til starfa í gegnum símann. Ég sagðist bara ætla að vinna þarna, fór suður í viðtal og var bara býsna drjúg með mig í spjalli við væntanlega yfirmenn mína. Þeir komust auðvitað ekki hjá því að ráða mig og hér er ég enn, níu árum síðar! Það er mjög gott að vera hjá Fylgifiskum, enda vinnustaður sem vel er hugsað um og eigendurnir eru toppfólk. Bestu meðmælin með staðnum eru kúnnar sem koma hingað aftur og aftur til að kaupa í matinn eða borða í hádeginu.“
Snemma beygðist krókur keppnisandans
Aftur að fótboltanum. Helga horfir á alla leiki Queens Park Rangers í sjónvarpinu, hvort sem sonurinn spilar eða ekki. Minnst einu sinni á ári fer hún á völlinn ytra, síðast í vetur þegar QPR tapaði fyrir Manchester City á heimavelli. Heiðar skoraði skondið mark í þessum leik, með bakinu!
„Matta systir var með mér í ferðinni. Þetta var flottur leikur hjá báðum liðum og Heiðar spilaði allan tímann. Hann er þreyttur eftir svona törn en skilur svekkelsi yfir óhagstæðum úrslitum eftir á vellinum, enda hluti af atvinnumennskunni að taka því sem að höndum ber. “
Helga Matt er reyndar staðfestur stuðningsmaður Liverpool og hefur alltaf verið. Ýmsir fleiri henni tengdir eru sama sinnis í enskum knattspyrnufræðum:
„Mamma (Lóa Gests) er alveg brjálaður Púlari líka og horfir á hvern einasta leik Liverpool í sjónvarpinu. Hún fór á völlinn í fyrsta sinn núna um daginn, með Gesti bróður og Bryndísi mágkonu, og sá Liverpool tapa fyrir Arsenal. Hún var marga daga að jafna sig á því!“
Heiðar varð að sjálfsögðu Púlari strax sem strákpolli og þakti herbergið sitt með myndum að leikmönnum Liverpool svo hvergi sást í ljósan díl á veggjum. Hann límdi meira að segja fótboltamyndir neðan í loftið! Keppnisskapið kom fljótlega fram hjá honum því ef Liverpool tapaði átti hann til að rífa niður allar myndir af veggjum og úr lofti og lýsa yfir að hann væri hættur að halda með liðinu. Svo liðu fáeinir klukkutímar, stundum ekki nema einn klukkutími. Þá hafði hann jafnað sig og fór að slétta úr myndunum og líma þær upp aftur.“
Á miðvikudaginn kemur, 21. mars, er merkisdagur í þessari svardælsku Púlarafjölskyldu því á dagskrá ensku knattspyrnunnar er leikur Liverpool og QPR en vel að merkja: Heiðar Helguson verður fjarri góðu gamni. Hann hefur verið meiddur, er óðum að ná sér en nær samt ekki að spila gegn gömlu goðunum sínum í þetta sinn.
Móðirin telur samt fullvíst að sonurinn muni ekki rífa niður myndir af veggjum ef Púlarar tapa fyrir QPR. Hún heldur því reyndar til haga að Heiðar gerði sitt til að leggja Liverpool í fyrsta leiknum sínum í ensku úrvalsdeildinni. Hann lék þá með Watford, klúbbnum sem sjálfur rokkarinn Elton John var stjórnarformaður í, skoraði þarna í fyrsta leik en Liverpool hafði samt sigur.
Hvað gerir Helga sjálf þegar valið stendur um Bítlaborgarliðið og Queens Park Rangers í einum og sama leiknum. Hún þarf að hugsa sig um.
„Ég styð bæði lið … nei, hvernig læt ég. Auðvitað vil ég að QPR vinni og allra helst að Heiðar setj’ann sé hann með á annað borð!“