Svarfdælingar beggja vegna afgreiðsluborðsins

Staðlað

„Margir sveitungar okkar eru í viðskiptavinahópnum eða fastagestir. Matti Matt er fastakúnni, Hjálmar Hjálmarsson kemur líka reglulega og Friðrik Ómar líka, Dalvíkingurinn Ómar Gunnarsson, sonur Gunna spar, vinnur hérna hinum megin veggjar í húsinu okkar og rekur oft inn nefið. Friðrik frá Melum starfar á rafeindaverkstæði og vinnur fyrir okkur í viðgerðum. Hann kemur hingað minnst einu sinni í viku. Blessaður vertu, þeir eru fleiri fastagestirnir, ég get nefnt líka Magga Mæju og Lalla rakara. Svarfdælskur andi svífur yfir vötnum daginn langan!“

Þetta segir Sindri Már Heimisson Kristinssonar skólastjóra, svarfdælskur framkvæmdastjóri Hljóðfærahússins-Tónabúðarinnar við Síðumúla í Reykjavík. Sveitungi hans, Jón Kjartan Ingólfsson Jónssonar á Tréverk, er verslunarstjóri. Allt er þegar þrennt er því Trausti, bróðir Jóns Kjartans, er verslunarstjóri Tónabúðarinnar á Akureyri sem fyrirtækið á og rekur líka!

Sindri Már kom til starfa í Hljóðfærahúsinu árið 2001 þegar verslunin var í eigu Skífunnar. Fyrirtækið skipti um eigendur árið 2006, Sindri Már  varð þá meðeigandi og framkvæmdastjóri í þessu fyrirtæki sem hefur stækkað, eflst og dafnað. Verslunin í Reykjavík er á yfir þúsund fermetrum og þar er að finna hljóðfæri af öllu tagi og margskonar græjur til tónlistarflutnings og vinnu í hljóðverum.

Sindri Már, Jón Kjartan og félagar selja fjölda flotta merkja í bransanum, til dæmis Fender og Yamaha. Þeir fundu vel fyrir afleiðingum efnahagshrunsins en landið fór svo að rísa á nýjan leik. Reksturinn gekk nokkuð vel í fyrra og árið 2012 lofar góðu.

Mörgum kunnuglegum andlitum bregður fyrir í föstum kúnnahópi Hljóðfærahússins-Tónabúðarinar. Menn kippa sér til dæmis ekkert upp við að landsliðsmenn í tónlist á borð við Mugison eða Valgeir Guðjónsson svífi reglulega þar inn á gólf til að ræða málin. Og starfsmenn verslunarinnar eru svo sem engir aukvisar heldur í bransanum. Þeir eru sjö talsins og allir í hinum og þessum hljómsveitum nema Sindri Már. Samstarfsmenn hans eru spilandi í Ensími, Dr. Spock, Saga Class, Hunangi, Varsjárbandalaginu, Milljónamæringunum,  hljómsveit Mugisons og ábyggilega enn fleiri böndum.

Sindri lætur að mestu duga að koma árlega fram sem harmóníkuleikari í tveggja manna bandi við brennuna í Fossvogi á gamlárskvöld og troða upp á bjórkvöldum Svardælinga. Það eru hins vegar virðingarstöður sem eru ekki í boði fyrir hvern sem er, ekki einu sinni fyrir Mugison eða Valgeir Guðjóns.

Sindri Már með nikkuna. Þetta fagra hljóðfæri er falt fyrir ríflega milljón kall!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s