Jón Kjartan, verslunarstjóri Hljóðfærahússins-Tónabúðarinnar, kom til starfa í Tónabúðinni þegar hún var opnuð í Reykjavík 1994. Hljóðfærahúsið keypti Tónabúðina 2007 og ári síðar voru fyrirtækin sameinuð. Jón er því sannkallaður reynslubolti í hljóðfæraviðskiptum og meðfram starfinu spilar hann á bassa í tveimur hljómsveitum.
„Ég er í Saga Class sem aðallega er árshátíða- og „salt-í-grautinn-band“! Svo er ég í South River Band, hljómsveitinni sem Ólafur heitinn Þórðarson, kenndur oft við Ríótríóið, stofnaði á sínum tíma ásamt fleirum sem áttu rætur að rekja til Kleifa við Ólafsfjörð. Óli réði mig sem bassaleikara í afleysingum fyrir um tveimur árum þegar bassaleikarinn, orgínal Kleifakarl, fór til Danmerkur til að sinna einhverju verkefni. Sá er enn þar ytra og „afleysingin“ er orðin öllu lengri en til stóð í upphafi, sem mér leiðist ekki neitt.
Eftir að Óli féll frá kom Guðmundur Benediktsson í bandið en hann veiktist í baki og forfallaðist. Í stað hans er kominn til okkar gítarleikari frá Dalvík, Magni Gunnarsson – sonur Gunnars vélstjóra og bróðir Dóra vélstjóra. Magni er gamall spilafélagi minn úr Stuðkompaníinu. Þetta var góð sending og ég vonast til að hann verði áfram.
Félagsskapurinn er fínn í Kleifabandinu, ég trúði því bara ekki að óreyndu að Ólafsfirðingar væru svona skemmtilegir! Vissulega flikkar það samt upp á bandið að gera það dalvískara. Við spiluðum á þjóðlagahátíð í Reykjavík á dögunum, þrír Ólafsfirðingar og tveir Dalvíkingar. South River Band lítur mjög vel út með slíka áhöfn.“