
Hallur Steingrímsson frá Ingvörum, Karl Sævaldsson, Júlli Jónasar og Hrönn, vert og textílhönnuður, á samkomunni á Loka 9. mars.
Svarfdælingar á höfuðborgarsvæðinu og viðhengi þeirra koma gjarnan saman að kveldi fyrsta föstudags í mánuði yfir vetrartímann, sötra öl eða kaffi, og ræða málin. Þetta hófst á krá í Kópavogi veturin 2010-2011, að frumkvæði Hauks Sigvalda og Sindra Más Heimissonar, en í vetur hefur vettvangurinn verið Café Loki – þetta notalega veitingahús efst á Skólavörðuholtinu undir vegg sjálfrar Hallgrímskirkju. Það á auðvitað sérlega vel við að Svarfdælir komi saman einmitt þarna, því Svarfdælingurinn Þórólfur Antonsson rekur staðinn ásamt eiginkonunni, Hrönn Vilhelmsdóttur textílhönnuði. Og undir þessu sama þaki starfar Hrönn að listsköpun sinni og list hennar setur svip á staðinn, sem og auðvitað það sem á borð er borið í nafni matargerðarlistarinnar.
Svarfdælingar hittust á Loka föstudagskvöldið 9. mars, sem auðvitað var ekki fyrsti föstudagur mánaðarins heldur annar í röðinni. Það var af praktískum ástæðum en meginreglan er og verður sem sagt fyrsta föstudagskvöldið. Það var ekki sérlega margtmennt í þetta sinn en afskaplega góðmennt og sumir sveitungar ráku þar inn nefið í fyrsta en væntanlega ekki í síðasta sinn. Loki breyttist reyndar í Kaffi Lund í tilefni dagsins því vertinn Þórólfur tróð upp með kveðskap eftir sjálft Dalvíkurskáldið Harald Zophoníasson frá Barði og Anna Dóra systir hans las upp úr nýútkominni skáldsögu sinni, Hafgolufólki. Viðstödd var systirin Arna og ættmóðirin Lauga í Lundi, svo samkoman varð í bland Svarfdælingamót og ættarmót Lundar.
- Upptaka á YouTube frá jólabjórkvöldi Svarfdælinga 3. desember 2011 – um eldmessu á Tjörn og trillukarla á Dalvík.
Svakalega flott hjá þér kallinn minn, myndin af Dalnum ( bara einn dalur á Íslandi) alveg sérlega falleg.
Takk Arna, það getur ekki klikkað að föndra við jafn flott fólk og Svarfdælingar eru upp til hópa …
Flott framtak hjá þér Atli og gaman að fá innsýn í sýsl Svarfdælinga sunnan heiða….
Meira………..
Takk og ég mun ganga eftir því fyrr en síðar hvað ÞÚ sjálfur ert að sýsla …!
Gaman að fylgjast með, þó ég sé ekki í neinum félagsskap Svarfdælinga er ég Svarfdælingur og var alin upp við sögur og fróðleik um fólkið mitt í dalnum. Var einnig oft hjá ömmu og afa,fyrir norðan þau voru bæði Svarfdælingar. Bestu kveðjur til þín Atli Rúnar. -KP.