Anna Kristín og Glaður heim í Grund með bros og bikar

Standard

IMG_3197Hestakonan knáa, Anna Kristín Friðriksdóttir á Grund í Svarfaðardal, sýndi það og sannaði í Skautahöllinni í Reykjavík í kvöld að hún er komin í hóp bestu knapa landsins, einungis tvítug að aldri. Hún atti kappi við marga af bestu knöpum landsins á sterkasta móti sem hún hefur nokkru sinni tekið þátt í og náði þriðja sæti í B-úrslitum eða 8. sæti í heildarkeppninni í ístölti þar sem 29 keppendur voru skráðir til leiks. Continue reading

Jaxl og fjölfræðingur

Standard

Hann titlar sig „Jaxlinn“ á Fésbók en gæti allt eins skráð sig „fjölfræðing“ bæði þar og í símaskránni. Eiginlega er fljótlegra að nefna það sem Dalvíkingurinn Þorsteinn Helgi Guðbjörnsson hefur ekki gert um dagana en það sem hann hefur sýslað við til  að afla sér reynslu, þekkingar og tilheyrandi starfstitla.

Nú um stundir færir hann út kvíar skrifstofuhalds Alþýðusambands Íslands og lífeyrissjóða í Reykjavík en gerir hlé á þeim verkum í nokkrar vikur til að setja saman kvíar fiskeldis í Bíldudal. Og svo styttist í páskafrí á heimaslóðum fyrir norðan. Continue reading

Fyrstu spilararnir útskrifaðir úr Brúsakademíunni

Standard

IMG_2625Brúsakademían nýstofnaða í Álftalandi tók til starfa með tilþrifum í dag og útskrifaði á annan tug spilara eftir nokkurra klukkustunda grunnám í spilamennsku.

Brús er þekkt og spilað á örfáum stöðum á landinu en hvergi af jafnmiklum krafti og í Svarfaðardal.

Þess var til dæmis gætt í Húsabakkaskóla sáluga að helst enginn heimamaður væri þar útskrifaður nema vera líka útlærður brússpilari. Það voru helst krakkar úr öðrum héruðum sem þráuðust við að læra brús á Húsabakka og sumum hverjum tókst sjálfsagt að hverfa á braut brúsþekkingarlausir. Continue reading

Hnjúksarinn Raggi í Ytra-Garðshorni lítur um öxl

Standard
Jón Ragnar við stofuglugga heima á Seltjarnarnesi. Það var vetrarlegt um að litast þennan dag marsmánaðar 2014.

Jón Ragnar við stofuglugga heima á Seltjarnarnesi. Það var vetrarlegt um að litast þennan dag marsmánaðar 2014.

Hann reyndi fyrir sér á leiklistarbrautinni og lék hundgá fyrst og símskeytasendil svo í leiksýningum hjá ungmennafélaginu Þorsteini Svörfuði á Þinghúsinu að Grund.

Síðar horfði hann til himins og ætlaði að verða prestur. Hann horfði enn og aftur til himins og valdi þá frekar að fljúga en að gerast andlegur tengliður manna og almættisins.

Jón Ragnar Steindórsson komst þar með á rétta hillu. Continue reading

Svarfdælskur mars og fjör á Þinghúsinu að Grund vorið 1980

Standard

Anna Jóhannsdóttir í Syðra-Garðshorni og Steinar Steingrímsson frá Ingvörum á fullri ferð á gólfinu. Anna var þarna 87 ára og bjó í Dalbæ á Dalvík. DB-mynd: Helgi Már Halldórsson.

Þrettándi dagur aprílmánaðar árið 1980. Vor í lofti í Svarfaðardal. Á Þinghúsinu að Grund dunar dans í kastljósum kvikmyndavéla.

Það er verið að filma svarfdælska marsinn. Upptakan sú er einstök heimild um Svarfdælinga á þessum tíma ekki síður en um dansinn sjálfan. Continue reading

Neminn úr Skíðadal bakaði meistarana

Standard

Íris Björk með sigurkökuna sína í Sveinsbakaríi fyrir allar aldir í morgun!

Skíðdælingurinn og bakaraneminn Íris Björk Óskarsdóttir kom, bakaði og sigraði í samkeppni um köku ársins 2014 og braut þar með blað á tvennan hátt. Kona hefur aldrei fyrr átt köku ársins og bakaranemi hefur aldrei áður borið sigurorð af meisturum í iðngreininni í þessari sæmdarkeppni. Continue reading

Djassaður söngfugl svarfdælskrar ættar í Hörpu

Standard

ifhFærri komust að en vildu til að hlýða á djasstónleika Ingibjargar Fríðu Helgadóttur og hljómsveitar í Kaldalónssal Hörpu í dag. Þeir sem þurftu frá að hverfa misstu af miklu. Mjög miklu!

Samkoman var í tónleikaröðinni Eflum ungar raddir, sem Efla verkfræðistofa hafði frumkvæði að í vetur með ungum söngvurum í tilefni fertugsafmælis fyrirtækisins 2013. Continue reading

Blótað og brosað allan hringinn

Standard

Þorrablót Suðursvarfdælinga tókst með miklum ágætum og óhætt að segja að gestir hafi brosað allan hringinn við brottför úr Víðidal. Við höfum ekki verið fyrr með samkomur í Fáksheimilinu og í ljós kom að Fáksheimilið hentar afskaplega vel fyrir skrall af þessu tagi.

Menn rata líka hiklaust á vettvang á næstu samkomu, reynslunni ríkari eftir vegvillur gærkvöldsins. Sumir fóru beint í Reiðhöllina og gripu í tómt, aðrir mættu með trogin sín á dýraspítalann en þar var ekki annað að finna en dýralækni með geldingartengur. Svoleiðis tæki eru mestmegnis óþörf á þorrablótum Svarfdælinga.

Hjörleifur Hjartarson frá Tjörn fór á kostum í embætti veislustjóra. Á myndinni hér til vinstri kemur hann glaðbeittur til blóts. Continue reading

Söngbækur fá framhaldslíf – opnunarsöngur færður til ættar

Standard

bok-1Söngbók Svarfdælinga lá við hvers manns trog eða disk á Svarfdælingablótinu í Víðidal í gærkvöld. Þetta hefti með söngtextum var prentað fyrir um áratug á Dalvík fyrir þáverandi undirbúningsnefnd þorrablótsins á Rimum. Í aðdraganda blótsins á Rimum í ár var prentuð ný söngbók og ætlunin var að senda upplag þeirrar endurvinnslu  pappírs á Akureyri. Tilviljun réð því að upplag söngbókarinnar fór suður í flugi til blótsnefndar í Fáksheimilinu í stað þess að lenda í hremmingum endurvinnslu og gjöreyðingar nyrðra. Continue reading